Verndun hrygningarstöðva botnfiska
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Á miðju ári 1983 óskaði Útvegsmannafélag Hornafjarðar eftir því að sjútvrn. bannaði allar togveiðar á tilteknu svæði við Hrollaugseyjar sem meðal sjómanna hefur gengið undir nafninu ,,sláturhúsið``. Beiðni þessa byggðu útvegsmenn á tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi hrygnir síld mikið á þessu svæði og bæri að vernda hrygningarsvæði síldarinnar. Í öðru lagi eru þetta hefðbundin línu-, handfæra- og netasvæði þeirra Hornfirðinga. Að fengnum umsögnum Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunar var 26. júní 1984 sett reglugerð þar sem bannaðar voru allar togveiðar tímabilið 1. júlí til 1. september á svæði milli lína sem dregnar eru 150 gráður frá eftirtöldum punktum: A 64 gráður 10 8 norður, 15 gráður 42 6 vestur og B 64 gráður 05 0 norður og 16 gráður 05 0 vestur. Að utan markaðist svæðið af línu sem dregin var 9 sjómílur frá grunnlínu.
    Um þetta svæði hefur verið tiltölulega lítill ágreiningur. Flestir eru þeirrar skoðunar að friða þurfi ákveðin griðlönd fyrir fiskinn. Svæði þetta hefur verið óbreytt frá 1984 að öðru leyti en því að lokunartíminn hefur verið lengdur og var árið 1988 1. maí til 30. september, en í mars og apríl er svæðið lokað fyrir togveiðum samkvæmt lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi frá 1976.
    Reglugerð um bann við togveiðum á þessu svæði er alltaf gefin út til eins árs í senn. Það stendur nú yfir endurskoðun á þessari reglugerð og verður á næstunni tekin afstaða til þess hvort breytingar verði á stærð svæðisins og gildistíma. En eins og ég áður sagði er svæðið lokað fyrir togveiðum nú sem stendur samkvæmt lögum.
    Að því er varðar annað atriði spurningarinnar, hvort komi til greina að loka þessu svæði fyrir öllum togveiðum, kemur það vissulega til greina, en slík breyting þarf að gerast með lögum ef til frambúðar á að vera því að togveiðar eru bannaðar í mars og apríl eins og ég áður gat um og það er mjög nauðsynlegt að hefjast handa um breytingar á lögunum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands frá 1976, en það verk hefur einfaldlega ekki komist að vegna þess að það hefur verið svo mikið að gera við aðra hluti fiskveiðilöggjafarinnar. En það er orðið mjög brýnt að gera á henni ýmsar breytingar. Hitt er svo annað mál að þar er um mjög viðkvæm mál að ræða og það verður alltaf ágreiningur um þessi mál. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að það er ástæða til að vera þar vel á verði. Það er hins vegar oft og tíðum erfitt að binda það algerlega í lögum. Ég vil nefna sem dæmi að nú hafa dragnótaveiðar og togveiðar verið bannaðar á mjög stóru svæði fyrir Suðurlandi til að vernda ýsustofninn. Það á ekki sérstaklega við um þetta svæði að því er dragnót varðar því að þarna er botninn svo slæmur að það er ekki hægt að stunda dragnótaveiðar á þessu svæði. Hins vegar hefur mönnum tekist að stunda togveiðar á þessu svæði nú upp á síðkastið, en áður fyrr datt engum manni í hug að fara með troll inn á þetta svæði vegna þess hvað

botninn er slæmur. En með fullkomnari veiðarfærum og meira afli hafa skip stundað togveiðar á þessu svæði sem ekki var gert áður. M.a. af þeim ástæðum hafa menn séð ástæðu til þess að friða þetta svæði hluta úr árinu. En ef þar á að verða friðun til lengri tíma þarf lagabreytingu til.