Menntastofnun á sviði matvælaiðnaðar
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt við spurningunni. Svarið var einfalt, að það hefur ekki verið unnið að þessari ályktun sérstaklega. Ég harma það að sjálfsögðu, en fyrir því eru auðvitað ástæður eins og hann rakti. Eigi að síður lýsi ég þeirri skoðun flm., sem er óbreytt þó nokkur tími sé liðinn, að það er nauðsynlegt að gera átak í þessum efnum hvort sem heldur er á sviði ferðaþjónustu sem er mjög vaxandi atvinnugrein í landinu og ekki síður á sviði matvælaiðnaðar, en það er upplýst í svari menntmrh. að aðstaða er engin fyrir menntun t.d. í kjötiðnaði hér á landi. Ég hygg að ýmsar fréttir af markaðnum sýni það, bæði af minnkandi kjötneyslu og lélegum gæðum þeirrar unnu kjötvöru sem er á markaðnum, að það er ekki vanþörf á bættri menntun á þessu sviði.
    Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. Það er nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið um með hverjum hætti skuli standa að þessum málum, hvort það á að uppfylla þann samning við Kópavogskaupstað sem hann skýrði frá í sinni ræðu eða hvort það eru möguleikar til að nýta vannýtt húsnæði fyrir starf á þessu sviði. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að það er nauðsynlegt að taka sem fyrst af skarið í þessu efni. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að hér er um kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða, en þörfin er mjög brýn í þessum greinum í ferðaþjónustunni vegna vaxandi umsvifa og við verðum aldrei gildandi í ferðamannaþjónustu í landinu nema við byggjum á þekkingu og hæfni þeirra sem taka á móti ferðamönnum. Ekki síður á hinu seinna sviðinu, á sviði matvælaiðnaðar, er það bæði neytendum og framleiðendum í hag að þarna sé gert átak í menntunarkröfum og það fólk sem vinnur að þessum málum sé sem best menntað og fært til að framleiða góða vöru.
    Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið.