Grunnskóli
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það einu sinni enn að óskandi væri að sá eldmóður sem hér ríkir þegar eitthvað viðkomandi peningum er til umræðu lýsti sér víðar en þegar þau mál ber á góma. En það er ekki að sökum að spyrja, það sannast æ ofan í æ að fátt annað vekur áhuga meiri hluta þingmanna sem sést best á því að flestir hafa þeir yfirgefið salinn. Ég vil samt mælast til þess að hæstv. menntmrh. verði kallaður til ef hann er að finna í húsinu. ( Forseti: Það mun verða gert.)
    Frv. það sem hér um ræðir og ég er 1. flm. að felur í sér breytingu á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum. Flm. með mér eru Ragnhildur Helgadóttir, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Árni Gunnarsson.
    43. gr. grunnskólalaga kveður á um í rauninni hvað kennt skuli í grunnskólum þó að auðvitað sé það ekki tæmandi upptalning. Eflaust munu einhverjir álíta að nægilegt væri að ákvæði þessa frv. kæmu í reglugerð eða námsskrá en mín skoðun er sú að svo aðkallandi sé að reyna að styrkja tengsl barna og unglinga við menningu og sögu þessa lands að það verði að eiga sér stoð í lögum. Ekki síst þegar maður veit að flestar þær greinar sem að þessu lúta á einhvern hátt eiga mjög undir högg að sækja í skólakerfinu og fá miklu minni tíma en þeim er ætlað samkvæmt námsskrá. T.d. er öll list- og verkmennt víða á landinu með þeim hætti að ekki er einu sinni framfylgt lögum. Vil ég í því sambandi minna á að nú er liðið eitt og hálft ár síðan ég sem hér stend lagði fram beiðni um skýrslu um stöðu þeirra greina í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Það leið allt fyrra þing án þess að sú skýrsla kæmi. Innti ég margoft eftir henni og var æ ofan í æ tjáð að hún væri rétt ókomin. Þessi beiðni var síðan ítrekuð núna í haust, en sama sagan virðist ætla að endurtaka sig. Það stendur eitthvað á komu skýrslunnar og því er borið við að nægar upplýsingar hafi ekki borist. Ég veit það af tali mínu t.d. við námsstjóra í umræddum greinum að þeir hafa stórar áhyggjur af því hvernig að þeim er staðið og segja að þar halli sífellt meir undan fæti. ( Forseti: Vegna þess sem fyrr kom fram í máli hv. ræðumanns vill forseti geta þess að menntmrh. mun ekki staddur í húsinu þannig að það hefur ekki náðst til hans eins og til var ætlast.) Já, það þykir mér leitt að heyra þar sem hann var nú staddur hér fyrir skömmu og þar sem ég veit að þetta mál hefur borið fyrir hans sjónir, hann hefur þegar kynnt sér það og að mér skilst haft ákveðnar skoðanir á því og framkvæmd þess, þá mælist ég til að málið verði tekið út af dagskrá núna og verði tekið upp að nýju þegar hæstv. menntmrh. getur séð sér fært að verða viðstaddur. Mér finnst að málið sé af því tagi að það sé í rauninni ekki forsvaranlegt að ræða það án þess að hann sé hér viðstaddur. ( Forseti: Þá er ekkert því til fyrirstöðu að fresta umræðunni til þess.) Ég þakka fyrir það.