Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. minni. Ég hef um það vitað að þessi nefnd er að störfum og fékk frá viðskrh. ákveðin skilaboð um hvað sala hlutabréfanna ætti að leiða af sér: Það ætti að fá gott verð fyrir bréfin, það ætti að leiða til sameiningar bankastofnana og það ætti að dreifa eignaraðild.
    Með skilyrðum er verið að þrengja mjög verulega hverjir geta keypt bréfin. Það eru sem sagt aðeins núverandi bankastofnanir og þá er talað um Alþýðubankann, Verslunarbankann og Iðnaðarbankann. Það sem ég átti aðallega við með þessari fsp. var hvort það væri hugsanlegt að aðrir aðilar en þessir gætu keypt þessi hlutabréf, og þá langar mig að spyrja: Hversu lengi ætlar hæstv. viðskrh. að bíða með það hvað kemur út úr störfum þessarar nefndar og hefur hann trú á því að þetta leiði til sameiningar? Ég verð að segja það hér að ég hef ekki sömu trú og hæstv. viðskrh. Ég held að hjá þessum bönkum sé um það ólíka hagsmuni að ræða, þeir starfa á ákveðnu sviði, að ég dreg það a.m.k. mjög í efa að þetta verði raunveruleiki.
    Ég vil samt sem áður þakka viðskrh. fyrir þessi svör þó að ég hefði kosið að þau væru skýrari að því leyti til að aðrir aðilar hefðu um það að segja hvort þeir gætu boðið í þessi bréf og viðskrh. gæfi það upp hvert verðmæti þeirra væri og hvað hann byði þau á.