Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég tel að sú breyting sem gerð var í Ed. á þessu frv. hafi verið til bóta. Í raun og veru væri ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja þetta mál á þessum fundi. Venju samkvæmt er þó eðlilegt að málið fari til fjh.- og viðskn. Sú nefnd, og reyndar aðrar nefndir, hafa reyndar oft skoðað breytingar af þessu tagi áður en málin koma til 3. umr. og hefði auðvitað verið unnt að gera það í þessu tilviki.
    En það er annað og meira sem býr hér á bak við sem ég vil sérstaklega vekja athygli á í þessari umræðu og undirstrika. Hv. 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson orðaði það á þá leið að nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. Nd. hafi brugðið í brún þegar þeir sáu að búið var að breyta þessu frv. og lásu það á baksíðu Morgunblaðsins á sínum tíma. Hvers lags samskipti eru á milli stjórnarliða, ekki aðeins milli flokka, eins og hér er að koma í ljós að eru ekki upp á það allra besta, heldur á milli manna innan stjórnarflokkanna? Það sem hv. þm. Árni Gunnarsson er með öðrum orðum að segja er að formaður þingflokks Alþfl., hv. formaður fjh.- og viðskn. Ed., hafi ekki látið svo lítið sem að láta sinn þingflokk vita eða nefndarmenn síns flokks í fjh.- og viðskn. Nd. Og það sama er að gerast með fjh.- og viðskn.-menn annarra flokka stjórnarliðanna. Þetta virðist koma mönnum hér gjörsamlega á óvart. Þeim ,,bregður í brún`` þegar þeir sjá hvað gerst hefur. Þetta sýnir auðvitað að það er allt í upplausn, ekki aðeins á milli flokka í þessari ríkisstjórn heldur á milli manna innan flokka. Það veit enginn lengur hvernig hver vinnur, hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir.
    En ég vil sérstaklega vekja athygli á öðru atriði í þessu sambandi. Auðvitað reynir hæstv. viðskrh. að breiða yfir þann ágreining sem hér er kominn upp innan stjórnarinnar. Það er auðvitað ráðherra siður og ráðherra háttur að gera það, og hann orðar það þannig að það sé jú rétt að málið fari til nefndar en það séu fáein formsatriði óleyst áður en hægt sé að afgreiða málið héðan. Það er sko ekki svo að það séu fáein formsatriði óleyst. Hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson reiðir öxina yfir höfuð hæstv. viðskrh. í þessu máli. Hann segir: ,,Ég mun ekki afgreiða þetta mál frá fjh.- og viðskn. Nd. fyrr en ég er búinn að sjá til þess að seðlabankafrv. fari úr nefndinni og í gegnum deildina.`` M.ö.o., eins og ég sagði, hann reiðir öxina að höfði hæstv. viðskrh. í þessu máli. Það þýðir því ekkert, hvorki fyrir hæstv. viðskrh. né neina aðra, að vera að breiða hér yfir. Það er greinilega bullandi ágreiningur í þessu máli á milli stjórnarflokkanna, og ekki nóg með það, bullandi ágreiningur á milli manna innan stjórnarflokkanna.