Neyðarsími
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Þann 9. maí 1988 samþykkti Alþingi þál. um neyðarsíma sem var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta kanna með hvaða hætti unnt sé að koma fyrir neyðarsímum á torförnum fjallvegum og heiðum til öryggis fyrir vegfarendur og gera áætlun um kostnað.``
    Þar sem nú er að nálgast ár síðan ályktun þessi var samþykkt þykir mér fyllilega tímabært að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað líði þessari könnun, hvað út úr henni hafi komið og hve hár þessi kostnaður komi til með að verða. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja fsp. á þskj. 438 til hæstv. samgrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 9. maí 1988 um könnun á uppsetningu neyðarsíma á fjallvegum og kostnaðaráætlun um hana?``