Sjónvarpssendingar um gervihnetti
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra hans innlegg í þessa umræðu, en ég hef það á tilfinningunni að hann hafi eitthvað misskilið málið því hér er ekki verið í rauninni að vega að þýðingarskyldu. Hér er eingöngu verið að tala um beinar útsendingar og vitna sérstaklega til íþróttaviðburða og söngvakeppni þar sem aflétt verði þeirri skyldu að íslenskir þulir tali ofan í útsendingar og spilli jafnvel þeirri stemmningu sem við fengjum annars að njóta. Það er alls ekki verið að ráðast að þýðingarskyldunni. Ég tek alveg undir sjónarmið ráðherra í því efni og vil leiðrétta hann í þessu efni.
    Ef útvarpslögin eru komin þetta langt á leið vænti ég að þetta atriði hafi ekki náð þarna inn og þó skal ég ekki um það segja. ( Menntmrh.: Þetta er í reglugerð.) Já, það er í reglugerð þannig að það er möguleiki að koma þessum atriðum þar inn og ég óska eftir því að ráðherra líti aðeins nánar á málið.