Sjónvarpssendingar um gervihnetti
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 88 um beinar sjónvarpssendingar um gervihnetti. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að fella brott síðasta málslið 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 70/1986, um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum, þannig að kynning og endursögn þular þurfi ekki að fylgja efni sem dreift er viðstöðulaust um gervihnött og sýnir atburði sem gerast í sömu andrá.``
    Í 6. gr. reglugerðar nr. 70 11. febrúar 1986, um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum, segir svo: ,,Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.
    Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpi, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það skal þó ekki eiga við þegar í hlut eiga erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá. Í síðastgreindu tilviki skal að jafnaði fylgja kynning eða endursögn þular.
    Allt íslenskt tal og texti í útvarpi skal vera á lýtalausu máli.``
    Í tillögu þessari er lagt til að niður falli síðasti málsliður 2. mgr. sem hljóðar svo: ,,Í síðastgreindu tilviki skal að jafnaði fylgja kynning eða endursögn þular.``
    Hér er aðeins farið fram á að það sé ekki skilyrði að endursögn þular eða kynning fari fram þegar um beinar útsendingar erlendis frá er að ræða. Engu að síður verði það enn í höndum útsendingar- eða móttökuaðila hvort hann kýs að vera með kynningu eða endursögn á meðan á útsendingu stendur og þá í hve miklum mæli.
    Það kannast flestir við hversu mikils útsending getur misst þegar þulir, misgóðir, eru að tala ofan í beina útsendingu. Nægir að minnast á Evrópusöngvakeppni sjónvarpsstöðva og ensku knattspyrnuna í þessu sambandi.
    Einnig má minna á að fjöldi Íslendinga tekur við sjónvarpsefni með eigin móttökudiski beint í gegnum gervihnött þar sem allt efni er að sjálfsögðu ótextað og án endursagnar þular.
    Þá má minna á að þegar fram fór hér mikið skákmót á vegum Stöðvar 2, að mig minnir kallað Heimsmót Stöðvar 2 eða eitthvað slíkt, fór til að mynda fram langt viðtal við Kasparov, heimsmeistara í skák, að ég hygg ekki undir 10 mínútum og sennilega eitthvað töluvert lengra, þar sem í fyrsta lagi íslenski þulurinn talaði alfarið og eingöngu á enskri tungu og að sjálfsögðu svaraði Kasparov allan tímann á sinni skemmtilegu ensku. Allan tímann var ekki mælt eitt einasta orð á íslensku og ekki ein einasta þýðing fór fram eftir á, engin endursögn var, þannig að þarna var 10--15 mínútna sjónvarpsefni alfarið á enskri tungu, sem sagt þessi lög þverbrotin, enda sjáum við það víða og næstum daglega að mikið vantar inn í textun á erlendum fréttum og erlendu efni og þar sem ekki vantar inn í er oft ansi illa textað.

    Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að tillaga þessi verði send til hv. félmn. og 2. umr.