Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun laga og reglugerða um rekstur heilbrigðisstofnana. Meðflm. mínir að þessari till. eru Guðni Ágústsson, 5. þm. Suðurl., Guðmundur H. Garðarsson, 14. þm. Reykv., Geir Gunnarsson, 5. þm. Reykn., Þórhildur Þorleifsdóttir, 18. þm. Reykv. og 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbr.- og trmrh. að skipa nefnd til að endurskoða lög og reglugerðir um rekstur hvers konar heilbrigðisstofnana á vegum hins opinbera.
    Endurskoðunin skal ná til allra heilbrigðisstofnana, hvort sem þær eru reknar af sveitarfélögum eða ríki ellegar sem sjálfseignarstofnanir með styrk úr ríkissjóði.
    Nefndinni er ætlað að skila tillögum um aukna hagkvæmni í rekstri án þess að í nokkru sé slakað á kröfum um eins góða þjónustu þessara stofnana og tök eru á.``
    Í greinargerð sem tillögunni fylgir er á það minnt að mikil og jákvæð þróun hafi orðið í uppbyggingu og rekstri hvers konar heilbrigðisstofnana hér á landi á undanförnum árum. Langflestar þessara stofnana eru reknar samkvæmt lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, og reglugerðum í tengslum við þá löggjöf. Þau lög eru um störf allra heilbrigðisstétta í landinu og flestar tegundir heilbrigðisstofnana, svo sem sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Kostnaðarskipting samkvæmt þessum lögum er 85% frá ríki og 15% frá sveitarfélögum til byggingar og rekstrar þessara stofnana. Það lætur því að líkum að hér er um að ræða langstærsta útgjaldalið fjárlaga á hverju ári. T.d. eru útgjöldin áætluð á þessu fjárlagaári 29,5 milljarðar kr. til heilbrigðis- og tryggingamála eða 39% útgjalda A-hluta ríkissjóðs þó að síst beri undan að draga að tryggingaþátturinn sé drýgri hlutinn í þessu dæmi eða sem svarar rösklega 17 milljörðum kr. miðað við fjárlög 1989.
    Það fer sem sagt vart á milli mála að hér er um að ræða einn fjárfrekasta lið í ríkisdæminu á hverju ári. Það er til nokkurs að vinna að ná fram hagkvæmari rekstri á sem flestum þáttum þessa mjög svo viðamikla málaflokks án þess þó að slá nokkurs staðar af eðlilegum og sjálfsögðum gæðakröfum í þessari þjónustu.
    Þá er rétt að minna á verulega breytingu sem unnið hefur verið að undanfarin ár á þessum vettvangi, en það er að hverfa frá daggjaldakerfi og reka stofnanir þess í stað á föstum fjárlögum. Sú þróun er að vísu enn í miðjum klíðum.
    Fjvn. Alþingis hefur undanfarnar vikur haft til umfjöllunar ríkisreikning fyrir árið 1987 og skýrslu yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1987. Nefndin hefur trúlega unnið þessa vinnu markvissar en áður hefur tíðkast, enda eru öll gögn nú betur unnin í hendur nefndinni en trúlega áður hefur þekkst.
    Í fyrrgreindri skýrslu er m.a. fjallað um sjúkrahús

og sjúkrastofnanir á eftirgreindan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í samræmi við lög nr. 12/1986 endurskoðaði Ríkisendurskoðun í fyrsta sinn rekstur allra sjúkrahúsa og sjúkrastofnana í landinu. Niðurstöður reikningsskila sjúkrahúsa fyrir árið 1987 sýna að rekstrarhalli sjúkrahúsa á föstum fjárlögum er að meðaltali 4,8% af veltu en sjúkrahúsa á daggjöldum 17,1%. Við tilflutning sjúkrahúsa á föst fjárlög eru gerðar meiri kröfur um áætlunargerð, upplýsingar og reikningsskil. Betur er fylgst með starfsmannafjölda og greiðslufyrirkomulagi. Telja verður að umtalsverður sparnaður náist fram með því að færa sjúkrahús á fjárlög m.a. vegna mikils fjármagnskostnaðar sem fylgir hallarekstri daggjaldasjúkrahúsa sem gerður er upp að ári liðnu. Meginniðurstöður af endurskoðun fyrir árið 1987 eru því eftirfarandi:
    1. Samræmt bókhald og reikningsskil er enn ekki til staðar. Samanburður á einstökum rekstrarþáttum er því ekki raunhæfur.
    2. Óglögg skil eru á milli rekstrareininga í skýrslum sjúkrastofnana, þ.e. ellideilda og hjúkrunardeilda.
    3. Óglögg skil eru milli sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva þegar þessar stofnanir eru reknar sameiginlega. Kostnaði er ekki skipt rétt upp og fellur yfirleitt meiri kostnaður á sjúkrahús og þar með ríkissjóð.
    4. Starfsmannafjöldi sjúkrahúsa er yfirleitt umfram heimildir fjárlaga eða daggjaldanefndar sjúkrahúsa. Margir starfsmenn eru ráðnir til hlutastarfa en vinna síðan lengri tíma með hærra álagi. Framangreind atriði virðast helsta orsök stöðugs hallareksturs sjúkrahúsa.``
    Hér kemur glöggt í ljós hvaða sjónarmið mönnum voru efst í huga þegar flest sjúkrahúsanna á landsbyggðinni voru tekin á föst fjárlög 1987, en tvö þeirra, þ.e. í Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði, höfðu hins vegar verið tekin á föst fjárlög 1986. Þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 var hins vegar lagt fram hér á Alþingi á sl. hausti fylgdi skrá með því frv. um ákvarðaðar aukafjárveitingar til 30. sept. 1988. Þar var um að ræða 511 millj. kr.
Langstærstur hluti þessara aukafjárveitinga var til stofnana á vegum heilbr.- og trmrn. eða um 238,8 millj. kr. og sjúkrastofnanir á föstum fjárlögum vitaskuld yfirgnæfandi hluti þeirra sem þurftu á þessum aukafjárveitingum að halda og hafa trúlega hvergi nærri hrokkið til. Því nefni ég þetta að mér sýnist að þrátt fyrir flutning þessara mjög svo þýðingarmiklu stofnana á föst fjárlög eigi menn enn nokkuð í land til að ná þessum málum í viðunandi horf.
    Þessi till. til þál. er 185. mál þessa þings og því lögð fram fyrir nokkrum mánuðum þó að hún komi fyrst nú til umræðu. Í millitíðinni hefur verið lagt fram frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem er 203. mál þessa þings og er nú til umfjöllunar í félmn. Ed. Ég sé af því frv. að þar er gert ráð fyrir breytingu og henni verulegri á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, t.d. breytingu á

kostnaðarhlutfalli við byggingu og búnað heilsugæslustöðva sem og sjúkrahúsa, þ.e. í 60/40% í stað 85/15 sem nú er, og skiptingu í viðhalds- og endurnýjunarkostnaði fasteigna og tækja. Þá er hins vegar lagt til að færa rekstrarkostnað heilsugæslustöðva alfarið á ríkissjóð.
    Út af fyrir sig ætla ég ekki hér og nú að taka afstöðu til þessara fyrirhuguðu breytinga. Hins vegar sýnist mér ekki síður þörf á heildarendurskoðun allra þessara laga og reglugerða þeim tengdra ef eitthvað í þessa veru nær fram að ganga innan tíðar. Þess er raunar getið í athugasemdum með þessu frv. um verkaskiptinguna að að því sé nú unnið í heilbr.- og trmrn. þó það sé ekki tilgreint með hvaða hætti sú endurskoðun fari fram né í hvaða tilgangi sérstaklega.
    Ég vil hins vegar fagna beinni stjórnunarlegum tengslum á milli hinna ýmsu heilbrigðisstofnana víða um land og heilbr.- og trmrn. sem augljóslega er að stefnt með 6. og 7. gr. verkaskiptafrv. Þar held ég að sé stigið spor í rétta átt, jafnvel að óbreyttum þessum lögum að öðru leyti.
    Þess er svo loks að geta, hæstv. forseti, að veruleg aukning er fyrirsjáanleg í þessum málaflokki með auknum fjölda aldraðra og hvers konar þjónustustofnunum þeim ætluðum. Það gefur því auga leið að miklu máli skiptir að fjármagnið nýtist svo vel sem kostur er og eðlilegrar samræmingar sé gætt þannig að hagsmunir þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta séu ætíð í fyrirrúmi. Í þeim tilgangi er tillaga þessi til þál. flutt.
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, æskja þess að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. allshn.