Verndun hrygningarstöðva botnfiska
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Kristinn Pétursson:
    Háttvirtur forseti. Ég sé ástæðu til að þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. og einnig ráðherranum fyrir svarið. Ég vildi taka undir að það er full ástæða til að leggja meiri vinnu í vísindalegar athuganir á náttúrlegu klaki með það að markmiði hvort við getum ekki aukið viðkomu þorskstofnsins með því að gefa náttúrunni meiri frið við hrygningu. Við getum t.d. ímyndað okkur að mikill hávaði við hrygningu eins og er af umferð skipa og báta truflar hrygninguna og svo er aftur spurning um hvaða áhrif það hefur á klak nytjastofna.
    Ég fagna því að ráðherrann skuli ætla að endurskoða þessi lög frá 1976. Auðvitað er hér um viðkvæmt mál að ræða, en ég lít þannig á það að allir séu sammála því að efling nytjastofna okkar er mjög nauðsynleg. Við vitum t.d. ekkert um það nema þorskstofnarnir séu margir, það sé ekki einn þorskstofn eins og alltaf er verið að tala um. Kannski leitar hann aftur á sömu svæðin og hann varð til á eins og laxinn. Alla vega getum við leyft okkur að álíta að á meðan enginn vísindamaður hefur sannað að þorskurinn sé vitlausari en lax teljum við hann jafngáfaðan.