Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. fór að bera af sér að stjórnarmeirihlutinn hefði verið að tefja fyrir þessu máli. Ég minni á að þetta er fyrsta mál þingsins. Þetta er það mál sem a.m.k. margir stjórnarliðar lögðu hvað mest kapp á og mest upp úr þegar stjórnin var mynduð að samþykkja ætti á þessu þingi. Annaðhvort hefur það gerst þegar komið er fram undir páska og fyrsta mál þingsins ekki afgreitt að stjórnarmeirihlutinn hefur verið að tefja fyrir framgangi málsins ellegar þá það hefur verið staðið að vinnu við athugun og skoðun á frv. með slíkum eindæmum og slíkum sleifarhætti að engu tali tekur. Það er auðvitað ekki hægt að verja það að fyrsta mál þingsins sé fyrst að koma til lokaafgreiðslu þegar komið er fram undir páska. Það er annaðhvort eitthvert sleifarlag eða þá að menn hafa markvisst verið að reyna að tefja fyrir framgangi málsins. Ég ætla svo sem ekki að vera að kveða upp úr með það hvor ástæðan er fyrir hendi hjá stjórnarliðinu að því er þetta mál varðar.
    Það er hins vegar ámælisvert að frv. skuli ekki vera orðið að lögum því það er löngu brýnt að setja þessa löggjöf til að tryggja öryggi í verðbréfaviðskiptum, tryggja þessa starfsemi, skapa henni eðlilegan grundvöll og viðskiptamönnum hennar meira öryggi, efla þessa starfsemi eins og kemur fram í athugasemdum með frv. að er megintilgangur með þessari lagasetningu. Þess vegna er brýnt að hún nái fram að ganga og það er ámælisvert hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur staðið að framgangi málsins. Það er hins vegar fagnaðarefni, sem hér hefur komið fram, að hv. Ed. hefur gert breytingu á frv. til batnaðar og síst ætti það að verða til þess að menn standi hér upp enn einu sinni og reyni að tefja framgang málsins. Og ég vil mótmæla því kröftuglega, sem fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns hv. fjh.- og viðskn., ef tefja á framgang málsins og binda samþykki þess því skilyrði að eitthvað annað frv. verði afgreitt í þinginu sem er til meðferðar í hv. Ed. Það er til fullkominnar skammar fyrir stjórnarmeirihlutann ef það á að fara að binda það því skilyrði að samþykkja þetta frv. að eitthvað annað frv. í Ed. nái fram að ganga. Hvaða tortryggni er þetta í stjórnarliðinu, milli stjórnarflokkanna, hvers konar tortryggni er það að binda samþykki eins stjfrv. því skilyrði að eitthvað annað frv. nái fram að ganga? Ja, það er eitthvað mikið sem gengur á þarna á milli ef menn treysta ekki hverjir öðrum betur en þetta.
    En ég bendi á að það frv. sem þarna um ræðir er auðvitað mikill ágreiningur um og með öllu ástæðulaust, tilefnislaust og óverjandi að fara að tengja afgreiðslu þessa frv. við frv. uppi í Ed. og ég mótmæli þeim töfum sem hér eru með skipulögðum hætti hafðar í frammi því það er brýnt og löngu orðið nauðsynlegt að þessi löggjöf verði sett.