Tónmenntakennsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir í rauninni mál flestra sem hér hafa talað um þessa till. og lýsa fylgi mínu við hana, sérstaklega vegna þess á hvaða tíma hún kemur fram. Ég held að það skipti verulegu máli. Enda þótt það hafi komið fram í ræðu 1. flm. að máli þessu sé nú raunar hreyft í menntmrn. af hálfu hæstv. menntmrh., þá er sannarlega ekki vanþörf á því að menn íhugi þessi mál nokkuð vel einmitt núna. Eins og hér hefur komið fram er verkaskiptamál ríkis og sveitarfélaga í meðferð hæstv. efri deildar og er þar í meðferð félmn. Þar er gert ráð fyrir, samkvæmt 67. gr., að stofnkostnaður tónlistarskóla greiðist af stofnendum hans. Og í 68. gr. að sveitarfélög sem reka tónlistarskóla greiði launakostnað kennara og skólastjóra. Þarna er um að ræða reginmun frá því sem gert er ráð fyrir í sama frv. um rekstur grunnskólans að öðru leyti. Að vísu er gert ráð fyrir að verulegur hluti þess rekstrarkostnaðar fari til sveitarfélaga en launakostnaður sé áfram að öllu leyti borinn uppi af ríkinu.
    Mér er í fersku minni hvernig staða þessara mála var fyrir árið 1977. Þá var það þannig að tónlistarskólar, a.m.k. úti um land, voru að verulegu leyti á ábyrgð áhugafélaga og raunar sveitarfélaga í ,,praxís`` ef svo má segja. En af hálfu forsvarsmanna tónlistarskóla var mjög sótt á um ríkisstyrk í þessu sambandi. Ég man eftir því að á þeim árum var í forsvari fyrir tónlistarskólamenn Sigurður Ágústsson í Birtingaholti. Hann vann mjög að þessu árum saman og það var í menntamálaráðherratíð Vilhjálms Hjálmarssonar sem lögunum var komið á sem tónlistarskólar eru reknir eftir enn þann dag í dag. Og það var ýmissa manna mál að það hafi ekki verið fyrr en bændurnir á Brekku og í Birtingaholti náðu saman sem sæmilegt lag komst á þessi mál.
    Nú er það svo að tónlistarfræðsla hefur í æ ríkari mæli orðið hornreka í hinum almenna grunnskóla og fyrir því eru ýmsar ástæður. Það er þess vegna sem þessi tillöguflutningur af hálfu hv. 18. þm. Reykv. og fleiri, sem hér er til umræðu, er ákaflega tímabær og nauðsynlegur. Ég fagna því alveg sérstaklega að flm. eru úr öllum þingflokkunum sex, að vísu vantar fulltrúa úr þeim sjöunda. En ég bind við það verulegar vonir að þessi tillöguflutningur, sem og þær fréttir af vinnubrögðum hjá hæstv. menntmrh., komi í veg fyrir það að sá hluti verkaskiptingarfrumvarpsins, sem hér hefur komið nokkuð til umræðu, nái fram að ganga því að það er sannarlega spor aftur á bak, aftur fyrir stöðu mála fyrir árið 1977.