Erfðalög
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. 13. þm. Reykv. að þetta frv. hefur vakið mikla athygli úti í þjóðfélaginu og fögnuð þeirra sem það snertir því að svo var nú komið að ýmis ákvæði þeirra laga sem áður voru og eru í gildi samrýmdust engan veginn þeim tímum sem við lifum á. Ég vil því lýsa ánægju minni með að þetta frv. er komið hér fram og komið þetta langt á leið að þess má vænta að það verði afgreitt sem lög á þessu þingi. Þær breytingar sem það felur í sér eru yfirleitt allar til bóta, enda komnar fram af þörf. Það er nú svo að fram að þessu hefur staða langlífari maka oft verið nokkuð óviss. Hann hefur verið háður vilja barna sinna og/eða stjúpbarna um það hvort honum leyfðist að sitja í óskiptu búi og þetta hefur allt of oft valdið því að högum manns hefur verið raskað umfram það sem fráfall maka eitt og sér gaf tilefni til. Þó að lög nr. 29/1985 bættu nokkuð úr þessu er það svo að flestir draga að gera erfðaskrá, telja nógan tíma til þess, og einn daginn er það svo um seinan. Því er það af hinu góða í frv. að það tryggir aukinn rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi. Stjúpniðjar eftirlifandi maka eiga þó áfram rétt til að krefjast skipta, en heimildir þeirra eru gerðar þrengri en annarra niðja. Mér finnst það líka mjög til bóta að tekið sé tillit til réttar stjúpbarna með frv. fremur en áður var.
    En hvað sem því líður vil ég að það komi skýrt í ljós að Kvennalistinn styður frv. og vonast til að takist að afgreiða það sem lög.