Söluskattur af flotgöllum fyrir sjómenn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 594 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til fjmrh. um niðurfellingu söluskatts og vörugjalds af flotvinnugöllum. Tilgangur fsp. er að fá fram hvort möguleiki er á því að fella niður söluskatt og vörugjald af þessum flotvinnugöllum án þess að til þurfi að koma lagabreyting. Þá vísa ég til þess að hér er um sjálfsagðan öryggisbúnað að ræða á skipum og ætti í raun og veru að vera meðhöndlað á sama hátt og er um björgunarvesti sem er viðurkennt á þessu sviði að þurfi ekki að falla undir söluskatt eða vörugjald.
    Flotvinnugallar kosta í dag um 18 þús. kr., en með slíkri niðurfellingu mundi þetta verð lækka í 13--14 þús.
    Það þarf ekki að rökstyðja það hvers vegna þetta er hér flutt. Sem betur fer var þetta tekið upp á loðnuskipum 1986 og í sambandi við hin hörmulegu sjóslys sem orðið hafa hringinn í kringum landið hefur það verið staðfest betur en nokkru sinni áður hvaða gildi þessir flotvinnugallar hafa. Það er þess vegna mjög mikilvægt að það sé greitt fyrir því að sjómenn almennt telji sig hafa efni á eða útgerðir að hafa flotvinnugalla um borð.
    Því miður hefur það komið í ljós að Siglingamálastofnun hefur verið treg til að mæla með þessu eða leggja til að þetta verði gert, þessi niðurfelling, og viljað verja sig með því að þetta verði keypt af öðrum notendum, en í skýrslunni sem ég hef í höndum frá aðalinnflytjanda þessara flotgalla kemur í ljós að af heildarsölu þeirra frá upphafi, sem er um 1600 gallar, hafa aðeins 70 farið til annarra, þ.e. til snjósleðamanna, en hitt hefur farið til sjómanna og í dag munu vera um 2000 slíkir flotvinnugallar í notkun hjá íslenskum sjómönnum.