Tómstunda- og félagsstarf í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. menntmrh. varðar félags- og tómstundastarf nemenda í grunnskólum. Í 43. gr. grunnskólalaga segir að í öllum skólum á grunnskólastigi skuli nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans eftir því sem ástæður leyfa skv. 77. gr. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þá grein því að á henni er fsp. fyrst og fremst byggð.
    Í c-lið stendur: ,,Fjárhæð er varið skal til starfa að félagslífi nemanda.`` Síðan eru ákvæði um þá hámarksfjárhæð. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér duga þessar greiðslur ákaflega skammt til að standa sómasamlega að félagslífi. Það verður auðvitað að greiða kennurum laun fyrir að taka að sér undirbúning og skipulag þessa starfs og hafa eftirlit með því. Fjölmennur skóli á Reykjavíkursvæðinu fær t.d. rúml. 400 þús. til að standa straum af öllu tómstunda- og félagsstarfi nemenda. Það er ótal margt sem á að greiða með þessari upphæð. Það eru skólaferðalög, það eru skólaskemmtanir, það eru skíðaferðir, það eru alls konar spilakvöld og taflkvöld, kórstarfsemi ef hún er, skólahljómsveit ef hún finnst, leikstarfsemi, klúbbar af öllu tagi, foreldrakvöld o.fl. o.fl. Það má nærri geta að 400 þús. duga skammt til að standa straum af þessu. Víða er mjög mikið starf unnið í sjálfboðavinnu, bæði af foreldrum og kennurum, og ber ekki að lasta það, en aldrei er það nú svo að það þurfi ekki að greiða fyrir stóran hluta þessa starfs.
    Nú er ég ekki að halda því fram að börn og unglingar eigi ekki að stunda félags- og tómstundastarf utan skóla, en sjálfsagt þyrfti að standa betur að því innan skólans. Þar er húsnæði, þar eru félagar og þar eru leiðbeinendur ef á þarf að halda. En mestu máli skiptir hvað nemendur gera í þessum tómstundum og því veltur á miklu hverjir annast það og hvaða menntun þeir hafa og í rauninni hvert þeir þá beina áhuga nemenda og að það taki ekki of mikið mið af e.t.v. tímabundnum tískum eða tíðaranda. Það að tómstunda- og félagsstarf sé innan skóla er líka stórt öryggisatriði og enn eitt atriði sem getur stuðlað að því að lækka tíðni umferðarslysa á börnum. Nú þegar allt bendir til þess að hreyfing sé að komast á lengingu skóladags og hann verði samfelldur er mikil ástæða til að hyggja að samtvinnun reglulegs náms og tómstundastarfs og lögbundins náms og áhuganáms þess utan. Vil ég því beina í því sambandi þessari fsp. á þskj. 493 til hæstv. menntmrh. þar sem spurt er um þær skýrslur sem skólastjórum ber að skila árlega um yfirlit um þetta tómstunda- og félagsstarf í skólum.