Verndun hrygningarstöðva botnfiska
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Í umræðum sem urðu um fiskveiðistefnuna á Alþingi fyrir rúmlega ári lýstum við þingmenn Borgfl. áhyggjum okkar út af því að það hefur ekki tekist sem skyldi það meginmarkmið með fiskveiðistefnu að vernda fiskistofnana og einkum og sér í lagi tryggja hrygningarsvæði og uppeldissvæði botnfiska, að það sé hugað að því að verja og vernda svæði þar sem um er að ræða slíka staði og koma í veg fyrir rányrkju á fiskistofnunum.
    Því miður virðast kvótalögin, eins og þau hafa reynst þau ár sem kvótalögin hafa verið í gangi frá því um áramótin 1983--1984, ekki megna að tryggja þessa meginstefnu sem við teljum að eigi að einkenna fiskveiðistefnu Íslendinga þ.e. að nýta fiskistofnana á sem skynsamlegastan hátt en um leið að hafa verndunarsjónarmið í huga og tryggja uppeldisstöðvar botnfiska allt í kringum landið.
    Við sem stöndum að þessari fyrirspurn vorum á fundi á Hornafirði fyrir tæplega ári þar sem voru mættir nokkrir fiskimenn, útgerðarmenn á Hornafirði. Þeir beindu því til okkar hvort við vildum spyrjast fyrir um hvort það væru nokkur áform uppi um að vernda ákveðin hrygningarsvæði á Hornafjarðargrunni. Mér hefur borist bréf, sem ritað er þáverandi forseta sameinaðs Alþingis, Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, sent af hreppsnefnd Hafnarhrepps, 2. febr. 1987. Þar er þess farið á leit að Alþingi hlutist til um að ákveðin svæði á Hornafjarðargrunni, þ.e. ákveðin hólf sem eru hefðbundin neta- og línusvæði hornfirskra sjómanna, verði vernduð fyrir ágangi dragnótabáta og togbáta. Hér er um að ræða viðkvæmt svæði sem er um leið aðalfiskislóðir handfærabáta frá Hornafirði. Það er bent á að þarna er um að ræða mikilvæg hrygningarsvæði íslensku sumargotssíldarinnar og þarna eru uppeldisstöðvar fyrir botnfiska. Það er um að ræða hraunbotn sem er mjög viðkvæmur fyrir dragnótaveiðum, þannig að dragnótin fer ákaflega illa með botninn, brýtur hraunnibburnar og skemmir þannig uppeldisstöðvar sem þarna er um að ræða.
    Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. hvort í undirbúningi séu einhverjar aðgerðir til að vernda hrygningar- og uppeldisstöðvar botnfiska og sumargotssíldar á Hornafjarðargrunni í svokölluðu ,,sláturhúsi`` og kemur til greina að loka þessu svæði fyrir öllum togveiðum. Kannski hefði átt að bæta við: Eru einhverjar hugmyndir uppi um það að vernda álíka svæði hringinn í kringum landið fyrir togveiðum og ágangi dragnótabáta?