Textasímaþjónusta við Landssímann
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir óvenjuskýr og afdráttarlaus svör. Ég er ekki að væna hann um að vera óskýr að öllu jöfnu, en það er ánægjulegt að fá afdráttarlaust svar um lausn einhvers málefnis sem maður hefur borið fyrir brjósti.
    Þó hjó ég eftir því að einungis er fyrirhugað að hafa þennan síma opinn á næturnar. Hvað ef eitthvað kemur fyrir á daginn, er ekki ástæða til að ætla að hann gæti verið til þjónustu allan sólarhringinn því að aðgengi heyrnarlausra að venjulegum símum er ekkert meira yfir daginn en á næturnar? Þetta er bara til athugunar. Kannski hafa einhverjar upplýsingar ekki komið fram sem skýra að þessi neyðarþjónusta skuli einungis vera á næturnar.
    Það er jafngleðilegt að heyra að hæstv ráðherra muni beita sér fyrir því að þessum símum verði komið upp víðar og eins og hann benti á sjálfur er athyglisvert hvað það eru margar mikilvægar stofnanir, eins og t.d. heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og fleiri slíkar stofnanir, sem ekki hafa svona síma. Það má líka benda á að sjálfsagt væri að hafa svona síma í bönkum, Húsnæðisstofnun og fleiri slíkum stofnunum sem er tímafrekt að heimsækja og aðrir nýta mikið í gegnum síma. Eins og ég benti á áðan fylgir þessu tiltölulega lítill kostnaður og lítil fyrirhöfn þannig að ég vona að hæstv. samgrh. verði vel ágengt í þessu máli og þakka honum aftur svörin.