Snjómokstur í dreifbýli
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma hér og lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu. Hún er ágætt innlegg inn í þá endurskoðun á þeim nýju reglum um snjómokstur sem núna eru í undirbúningi. Ég vil geta þess að við þm. Vesturl. sem ferðumst um kjördæmið á hverju hausti og tökum við óskum og ábendingum heimamanna fengum einmitt þessa ósk frá bæði sveitarstjórnarmönnum og skólamönnum í Dalasýslu og einnig á Snæfellsnesi og höfum komið þeim ábendingum til Vegagerðarinnar í sambandi við þá endurskoðun sem fer nú fram á þessu máli.
    Það þarf ekki að segja neitt fleira um þann rökstuðning sem hér kemur fram. Hann er greinilega réttur og endurspeglar þá umræðu og þær óskir sem frammi liggja og það er í sjálfu sér umhugsunarefni hvers vegna þriðjudagur er betri en mánudagur o.s.frv., en aðalatriðið er að þessar reglur séu þannig fram settar og þannig framkvæmdar að þær skili þeim árangri, sem að er stefnt, að greiða fyrir umferð í byggðum landsins og reyna að haga því þannig að þær séu sveigjanlegar og komi að notum bæði í sambandi við skólastarf og annað. Að því hljótum við að vinna. Ég vil geta þess um leið og hægt er að fagna rýmkun á snjómokstri núna í sambandi við aðalleiðir að þá hafa þær reglur t.d. á Snæfellsnesi virkað neikvæðar. Það hefur orðið minni þjónusta en fyrir var við sveitir sunnanfjalls sem bæði þurfa að sækja læknisþjónustu og skóla, framhaldsskóla eða heimavistarskóla, á svæðinu og hefur bitnað illa á þeim vegna þess að fjölgun á mokstursdögum eftir öðrum leiðum varð til þess að það var dregið ósjálfrátt úr því á hinum leiðunum sem var ekki tilætlunin. En svona getur þetta verkað. Þetta er dæmi um að það er ekki alveg einfalt mál hvernig að þessu er staðið og þess vegna finnst mér að allar ábendingar í þessu máli séu réttlætanlegar og þurfi að taka tillit til þeirra þegar nýjar reglur eru samdar því að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði gengið frá því verki í vetur og vor þannig að nýjar og bættar snjómokstursreglur liggi fyrir næsta haust. Ég held að það sé alveg augljóst mál og við erum örugglega sammála um það og ég þakka 1. flm., þó hann sé ekki hér viðstaddur, fyrir þetta framtak.