Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Það er úr lausu lofti gripið hjá hv. 1. þm. Suðurl. að við höfum tafið afgreiðslu þessa máls. Við í fjh.- og viðskn. deildarinnar fengum í hendur sem fyrsta mál þingsins í haust fremur ófullkomið frv. eða drög að frv. um verðbréfasjóði. Við höfum unnið mikið í þessu máli og vorum búin að útbúa allgott frv. til lagasetningar. Þetta frv. væri orðið að lögum nú þegar ef Ed. hefði ekki skemmt það. Ég er ekki sammála þeim breytingum sem Ed. gerði á málinu. Ég held að það færi ekki síður vel að láta 30. gr. halda sér eins og við gengum frá henni. Það er að vísu hægt, eins og hæstv. viðskrh. orðaði það, að taka þessi ákvæði inn í seðlabankalögin. Við fáum til meðferðar frv. til laga um Seðlabanka og getum þá lögfest þessi ákvæði þar og gert það áður en við göngum frá frv.
    Ég treysti því að hæstv. viðskrh. beiti sér fyrir því við formann fjh.- og viðskn. Ed. að seðlabankafrv. verði hraðað þannig að það geti komist í okkar hendur vel útbúið með gildum ákvæðum sem hald er í um þetta efni og geti það áður en langt um líður.