Snjómokstur í dreifbýli
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 496 um snjómokstur í dreifbýli. Frumkvæði að þessari tillögu átti Birna K. Lárusdóttir sem sat hér á þingi um þriggja vikna skeið sem 6. þm. Vesturl., en auk mín og hennar flytja þessa till. hv. þingkonur Jóhanna Þorsteinsdóttir, Sigrún Helgadóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipuleggja snjómokstur í dreifbýli með hliðsjón af akstri skólabarna.``
    Flest heimili í dreifbýli hafa kynnst akstri skólabarna. Hann er það ríkur þáttur í daglegu lífi. Öll börn þurfa að sækja skóla um lengri eða skemmri veg eftir búsetu og á flestum vegum þessa lands eru alla virka daga vikunnar börn á ferð til og frá heimilum sínum og þurfa mörg að fara langan veg. Sem betur fer er nú að mestu horfið frá heimavistarskólastefnunni sem var allsráðandi hér um 1950. Hún þótti á sinni tíð til mikilla bóta í skólamálum, enda vegir þá öllu verri en nú. Á einstaka stöðum eru hins vegar enn þá heimavistarskólar þar sem ekki hefur verið talið fært að keyra börn daglega vegna vegalengda og vegleysa.
    Heimavistarskólar fyrir ung börn eru þó þrautaráð, enda má segja að það sé lélegt heimili sem ekki er betra en stofnun. Þar sem enn þá er heimavist fara börnin í skólann á mánudögum og koma heim á föstudögum. Engu að síður er snjómokstri víða hagað svo að hann fer fram á þriðjudögum og föstudögum, en snjókomunni og færðinni er ekki jafnauðvelt að stjórna og er því undir hælinn lagt hvort vegir eru færir á mánudögum. Oft og einatt eru því börnin ekki komin í skólann fyrr en um eða eftir hádegi á mánudögum og hefur því sá dagur sem fara átti til kennslu ekki nýst sem skyldi. Með auknum kröfum til kennara og þar af leiðandi alls kyns fundahalda um menntamál sem oftast eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu vill það æðioft brenna við að kennarar komast ekki til skóla sinna fyrr en á þriðjudögum og má af þessu ráða hve óheppileg tilhögun á allan máta þessi þriðjudagsmokstur er.
    Með breyttri stefnu í uppeldismálum og skánandi vegakerfi er nú heimanakstur barna nær alls ráðandi þar sem því verður við komið og fáir skólar eingöngu heimavistarskólar, en nokkrir eru bæði með heimavist og heimanakstur. Það segir sig sjálft að í svo strjálbýlu landi með löngu og lélegu vegakerfi víða hefur í sumum tilfellum ekki verið talið fært vegna vegalengdar að keyra börnin daglega. Viðmiðunarreglan er sú að þau börn sem eiga heima fjærst skóla séu ekki lengur en einn klukkutíma á ferð í skóla. Flestu fullorðnu fólki þætti það og þykir ærið nóg að ferðast í klukkutíma til vinnu dag hvern og eiga heimferðina eftir að loknum vinnudegi, en staðreyndin er sú að æðimörg börn á grunnskólaaldri mega sitja í misvel búnum skólabílum tvo tíma daglega þegar færð er góð og enn þá lengur ef eitthvað er að færð og veðri og jafnvel ekki alltaf sæti

fyrir alla eða rými fyrir farangur sem skyldi. Þegar tíð er erfið og um illa uppbyggða vegi að fara vill oft teygjast í tímann og þessir tveir verða að fjórum, allt að sex tímum og jafnvel dæmi þess að tekið hafi 14 tíma að keyra börn heim úr skóla þótt það sé vitaskuld mjög fátítt.
    Öll viljum við búa vel að börnum okkar og veita þeim þá menntun sem krafist er, en þar sem á fleiri sviðum á dreifbýlið undir högg að sækja og finnst mörgum þar illa horfa því sé þætti mennta ekki sinnt sem skyldi er vá fyrir dyrum og jafnrétti til náms er því miður e.t.v. meira í orði en á borði. Margt má hins vegar laga og bæta ef viljinn er fyrir hendi. Oft sýnist hugsunarleysi búa að baki ákvörðunum sem teknar eru fyrir það fólk sem má búa við fyrirkomulagið.
    Þegar ákvarðanir eru teknar um snjómokstur, hvaða daga skuli moka, er það umhugsunarvert hvers vegna þriðjudagar eru svo víða taldir heppilegri mokstursdagar en mánudagar. Mér er ekki kunnugt um það né hef ég nokkurn tíma heyrt um það að fólk vilji svo miklu heldur ferðast á þriðjudögum en mánudögum. Það verður ekki hjá því komist að benda á það mat sem virðist ráða þegar ákvarðanir um mokstursdaga eru teknar og það er því miður áberandi að börn og heimili virðast ekki hafa mikið að segja um þau efni. Það virðist sem sagt augljóst að menntun barnanna sé talin þar léttvægur þáttur.
    Aldrei frekar en nú hefur þörfin fyrir bættar samgöngur verið svo mikil. Um allar sveitir landsins sækja börn skóla til þess að reyna, og það víða við lélega aðstöðu, að menntast eins og nútíminn krefst. Erfiðleikar samfara skólagöngu barna hafa leitt til þess að fjölskyldur hafa jafnvel flust úr sínum heimahögum, rifið sig upp með rótum, og talið það skárri kost en að leggja langar ferðir í skólabílum eða heimavistardvöl á ung börn sín. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða snjómokstursreglur með það að markmiði að snjómokstur sé fyrir fólkið sem við vegina býr og að skólaganga barna sé ekki skert að ástæðulausu og eingöngu e.t.v. af hugsunarleysi. Mánudagsmokstur kostar varla meira en þriðjudagsmokstur í aurum talið heldur fyrst og fremst þá hugarfarsbreytingu að tekið sé tillit til heimila og barna við endurskoðun snjómokstursreglna sem mér er reyndar kunnugt um að nú fer fram.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir þessari tillögu sem, eins og fyrr segir, Birna K. Lárusdóttir átti frumkvæði að, og að lokinni þessari umr. legg ég til að henni verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.