Snjómokstur á þjóðbrautum
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um snjómokstur á þjóðbrautum og breytta skiptingu kostnaðar við hann. Svo háttar um þessa tillögu eins og tvær hinar síðustu að 1. flm. er varaþingkona sem sat sem 6. þm. Vesturl., Birna K. Lárusdóttir. Flytjendur auk mín og hennar eru hv. þingkonur Þórhildur Þorleifsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Jóhanna Þorsteinsdóttir. Tillagan er á þskj. 497 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsrh. að sjá til þess að þjóðbrautir verði mokaðar ekki sjaldnar en vikulega og að ríkið taki aukinn þátt í kostnaði sem af því hlýst.``
    Þjóðbrautir eru skilgreindar svo í 12. gr. vegalaga: ,,Vegir sem eru minnst 2 km langir frá vegamótum og ná til a.m.k. þriggja býla þannig að þeir nái að þriðja býli frá vegarenda.``
    Fjölmargir langir vegir teljast til þjóðbrauta samkvæmt þessari skilgreiningu. Fólk sem býr við þessa vegi má búa við erfiðar samgöngur og jafnvel samgönguleysi ef þannig viðrar yfir vetrarmánuðina. Kröfur um auknar og bættar samgöngur fara stöðugt vaxandi og það er nú liðin tíð að fólk sætti sig við að vegir séu lokaðir svo dögum og vikum skiptir m.a. vegna þess öryggisleysis sem því er samfara að vera einangrað frá ýmissi þjónustu eins og heilsugæslu og verslun.
    Þá er í dreifbýli landsins stunduð þróttmikil félagsstarfsemi. Með fækkun íbúa hefur orðið nauðsynlegra að fólk geti sótt afþreyingu ýmiss konar um lengri vegu. Þannig verður félagslíf dreifbýlisins sífellt háðara góðum samgöngum jafnt vetur sem sumar.
    Samgöngur hafa vissulega batnað á undanförnum árum, m.a. með lagningu bundins slitlags á vegi og með auknum og bættum flugsamgöngum. Þessi þróun hefur verið nokkuð hröð og hún er vitaskuld jákvæð. Meiri áhersla hefur hins vegar verið lögð á að tengja saman landshluta en á samgöngur innan héraða. Þetta birtist m.a. í því að þeir vegir sem tengja saman landshluta eru mokaðir reglulega á kostnað Vegagerðarinnar en engar ákveðnar reglur gilda um snjómokstur innan héraða. Með fækkun fólks á landsbyggðinni hljóta þó greiðar samgöngur innan héraðs að skipta jafnmiklu máli og samgöngur á milli landshluta.
    Samkvæmt núgildandi reglum um snjómokstur á þjóðbrautum greiðir Vegagerðin helming kostnaðar á móti þeim sem um mokstur biðja, sýslufélögum, sveitarfélögum eða öðrum. Með tilliti til byggðaröskunar þar sem fólki fækkar stöðugt í dreifbýli verður sú hugsun áleitin að ríkið greiði að fullu kostnað við snjómokstur á þjóðbrautum og fari sá mokstur fram eigi sjaldnar en vikulega ef með þarf.
    Nú stendur yfir endurskoðun á reglum um snjómokstur sem settar voru árið 1985 og það er markmið þessarar tillögu að benda á fyrrgreind atriði í þeirri von að tekið verði tillit til þeirra við þessa endurskoðun.

    Ég sparaði mér ferðalög upp í þennan ræðustól áðan vegna þess að þessi tillaga er náskyld annarri sem ég mælti fyrir og hv. 1. þm. Vesturl. sýndi þá virðingu að segja fáein orð í tilefni af flutningi þeirrar tillögu. Ég þakka honum fyrir það. Hann upplýsti um áhuga þeirra þingmanna Vesturlands á því að koma þessum ábendingum á framfæri og ég veit að svo mun vera um marga aðra þingmenn, ekki síst dreifbýlisins sem þekkja svo mjög af eigin raun og viðræðum við sína umbjóðendur hvað þessi mál skipta miklu fyrir þá sem í dreifbýlinu búa.
    Ég vildi svo, virðulegi forseti, leggja til að þessari tillögu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.