Erfðalög
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á erfðalögum, nr. 8 14. mars 1962, með síðari breytingum. Frv. þetta er samið af þeim Markúsi Sigurbjörnssyni, settum prófessor, Ragnari H. Hall borgarfógeta og Skúla Guðmundssyni, deildarstjóra í dómsmrn. Aðalatriði frv. eru einkum eftirfarandi:
    1. Að breytt verði núgildandi reglu 1. mgr. 3. gr. erfðalaga sem kveður á um að foreldrar látins manns taki arf á móti maka hans ef hann lætur enga niðja eftir sig í það horf að maki verði einkalögerfingi hins látna við þær aðstæður.
    2. Að heimildir langlífari maka til setu í óskiptu búi verði rýmkaðar verulega.
    3. Að reglum erfðalaga verði breytt um frádrátt fyrirframgreiðslu arfs við endanlegt uppgjör hans.
    4. Erfðalögum verði breytt þannig að þau falli að fyrirhuguðum aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    5. Tilvísunum verði breytt í erfðalögum til annarra laga sem nú eru fallin úr gildi og settar þess í stað tilvísanir til núgildandi reglna.
    Frv. þetta hefur hlotið meðferð í hv. Ed. og um þar var það full samstaða. Þar er m.a. byggt á þeirri umræðu sem hér hefur verið á hv. Alþingi á undanförnum árum og kom m.a. fram í lögum nr. 29/1985 og einnig má vísa til umræðu um málið sem síðan hefur verið hér á Alþingi.
    Ég sé ekki ástæðu til að rekja mál þetta frekar. Ég tel hér um mikilvægt mál að ræða og að það sé veruleg bót frá því sem verið hefur og um nauðsynlega breytingu að ræða sem ég vænti að jafngóð samstaða geti ríkt um hér í hv. Nd. og í hv. Ed.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.