Neyðarsími
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég verð að segja að mig undrar ekki áhugi hans og velvilji í þessu máli, sérstaklega með tilliti til þess að hann er einn af flutningsmönnum málsins.
    Ég tek auðvitað undir það að þetta er nokkuð dýrt. En öryggi þjóðarinnar getur verið dýrt í stofnkostnaði en það er vissulega góð fjárfesting að efla það öryggi sem best. Þó við séum þannig að tala þarna um einhverjar ákveðnar milljónir --- hér voru nefndar 100 millj. en það er þá fyrir heildarpakkann. Ég tel að það verði eitthvað að brjóta þetta upp og hafa ákveðna forgangsröð á verkefninu, þannig að varla er um þetta stórt dæmi að ræða í raun og veru.
    Ég hef verulegar efasemdir um það að farsímakerfið dugi í svona ,,systemi``. Ég held að tengingin um kapal sé rétta leiðin og ég hvet því ráðherrann til að reyna að setja málið í þann farveg. Auðvitað komumst við aldrei hjá því, og við höfum margoft orðið vör við það, að skemmdir eru unnar hér á öllum sköpuðum hlutum. Nægir að benda á t.d. símabox sem reynt hefur verið að koma upp hér í Reykjavík. Þau fá varla að standa yfir helgi. Það er því vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þætti málsins. Ég vil benda á það að víða við þjóðvegi í Englandi er mikið um slíka síma, þar er ekki notast við þetta farsímakerfi, enda kannski um eldra kerfi að ræða og farsímar ekki komnir til sögunnar þegar það var.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, fagna því að ráðherra hyggst gera tilraun í þessu máli. Ég get eingöngu vonað að hún verði fyrr en seinna.