Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 17. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur það frv. sem hér kemur til umræðu í dag átt nokkuð langan aðdraganda. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var hafist handa við endurskoðun á húsnæðislöggjöfinni með tilliti til þeirra aðstæðna, sem þá voru augljósar, að hið nýja húsnæðislánakerfi frá 1986 þyrfti í ýmsum efnum endurskoðunar við. Augljóst mátti vera að slík endurskoðun sem fram þyrfti að fara hlyti að taka til húsnæðislánakerfisins í heild og mikilvægt væri að marka heildarstefnu í þessum efnum.
    Þannig skiluðu starfshópar sem skipaðir voru í tíð fyrri ríkisstjórnar tillögum að húsbréfakerfi og satt best að segja verður að taka það hér fram að þessar tillögur lúta að einum hluta húsnæðislánakerfisins, en það verður ekki sagt að hér séu komnar fram tillögur sem taki til húsnæðislánkerfisins í heild og það er mikill galli í ljósi þess hversu það hefur dregist að koma fram skipulegum tillögum til úrbóta á hinu nýja húsnæðislánakerfi að þar skuli ekki vera að finna tillögur sem taki til kerfisins í heild þannig að stefnumörkun að því er heildarkerfið varðar liggi fyrir. Eigi að síður er hér um að ræða mjög athygli verðar tillögur og mikilsverðar og ekki vonum seinna að þær komi til umræðu á hinu háa Alþingi í ljósi þess hversu langur tími er liðinn síðan undirbúningsstarfið hófst.
    Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur komið fram af meiri óbilgirni gagnvart húsbyggjendum en flestar aðrar ríkisstjórnir þó langt sé til jafnað. Ég hygg að mönnum sé enn í fersku minni þegar hæstv. ríkisstjórn kom fram með skattalagabreytingar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Óhætt er að fullyrða að þær breytingar hafi ekki bitnað með jafnmiklum þunga á nokkrum hópi í þjóðfélaginu og einmitt húsbyggjendum. Stefna hæstv. ríkisstjórnar hefur þess vegna verið öndverð hagsmunum unga fólksins í landinu sem er að stíga fyrstu skrefin í því mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu að koma sér þaki yfir höfuðið. Byggingarkostnaður var stórhækkaður með nýjum skattaálögum, með nýju vörugjaldi sem sérstaklega lagðist á ýmsa þá þætti sem leiða til hækkunar byggingarkostnaðar. Í kjölfar þess voru teknar ákvarðanir um verulega skattahækkun sem kom ekki hvað síst niður á þeim fjölskyldum í landinu sem þurfa að leggja á sig meiri vinnu og aukna vinnu til að afla tekna í þeim tilgangi að standa undir íbúðarkaupum eða íbúðarbyggingu og ekki síst til þess að standa undir hinum nýju skattaálögum sem leitt hafa til hærri byggingarkostnaðar. Þannig hefur stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar verið í verki gagnvart unga fólkinu í landinu og ekki vonum seinna að fram komi hér á hinu háa Alþingi tillögur um breytingar á húsnæðislánakerfinu sem miða að einhverju öðru en að leggja þyngri og meiri byrðar á unga fólkið, það fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Svo harkaleg hefur stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar verið fram til þessa gagnvart því fólki sem hér á í hlut.

    Það hefur líka vakið nokkra athygli hversu lengi það hefur dregist að koma þessu máli til umræðu í þinginu. Af fjölmiðlaumræðu má glöggt ráða að þar hefur fyrst og fremst komið við sögu innri ágreiningur í ríkisstjórninni. Ég þykist vita að hæstv. félmrh. hafi haft hug á því að koma með þetta mál fyrr til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi, en vegna andstöðu samstarfsflokkanna og þá einkanlega Framsfl. hefur það dregist úr hömlu. Það samkomulag sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu birtist þeim sem utan við standa á þann veg að Framsfl. hafi sagt við hæstv. félmrh.: Ráðherranum er heimilt að flytja frv. Gjörðu svo vel. Og það má heita stjfrv. Svo segir Framsfl. við hv. 1. þm. Vesturl.: Þér er jafnframt heimilt að koma í veg fyrir að Alþingi samþykki þetta frv. Þetta er alkunn aðferð sem Framsfl. notar æðioft í samstarfi við aðra flokka og þeir sem hafa tekið þátt í slíku samstarfi þekkja af nokkurri reynslu og er ekkert nýmæli í vinnubrögðum framsóknarmanna í ríkisstjórn. En í þessu tilviki kom það kannski fram með augljósari og skýrari hætti en oftast nær áður og framsóknarmenn opinberuðu þessi vinnubrögð af meira hispursleysi en þeir hafa gert fyrr. Það er þess vegna að formi til rétt að þetta frv. er stjfrv., en samkvæmt öllum þeim yfirlýsingum sem fylgja af hálfu samstarfsflokka hæstv. félmrh. er þetta nú ekki stjfrv. að öðru leyti en forminu til. Það er ljóst að samstarfsflokkarnir hafa knúið félmrh. til að gera veigamiklar breytingar á frv. jafnframt því sem þeir áskilja sér allan rétt til að hafa fyrirvara um stuðning við málið og allan rétt til að fylgja hvaða brtt. sem vera skal ef fregnir af þessu kynduga samkomulagi stjórnarflokkanna hafa við einhver rök að styðjast. Það er í þessu andrúmslofti og þessu ljósi sem hæstv. félmrh. kemur með þetta frv. inn á Alþingi.
    Því verður ekki á móti mælt að núverandi kerfi rís ekki eins og aðstaðan er undir þeim skuldbindingum sem því er ætlað lögum samkvæmt og óhjákvæmilegt að gera þar á nokkrar breytingar. Þetta kerfi kom til í samningum sem hæstv. forsrh. átti við aðila vinnumarkaðarins árið 1986 og auðvitað verður að segja þá sögu eins og er að talsvert mikil fljótaskrift var á öllum undirbúningi og allri gerð þessa nýja kerfis. Það er þó rétt að minna á að nefndin sem
undirbjó frv. taldi að vaxtamunur mætti aldrei verða meiri, ef ég man rétt, en um 1*y1/2*y%. Þróunin hefur svo orðið á allt annan veg og það er kannski fyrst og fremst vegna þessa sem augljóst er í dag að kerfið rís ekki undir þeim skuldbindingum sem löggjöfin gerir ráð fyrir. En þar á móti liggur ljóst fyrir að ríkisstjórn á hverjum tíma getur ákveðið breytingar á vöxtum, en um það urðu nokkrar deilur á sínum tíma hvort binda ætti vextina fasta í lögum eða heimila ríkisstjórn að taka ákvarðanir þar um eftir því hvernig vextir þróuðust almennt á markaðnum.
    Í annan stað er það verulegur galli á núverandi löggjöf að hún gerir ráð fyrir því að binda mikinn meiri hluta af sparnaði lífeyrissjóðanna í þessum eina ákveðna tilgangi. Lífeyrissjóðirnir eru stærsta sparnaðaruppsprettan í þjóðfélaginu í dag og það hefur

óneitanlega áhrif á vaxtastig á almennum fjármagnsmarkaði þegar meiri hluti af ráðstöfunarfé stærstu sparnaðaruppsprettunnar er bundinn við eitt ákveðið verkefni þó að engum dyljist að það sé mikilvægt og að eðlilegt sé að verulegur hluti af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna fari til húsnæðismála. Ég vil ekki fjölyrða um annmarka þessa núverandi kerfis, en hygg að um það sé nokkuð víðtæk samstaða að óhjákvæmilegt sé að gera nokkrar breytingar þar á og aðlaga húsnæðislánakerfið nýjum aðstæðum.
    Það hefur verið meginstefna Sjálfstfl. frá upphafi að húsnæðislánakerfi þyrfti að miða að því fyrst og fremst að styrkja séreignastefnuna. Það hefur verið aðalsmerki íslenska þjóðfélagsins að hér hefur verið fylgt séreignastefnu í húsnæðismálum. Við höfum skorið okkur nokkuð úr öðrum þjóðum í þessu efni og ég fullyrði að við höfum á betri og markvissari hátt tryggt fjárhagslegt sjálfstæði almennings í landinu einmitt vegna þess að það hefur verið víðtæk samstaða um að festa séreignastefnuna í sessi. Á undanförnum árum hefur hins vegar gætt nokkurrar tilhneigingar til þess af hálfu vinstri flokkanna í landinu að reyna að brjóta séreignastefnuna niður og koma hér á leiguliðastefnu í miklu ríkari mæli. Það er afar brýnt þegar rætt er um nýja stefnumörkun í húsnæðismálum að menn geri sér fulla grein fyrir því að það er höfuðatriði að þær breytingar sem um ræðir festi séreignastefnuna í sessi en veiki hana ekki og það hlýtur að verða grundvallarsjónarmið í þeim umræðum sem nú fara fram.
    Hitt er svo eðlilegt og nauðsynlegt að húsnæðislánakerfið gerir ráð fyrir sérstökum félagslegum verkefnum og mitt álit er það að verkamannabústaðakerfið hafi þjónað þessum tilgangi á mjög góðan og skilmerkileegan hátt. Tekjulægsta fólkið í landinu hefur þar átt kost á félagslegum lánum og það hefur með þeim hætti getað tekið þátt í þeirri almennu stefnu að fólkið í landinu eigi kost á að eiga sitt húsnæði sjálft. Þess vegna eru verkamannabústaðirnir veigamesti þátturinn í félagslega húsnæðiskerfinu og gjalda ber varhug við því að hrófla við undirstöðum þess þegar rætt er um félagslegar aðgerðir í þessu efni. En aðalatriðið er að aðgerðir á félagslega sviðinu í húsnæðismálum mega ekki raska eða skerða það svigrúm sem fyrir hendi er til almennra húsnæðislána og það sjónarmið verður einnig að hafa í huga í þeim umræðum og þeim endanlegu ákvörðunum sem Alþingi tekur í þessu efni.
    Á flokksráðs- og formannafundi Sjálfstfl., sem haldinn var í nóvember 1987, var samþykkt ályktun um stefnumörkun í húsnæðismálum í ljósi þess að þá var þegar komið fram að gera þyrfti breytingar á stefnunni í húsnæðismálum. Í þessari samþykkt segir þetta m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. vill gera fólki kleift að eignast eigin íbúðir, annars vegar með félagslegum aðgerðum í gegnum Byggingarsjóð verkamanna fyrir þá sem hafa lágar tekjur, hins vegar með fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins. Leggja ber áherslu á eftirfarandi atriði varðandi Byggingarsjóð ríkisins:

    Lánveitingar verði látnar sitja fyrir til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir eða þurfa að stækka við sig af fjölskylduástæðum. Tryggja þarf lánafyrirgreiðslu til þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna skammtímalána til húsnæðiskaupa. Sérstökum flokki framkvæmdalána verði komið á til að auðvelda öldruðum og öryrkjum að flytjast í hentugt húsnæði. Stefna ber að því að einungis forgangshópur þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir fái lán hjá Byggingarsjóði ríkisins, aðrir fái fyrirgreiðslu hjá bankakerfinu. Forsenda þess er lenging lána og að samningur náist við lífeyrissjóðina um kaup á skuldabréfum í þessu skyni. Fyrirgreiðsla ríkisins færist frá niðurgreiðslu vaxta yfir í skattakerfið.
    Hér eru dregnar upp meginlínur í stefnumörkun að því er varðar breytingar á húsnæðislánakerfinu og frá mínum bæjardyrum séð sýnist mér að grundvallarhugmyndin um húsbréf þjóni þeim tilgangi sem hér er settur fram. Ég get þess vegna tekið undir þá meginhugsun sem felst í húsbréfakerfinu og það er mín skoðun að ef vel tekst til um framkvæmd húsbréfakerfis þá sé það til mikilla bóta. Flest bendir til að það geti haft í för með sér verulegar framfarir og miklar úrbætur í húsnæðislánakerfinu. Það er og í samræmi við þá stefnumörkun sem Sjálfstfl. samþykkti að berjast fyrir í nóvember 1987. Kerfið er í sjálfu sér einfalt og skilvirkt. Það er almennt og gerir ekki ráð fyrir
mismunun. Það dregur úr miðstýringu, það færir eða gerir a.m.k. mögulegt að færa þessi viðskipti í auknum mæli út í banka og aðrar fjármálastofnanir og nær fólkinu sjálfu. Þetta gerir það að verkum að vaxtamyndun verður eðlilegri.
    Auðvitað er það rétt, sem hér hefur verið bent á, að vextir af húsnæðislánunum sjálfum hækka í kjölfar þessarar breytingar, en þá verða menn að líta til þess að í dag þurfa menn að fjármagna húsnæðislán með skammtímalánum í bankakerfinu meðan beðið er eftir húsnæðislánum og menn selja lánsloforðin með miklum afföllum. Ég hygg að það sé rétt mat þegar á heildina er litið að staðreyndin sé sú að vextir hækki ekki, eða þá mjög óverulega, í kjölfar þessarar breytingar þegar horft er á heildarfjármögnun húsnæðislánanna. Mér sýnist þess vegna að í flestum efnum horfi þessi grundvallarhugmynd í rétta átt og geti orðið til verulegra bóta.
    Að því er varðar frv. sem hér liggur fyrir þarf auðvitað að athuga einstakar greinar þess og þær hugmyndir sem settar eru fram um útfærslu á þessu kerfi. Einkanlega vil ég vekja athygli á þeim breytingum sem hæstv. ráðherra hefur gert á frv. frá tillögum nefndarinnar. Breytingar sem gerðar hafa verið vegna hrossakaupa innan ríkisstjórnarinnar, breytingar sem gerðar hafa verið vegna þess að hæstv. ráðherra sýnist í ýmsum efnum taka Framsfl. fram yfir skýr markmið um breytingar í húsnæðismálum.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna að nefndin sem undirbjó frv. lagði á það áherslu að með skýrum hætti yrði kveðið á um að kaupskylda lífeyrissjóðanna yrði lækkuð. Það er mín skoðun að það sé óhjákvæmilegt

eða nauðsynlegt, ef þetta kerfi á að vera öruggt og tryggt og menn eiga að geta treyst því eftir að lög hafa verið samþykkt um það hér á hinu háa Alþingi að það komist til framkvæmda á eðlilegan hátt, að kaupskyldan sé lækkuð. Nefndin gerir ráð fyrir að hún lækki smám saman í áföngum eftir því sem þetta kerfi verður virkara. Það tel ég vera eðlilegt, en ég sé ekki að það sé hægt að treysta því að þessi þróun fari af stað og húsbréfakerfið hafi eðlilegt svigrúm nema það sé skýrt kveðið á um þetta frá upphafi. Sú skipan sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að heimilt sé að leyfa lífeyrissjóðunum að fullnægja 55% kaupskyldu sinni að ákveðnum hluta samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra með kaupum á húsbréfum, er að mínu mati ófullnægjandi og gerir það að verkum að það er ekki eins tryggt að þetta kerfi komist til framkvæmda. Stjórnarskipti geta orðið hvenær sem er og enginn veit nema hv. 1. þm. Vesturl. verði orðinn félmrh. að skömmum tíma liðnum eða annar þm. með svipaðar skoðanir og þá væri samkvæmt frv. hægt að gera afar lítið eða ekkert úr þeirri lagabreytingu sem hér hefur verið mælt fyrir um.
    Þá er einnig greint frá því í athugasemdum með frv. að annar háttur er nú á hafður varðandi ákvarðanir um vaxtaálag, verðtryggingarskilmála og lánskjör en nefndin lagði til. Nú á að færa þessar ákvarðanir allar inn til ríkisstjórnar Íslands. Þó að þetta sé ekki með meiri háttar atriðum er það mín skoðun að þessi breyting sé ekki til bóta og ég lít ekki svo á að það sé verkefni ríkisstjórnar Íslands að taka ákvarðanir um hluti sem þessa.
    Þá tel ég að athuga þurfi mjög vandlega ákvæði til bráðabirgða, sem sett eru inn í frv. en ekki eru í tillögum nefndarinnar, þar sem kveðið er á um það að fyrstu sex mánuðina eftir gildistöku laganna fái þeir eingöngu afgreiðslu í húsbréfadeildinni sem lagt hafa inn umsókn fyrir 15. mars 1989. Síðan eru ákvæði um það að húsbréf geti einungis komið til álita varðandi nýbyggingar að einu ári liðnu frá gildistöku laganna. Nú getur það verið fullkomlega eðlilegt að stíga þessi skref í áföngum að því er varðar nýbyggingar, en ég tel að þetta ákvæði til bráðabirgða þurfi sérstakrar skoðunar við.
    Jafnframt vil ég vekja athygli á því að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir skerðingarákvæði þar sem skerða á lán til þeirra sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði fyrir en jafnframt kveðið á um að nú eigi að vera heimilt að skerða lán til þeirra sem eiga aðrar eignir sem eru jafngildar í verðmætum. Þetta tel ég vera mjög varhugavert ákvæði. Ég lít svo á að það geti leitt til mismununar. Ég tek sem dæmi trillukarl sem á trillu skuldlausa og kostar nokkrar milljónir kr. Af hverju á að skerða lán til hans vegna þess að honum er nauðsynlegt atvinnu sinnar vegna að fjárfesta í trillu? Hann þarf jafnframt að eiga húsnæði alveg eins og skrifstofumaðurinn sem ekki þarf að fjárfesta atvinnu sinnar vegna. Þetta getur átt við atvinnubílstjóra sem þarf að fjárfesta í dýrum vörubíl og þar fram eftir götunum. Atriði af þessu tagi tel ég nauðsynlegt að taka til sérstakrar skoðunar í nefndinni

vegna þess að þau geta leitt til mismununar sem ekki er réttlát.
    Mér sýnist að þó að húsbréfakerfið geti í grundvallaratriðum horft til bóta sé það álitamál hvort hæstv. félmrh. hefur ekki fórnað of miklu í hrossakaupum við Framsfl. í þeim tilgangi að fá að leggja frv. fram að formi til sem stjórnarfrv. Mér sýnist að það sé ekki nægjanlega tryggt að slíkt kerfi geti komist á með eðlilegum hætti eins og þessi hrossakaup hafa gengið fyrir sig. Það vekur auðvitað upp spurningu um það hvort hæstv. félmrh. er í reynd jafnmikill áhugamaður um að koma þessari breytingu á og hann hefur látið í veðri vaka með því að ráðherrann hefur að mínu mati í allt of ríkum mæli tekið tillit til afturhaldssamrar kröfugerðar Framsfl. í þessum efnum. Ég vil spyrja
ráðherrann að því hvort það komi ekki til álita að mati hans í meðferð málsins hér á þingi að breyta þessum ákvæðum, ekki síst að því er varðar kaupskyldu lífeyrissjóðanna og kveða skýrt á um það að hún skuli lækka í ákveðnu hlutfalli um leið og þetta kerfi tekur gildi. Ef um það getur tekist meirihlutasamstaða hér í þinginu og mönnum sýnist að það geri framkvæmd þessa nýja kerfis tryggari og öruggari, væri hæstv. ráðherra þá ekki tilbúinn að leggjast á þá sveifina og sýna vilja sinn í verki í þessu efni?
    Herra forseti. Við upphaf þessarar umræðu ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil vekja athygli á því að síðustu að þessi ríkisstjórn hefur með verkum sínum unnið mjög gegn hagsmunum húsbyggjenda með ofsköttunarstefnu sinni. Ég vil vekja athygli á því að það vantar enn stefnumörkun sem nær til húsnæðislánakerfisins í heild. Ég er þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum sé húsnæðislánakefið til bóta, en tel nauðsynlegt, ekki síst í ljósi hrossakaupanna sem átt hafa sér stað á milli stjórnarflokkanna, að skoða einstök atriði þessa frv. betur í meðferð málsins hér í þinginu.