Neyðarsími
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Samgönguráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Vriðulegur forseti. Á þskj. 438 beinir hv. 5. þm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson eftirfarandi fsp. til mín:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 9. maí 1988 um könnun á uppsetningu neyðarsíma á fjallvegum og kostnaðaráætlun um hana?``
    Umrædd ályktun Alþingis hefur verið til athugunar hjá Póst- og símamálastofnuninni. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur frá síðasta vori verið safnað gögnum frá öðrum löndum um það hvernig þær leysa sín neyðarsímamál. Í ljós hefur komið að í þeim löndum þar sem farsímakerfi eru orðin útbreidd og fullkomin er stefnt að uppsetningu á nokkurs konar neyðarfarsímastaurum. Gerðar hafa verið tilraunir með slíka staura en með misjöfnum árangri. Til að mynda hafa Norðmenn sett upp slíka farsímastaura á nokkrum erfiðum fjallvegum en reyndar haldið að sér höndum nú um skeið vegna mikils stofnkostnaðar og viðhalds, sem fyrst og fremst stafar af skemmdum og eyðileggingum á þessum búnaði þó ljótt sé frá að segja. Annars staðar, t.d. í Mið-Evrópu, hafa einnig verið gerðar tilraunir með farsímastaura og virðist árangurinn betri þar en hjá Norðmönnum, enda er þar um mjög fjölfarnar leiðir að ræða þannig að rekstrarkostnaðurinn með tilliti til umferðar er hlutfallslega minni.
    Lauslega áætlaður kostnaður við hvern slíkan farsímastaur er um 250 þús. kr., miðað við að símtækinu sé komið fyrir í vatnsheldum umbúðum með rafgeymi og símanum sé breytt þannig að einungis þurfi að styðja á einn hnapp til þess að gangsetja hann. Enn fremur er gert ráð fyrir að talað sé og hlustað í fastar trektir.
    Hvað varðar viðhaldskostnað, þá er samkvæmt upplýsingum Pósts og síma nánast útilokað að áætla hann með nokkurri vissu. En það er mat stofnunarinnar að eðlilegt sé að gera ráð fyrir að sá kostnaður sé um 10% af verðmæti farsímastaursins á ári.
    Ef gengið væri út frá þessum tölum er auðvelt að sjá að ef settir væru upp farsímastaurar á flestum erfiðum heiðum og fjallvegum landsins með t.d. 2,5 km millibili væri hér um háa tölu að ræða í stofnkostnaði. Ef einungis væri miðað við það að þessum staurum væri komið fyrir á heiðum á þjóðvegum landsins má gróflega áætla að það þyrfti um 400 staura til að þjóna þeim svæðum. Stofnkostnaður við 400 farsímastaura er 100 millj. kr. og árlegur viðhaldskostnaður um 10 millj. kr.
    Póst- og símamálastofnun hefur einnig kannað hvort heppilegra væri að leggja strengi meðfram vegunum og tengja einfalda neyðarsíma um þá, um strengi til næstu byggða, til lögreglustöðva í nágrenninu eða eitthvað því um líkt. Komið hefur í ljós að kostnaður við slíkt kerfi yrði miklu meiri eða allt að fimm sinnum meiri en við farsímastaurakerfið.
    Að síðustu vil ég skýra frá því að ráðuneytið hefur falið Póst- og símamálastofnuninni að vinna áfram að þessu máli á þann hátt að fylgst verður með hvernig nágrannaþjóðirnar ætla að leysa sínar neyðarsímaþarfir

í gegnum það samstarf í símamálum sem Póst- og símamálastofnunin er aðili að. Ég tel svo fyllilega koma til greina að þegar séð verður hvaða stefnu þessi mál taka, til að mynda hjá frændum okkar Norðmönnum, þá gerum við tilraunir með þetta hér hjá okkur og þá með þeim búnaði og þeirri tækni sem virðist vænlegust með tilliti til tækniframfara og reynslu nágrannaþjóðanna af þessu fyrirkomulagi.
    Ég vil svo þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og ýta við því. Það er þarft og lofsvert.