Textasímaþjónusta við Landssímann
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Sem svar við því hvers vegna neyðarsímaþjónustan við langlínumiðstöðuna 02 er fyrst og fremst skipulögð yfir nóttina eða þann tíma sem aðrar stofnanir eru ekki opnar er þess að geta að í fyrsta lagi er ég ekki að segja að það komi ekki til greina að hafa þennan síma opinn yfir daginn, en aðalatriðið er að menn hafa fyrst og fremst haft áhyggjur af þeim tíma sólarhringsins sem aðrar stofnanir sem hafa textasímaþjónustu eru ekki opnar. Yfir daginn er bæði Öryrkjabandalagið og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar með opið og þar eru slíkir símar þannig að áhyggjur manna hvað þennan öryggisþátt snertir hafa fyrst og fremst snúið að öðrum tímum sólarhringsins og þann tíma mun Póstur og sími sjá um að leysa samkvæmt þeirri ákvörðun sem ég hef kynnt.
    Hvað varðar það að koma þessum símum upp víðar tek ég undir það með fyrirspyrjanda að það er að mínu mati alveg sjálfsagt mál og mér liggur við að segja til skammar að opinberar stofnanir og þjónustuaðilar af því tagi sem fyrirspyrjandi nefndi skuli ekki koma sér upp þessum einfalda búnaði, en varðandi frumkvæði samgrn. í því máli er okkur ánægja að leggja þessu máli lið og beita okkur fyrir lausn þess. Að vísu má nefna að málefni fatlaðra heyra í sjálfu sér ekki undir samgrn. og við teljum því eðlilegt að gera það með viðræðum og samráði við þá aðila sem sérstaklega bera ábyrgð á þeim málaflokki.