Tónmenntakennsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum taka undir flutning þessarar till. Ég held að það sé mjög við hæfi að Alþingi Íslendinga láti í ljós vilja sinn í þessum efnum. Það er auðvitað enginn vafi að tónlistarnám er mjög mikilsverður þáttur í námi barna og unglinga. Og það þarf ekki að fara mörgum orðum um gildi slíks þáttar í náminu. Í því sambandi er unnt að vísa til ræðu 1. flm.
    Ég hygg að það efni sem hér er fjallað um sé mjög þarft. Ég held að það sé enginn vafi á því að það er þörf á að auka samvinnu og samnýtingu, samþættingu eins og segir í till., í tónmenntakennslu í grunnskólum og tónlistarskólum. Það getur engum blandast hugur um að það er líka mjög þarft að auka tónmenntakennslu í grunnskólum og aðrir þættir sem eru hér taldir upp miða að minni kostnaði með samnýtingu sem ég hygg að allir hljóti að geta orðið sammála um líka.
    Ég vil taka undir með þeim sem hafa nokkrar áhyggjur af því þegar verkaskiptingarfrumvarp verður samþykkt hér á þinginu, væntanlega þess efnis að sveitarfélögin taki yfir kostnað og rekstur tónmenntaskólanna. Þar verður þá að búa svo um hnúta að ljóst sé að sveitarfélögin geti staðið undir þeim kostnaði og að þessi þáttur í menntun bíði ekki hnekki af. En í því sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvort námsskrár slíkra skóla séu skýrar og jafnframt því sem greitt er fyrir kostnað skólanna hljóta menn að gera nokkrar kröfur og átta sig á því með hverjum hætti kennsla á að vera og hvað á að kenna.
    Ég hygg að tónlistaráhugi á Íslandi sé almennt mjög mikill. Mér segja fróðir menn að tónleikar á Íslandi séu mun betur sóttir en í flestum öðrum löndum. Fjölmennur áhugahópur um byggingu tónlistarhúss, sem hér starfar í landinu, á sér stóran draum og leggur fram mikla vinnu sem ekki hvað síst sýnir þann mikla áhuga sem meðal Íslendinga ríkir í þessum efnum.
    Að lokum aðeins þetta, virðulegi forseti. Ég held að hér sé hreyft þörfu og góðu máli sem er eðlilegt og nauðsynlegt að Alþingi lýsi vilja sínum á.