Virðisaukaskattur
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra hans svör og þá þörfu ábendingu til þingsins í heild að það sé svo um þau lagafrumvörp sem hér eru samþykkt að sum þeirra eru ekki gallalaus og ég tek undir með hæstv. fjmrh. að það á kannski helst við um skattafrumvörpin sem við höfum verið að samþykkja á þessu þingi að gallarnir eru meira áberandi en kostirnir.
    Ég vil á hinn bóginn fagna því að vinna við undirbúning þess að virðisaukaskattur geti tekið gildi um áramót er í fullum gangi. Ég vil láta í ljós sérstaka ánægju yfir því að þess er að vænta að frv. verði lagt fyrir þetta þing með nauðsynlegum leiðréttingum eða viðaukum við lögin um virðisaukaskattinn til þess að hann geti tekið gildi um áramótin og legg áherslu á að reynt verði að vinna að því að svo geti orðið. Ég tel kosti virðisaukaskattsins meiri en gallana og legg áherslu á að með því að virðisaukaskattur er upp tekinn er í fyrsta lagi komið til móts við þá kröfu fyrirtækja í samkeppnisgreinum að skattlagning þeirra er sambærileg við það sem er í löndum Efnahagsbandalagsins.
    Ég vil í öðru lagi leggja áherslu á að það er skoðun mín og míns flokks að tvö þrep eigi að vera í virðisaukaskattinum, sérstakt þrep fyrir matvæli og annað þvílíkt og svo annað hærra þrep fyrir annað. Ég vil í þriðja lagi láta í ljós þá skoðun að það væri æskilegt í tengslum við gildistöku virðisaukaskattsins að athuga hvort ekki væri hægt að tengja aðstöðugjald virðisaukaskattinum þannig að ekki verði um þá uppsöfnun aðstöðugjaldsins að ræða eftirleiðis sem nú er. Bæði söluskattur og aðstöðugjöld hafa í för með sér mikla uppsöfnun og sú uppsöfnun kemur þyngra niður á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Ég hlýt því sem landsbyggðarmaður að leggja höfuðáherslu á að þessu hvoru tveggja sé hraðað, að lögfestingu virðisaukaskatts sé hraðað og einnig að reglum um álagningu aðstöðugjalds verði breytt á þann veg að hægt verði að koma í veg fyrir þá uppsöfnun sem er í aðstöðugjaldinu og bitnar í fyrsta lagi á innlendu framleiðslunni gagnvart hinni erlendu og í öðru lagi veldur því að vöruverð úti á landi er hærra en ella mundi.