Orkustefna sem tekur tillit til umhverfis
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um orkustefnu sem tekur tillit til umhverfis sem er á þskj. 495. Höfundur þessarar till. og meðfylgjandi greinargerðar er Sigrún Helgadóttir, sem sat á þingi nýlega sem 12. þm. Reykv., en auk hennar og mín flytja þessa till. hv. þingkonur Birna K. Lárusdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jóhanna Þorsteinsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að mörkuð verði stefna í eldsneytis- og orkunotkun þar sem tekið verði tillit til umhverfis, leitast við að spara takmarkaðar auðlindir og draga úr mengun.``
    Í nýútkomnu riti orkuspárnefndar, Eldsneytisspá 1988--2015, kemur fram hvað Íslendingar nota af orkugjöfum úr auðlindum jarðar sem ekki eru endurnýtanlegar, kolum, olíu og gasi, og spáð er fyrir um orkunotkun til ársins 2015. Af þessum orkugjöfum er olían langmikilvægust, en bæði fiskveiðar Íslendinga og samgöngur byggjast á olíunotkun. Fram kemur að olíunotkun fiskiskipa var árið 1987 206 þús. tonn og gert er ráð fyrir að hún minnki lítillega og verði 203 þús. tonn árið 2015. Bifreiðar eyddu árið 1987 jafngildi 177 þús. tonna af olíu og gert er ráð fyrir að árið 2015 muni þær eyða jafngildi 226 þús. tonna. Olíunotkun til annarrar starfsemi, svo sem á flugvélar og flutningaskip, til iðnaðar og húshitunar, er miklu minni. Heildarolíunotkun árið 1987 var 491 þús. tonn og gert er ráð fyrir að hún muni aukast á þessu árabili um 7%. Sú spá byggir á því að olíuverð fari hækkandi, en það er nú mjög lágt, og að hagvöxtur verði 2,5--3% á ári að jafnaði.
    Í hinni íslensku eldsneytisspá er gert ráð fyrir að olíuverð verði í lok spátímans svipað og það var hæst í byrjun níunda áratugarins. Þar er líka tekið fram í þessari spá að erfitt sé að spá um olíuverð og er hér tekið undir það. Olíuverð er háð framboði og eftirspurn og einnig kostnaði við vinnslu, þ.e. hversu mikla tækni þarf að þróa og nota til að vinna olíuna og hversu áhættusöm sú vinnsla er. Hvað þessa þætti varðar hlýtur olíuverð að hækka á næstunni. Olía er þverrandi auðlind og búið er að vinna þær olíulindir sem auðunnastar eru.
    Nú er olíunotkun í heiminum gífurleg og með sömu olíunotkun og nú er munu þekktar olíulindir heimsins duga jarðarbúum í rúmlega 30 ár. Vinnslan úr þeim olíulindum sem enn eru óunnar og þeim sem enn eru ófundnar verður þó miklu erfiðari og dýrari en úr þeim lindum sem hingað til hafa verið nýttar. Sumar þessara linda eru t.d. á hafsbotni þar sem vinnsla er mjög dýr og einnig mikil hætta á slysum, bæði á fólki og náttúru. Auk þessa er olíuverð háð stjórnmálaástandi í þeim löndum þar sem olía finnst. Meiri hluti þeirrar olíu sem talin er eftir í heiminum er í Miðausturlöndum, svokölluðum kommúnistaríkjum og í löndum Suður-Ameríku. Ótryggt stjórnmálaástand getur valdið sveiflum í olíuverði, en þegar á heildina er litið hlýtur olíuverð að hækka á næstu árum og áratugum.

    Þeirri þjóð sem þorir að horfa til framtíðar með fyrirhyggju og raunsæi og viðurkenna þau takmörk sem náttúran setur jarðarbúum hlýtur að vegna betur þegar til langs tíma er litið en þeim þjóðum sem með glýju í augum láta skammtímagróða og skammsýni ráða gerðum sínum. Í því sambandi er vert að minna á að ef eitthvað fer úrskeiðis við olíuvinnslu af hafsbotni þannig að olían leki í einhverju magni í hafið getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar og verstar þar sem sjór er kaldur og olía brotnar hægt niður. Atburðir síðustu ára gefa ekki tilefni til bjartsýni um að hægt verði að koma í veg fyrir mengunarslys við olíuvinnslu eða -flutninga. Olíupallar hafa losnað og þeim hvolft, lokar borhola hafa brostið og olíuskip hafa sokkið. Tjón við slík slys verða ekki metin í peningum. Það hlýtur að vera vafamál hvort taka eigi þá áhættu að vinna olíu við aðstæður sem bjóða heim slíkum slysum þegar það er vitað hvort sem er að olíumagn heimsins er takmarkað. Jarðarbúar verða að snúa sér að öðrum orkugjöfum og það væri skynsamlegt að gera það tíu árum fyrr en síðar.
    Oft hefur verið rætt um mikilvægi þess að íslenskir orkugjafar komi í stað innfluttra á Íslandi. Oftast hefur það verið gert á forsendum þess að jafna húshitunarkostnað og að Íslendingar verði sem minnst háðir innflutningi á orku og þeim sveiflum sem eru á verði erlendra orkugjafa. Hér skal ekki dregið úr mikilvægi þeirra forsendna heldur tekið undir þær. Vegna þessa hefur á undanförnum árum aukist mjög að innlend orka sé notuð til húshitunar og er það vel. Á öðrum sviðum hefur verið um afturför að ræða, umferð einkabíla hefur aukist á kostnað almenningssamgangna og farið er að frysta fisk úti á sjó með olíu en ekki í landi með rafmagni.
    Nýútkomin eldsneytisspá 1988--2015 tekur mið af aðstæðum eins og þær eru nú og gerir ráð fyrir óbreyttu ástandi til ársins 2015 og að olíunotkun Íslendinga aukist. Slík spá er eðlileg á meðan stjórnvöld hafa ekki mótað aðra og nýja stefnu.
    Íslendingum er tamt að álíta að loftmengun sé nokkuð sem komi þeim ekki við, á Íslandi sjái vindurinn um alla lofthreinsun. Þetta er hættulegur
hugsunarháttur. Mengun virðir ekki landamæri og er jafnhættuleg hvaðan sem hún kemur. Allar þjóðir verða að leggjast á eitt og áralag Íslendinga getur skipt miklu máli. En til þess að svo megi verða verða þeir sjálfir að taka sig á og vera til fyrirmyndar í umhverfisvernd. Slíkt þarf að gera á mörgum sviðum og hér skulu nefnd nokkur sem tengjast orkumálum.
    Auka þarf fræðslu um orkumál með orkusparnað að markmiði. Í fyrstu þarf að leggja megináherslu á að dregið verði úr notkun olíu og annars mengandi eldsneytis, bæði með sparnaði og með því að aðrir orkugjafar séu notaðir í staðinn þar sem það er hægt. Stórauka þarf almenningssamgöngur og hvetja fólk til að nota þær og gera þar raunhæfa úttekt á því hvort ekki ætti að leggja rafmagnssporbrautir í þéttbýli og á milli landshluta. Sú úttekt þarf að vera raunhæf að því leyti að hún meti ekki aðeins hagkvæmni í peningum talið heldur meti sem gjaldalið þau

umhverfisspjöll sem fylgja ferðalögum á einkabílum. Fylgjast þarf vel með rannsóknum og tilraunum erlendis á nýjum samgöngutækjum, nýjum leiðum til að virkja orku og með ný eldsneyti sem ekki hafa í för með sér mengun og aðrar hættulegar umhverfisbreytingar. Auk þess þarf að leggja áherslu á að innlend orka er líka dýr. Orkuöflun krefst mikilla mannvirkja sem eru dýr í byggingu og viðhaldi og raska umhverfi, jafnvel eyðileggja mikilvæg náttúruundur.
    Leiðrétta þarf þann misskilning að innlend orka, svo sem heita vatnið, sé óþrjótandi. Hvetja þarf til orkusparnaðar og auðvelda hann, t.d. með því að lækka verð á orkusparandi rafmagnstækjum og perum og þá er það væntanlega best gert með lækkun eða afnámi tolla og annarra gjalda til hins opinbera.
    Flm. eru þeirrar skoðunar að íslenska orku skuli nota til hagsbóta fyrir Íslendinga en ekki í erlenda stóriðju. Ef hún yrði lögð niður gæti sú orka sem til hennar hefur verið leidd komið í stað mengandi eldsneytis.
    Virðulegi forseti. Flm. þeirrar till. sem hér er lögð fram telja að verndun umhverfis og lífs á jörðu séu mikilvægustu rökin fyrir því að mótuð verði íslensk orkustefna með orkusparnað að markmiði og að dregið verði úr og síðan hætt að nota mengandi eldsneyti. Slíka stefnu þarf að taka strax og að því miðar þessi tillaga.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.