Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 17. mars 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta mál er ekki ókunnugt í þingsölum, svo oft hefur það komið til umræðu síðan ég kom á þetta þing. Hæstv. félmrh. er búinn að leggja stólinn sinn að veði nokkrum sinnum í þingsölum fyrir breytingum á þessum lögum.
    Í umræðum á síðasta Alþingi sagði ég að það væri verið að lappa upp á stagónýtt kerfi. Hæstv. félmrh. staðfestir í dag í ræðu sinni að það sem ég sagði í fyrra væri rétt, kerfið væri hrunið. Það liggur ljóst fyrir að það sem ég sagði þá einnig og við í Borgfl. er rétt. Í fyrra lögðum við fram heildstæðan lagabálk um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Þetta frv. hefur nú verið endurflutt í Ed. og hefði í raun verið eðlilegra að leggja fram þess vegna þar það frv. sem hér liggur fyrir. Það er eina heildstæða tillagan sem liggur fyrir í þessum málum á þessu landi.
    Í máli hæstv. félmrh. kom fram að það væru nú um 10 þús. umsóknir óafgreiddar. Í fyrra sagði hæstv. félmrh., og það stendur prentað með einu frv. sem hún lagði fram þá, að þá væru 3800 umsóknir óafgreiddar. Þær hafa vaxið um 6200 umsóknir á einu ári. Hvað segir þetta? Þetta segir að núverandi kerfi er alrangt og þess vegna hefði á sl. ári verið rétt að taka upp húsbankakerfi Borgfl. Það er rétt, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði hér, að það kerfi hefði þeim litist vel á í Kvennalistanum þegar það var lagt fram í fyrra. Það er óþarfi að finna upp hjólið. Það er löngu búið að finna það upp. Þess vegna er óþarfi fyrir okkur að finna upp nýtt kerfi þegar það liggur fyrir að í nokkrum nágrannalöndum eru mjög góð kerfi sem hafa gengið upp. Það er óþarfi að finna upp hjólið. Það er þegar fundið upp. Þess vegna er það að þetta frv. er í rétta átt, en það er ekki fullnægjandi. Það má segja að það væri rétt að samþykkja þetta af mannúðarástæðum vegna þess að ég finn til með félmrh. sem hefur átt í erfiðleikum, aðallega í ríkisstjórninni og þó sérstaklega með framsóknarmennina sem hafa enn ekki skilið að núverandi kerfi er ónýtt. Ég vil taka fram að það er þó betra að það sé gengið fet í áttina að réttu kerfi en það sé setið fast í því kerfi sem núna er.
    Það eru hins vegar ýmis atriði í frv. sem eru athugaverð. Ég vil sérstaklega benda á að það er verið að takmarka mjög þá möguleika sem slíkt kerfi mundi geta haft með ýmsum ákvæðum. Í því frv. sem Borgfl. hefur lagt fram er farið eftir mikilli og góðri reynslu sem hefur náðst af svipuðu kerfi í Danmörku. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að hann hefði verið svolítið skotinn í húsbankakerfinu í Noregi. Ég held að það sýni í rauninni að hv. 1. þm. Vesturl. er sammála því að það sé gerð kerfisbreyting. En hann á erfitt með að játa að það kerfi sem hann átti þátt í að koma á sé afnumið. Það breytir ekki því að þau kerfi sem eru þegar til í öðrum löndum, svo sem Danmörku eins og húsbankakerfi Borgfl. var byggt eftir, eru þróuð og við þurfum ekki að finna þau upp. Við þurfum að vísu að aðlaga ákveðna þætti þeim aðstæðum sem eru

fyrir hendi.
    Í þeim tillögum sem við höfum lagt fram er gert ráð fyrir tvískiptingu þessara mála, annars vegar í Byggingarsjóði ríkisins sem sjái um félagslega kerfið, um íbúðir fyrir lágtekjufólk og verkamannabústaði, íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, verndaðar íbúðir fyrir öryrkja, verndaðar íbúðir fyrir aldraða, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagssamtaka, og hins vegar húsbankakerfinu sem meginhluti húsbyggjenda kemur til með að nota. Það er því auðsætt að það sem núna kemur fram er því miður ekki fullnægjandi og einnig auðsætt að það eru verulegir vankantar á nokkrum atriðum í frv.
    Ég vil nefna að í 68. gr. er talað um að húsbréf sem gefin eru út samkvæmt þessum kafla svo og vextir af þeim og verðbætur eru undanþegin skattlagningu á sama hátt og spariskírteini ríkissjóðs. Hér er enn verið að ganga í öfuga átt. Það er varðandi vaxtamun og eignaskatta. Ég bendi á að með þessu er verið að stuðla að því að hver einasti maður sæki um að fá lán eftir þessu kerfi því að það er ódýrara og hagstæðara að safna skuldum og fá lán í húsbréfakerfi eða kaupa ríkistryggð skuldabréf en eiga skuldlausa húseign.
    Það er svo að maður sem er kominn yfir ákveðið mark eins og menn vita borgar orðið 3% í eignarskatt, auk fasteignagjalda, þannig að hann er farinn að greiða verulegar upphæðir af skuldlausum eignum. Taki hann hins vegar lán samkvæmt þessum lögum gefur auga leið að hann er að taka vaxtalaust lán samkvæmt núverandi kerfi og þar að auki getur hann ávaxtað lánin ef hann skyldi hafa verið svo forsjáll að geyma svolitla peninga í ríkisskuldabréfum með þeim hætti að hann er að stórgræða á málinu. Þessi hluti gerir að verkum að hér er enn verið að ganga í öfuga átt.
    Hv. 1. þm. Suðurl. kom inn á séreignastefnuna. Það er auðvitað alveg rétt hjá honum að hingað til hefur megineinkenni íslenska húsnæðiskerfisins verið séreignastefnan. Frá þessu var horfið með samþykkt á sérstökum eignarsköttum á þessu þingi og það er enn gengið lengra með þessu ákvæði í þessu frv. Niðurstaðan mun verða sú að það er hagstæðara að eiga sem minnst og skulda sem
mest þannig að þetta ýtir undir frekari eyðslu í þjóðfélaginu og ýtir undir að menn komi sínum eignum í eitthvað annað en húseignir.
    Þá er að líta á að hér eru ýmis ákvæði um bankaeftirlit Seðlabankans og annað slíkt. Það er verið að flækja málin enn frekar með þessum lögum og hefði verið nær að taka upp hið einfalda húsbankakerfi, sem Borgfl. lagði til, sem gefur allt aðra mynd af þessum málum en þetta frv. vegna þess að þar er verið að mynda öruggt og fast kerfi sem peningar standa á bak við. Má minna á að í Danmörku eru aðilar að húsbankanum lífeyrissjóðir, tryggingarfélög, bankar og sparisjóðir og með því er tryggt fjármagn og sala á þeim bréfum sem fólk fær. Þetta vantar mjög í frv. sem hér liggur fyrir og því full ástæða til að þessi mál verði skoðuð mun betur.

    Það er mjög mikilvægt að þegar slík breyting á sér stað sé ekki verið að vaða í villu og svíma því að það er ljóst að það er ekki tryggt að þeir sem fá húsbréf geti verið öruggir með að þeir geti selt bréfin með nægilega öruggum hætti eins og hér er gert ráð fyrir.
    Þá vil ég víkja að því að það er verið að setja enn einu sinni fermetrareglu í þetta frv. og talað um fullnægjandi húsnæði í 1. gr. þar sem það má ekki vera stærra en 180 fermetrar brúttó o.s.frv. Ég held að það sé mjög óhagstætt að setja slíka reglu í lög. Auðvitað takmarkast þetta sjálfkrafa með því að húsbréf geta verið mörkuð við ákveðna upphæð. Þess vegna er óþarfi að vera að taka fram sérstaka stærð á húsnæði. Það er því algerlega út í hött að hafa þessi ákvæði þarna um stærð á íbúðum.
    Þá er í sömu grein talað um aðrar eignir sem má meta jafngildar að verðmæti. Þá erum við komin á hættulega braut. Það er svo að þeir sem eiga mest eiga hæga leið með að komast fram hjá slíku ákvæði. Ef það er verið að hugsa um það nær það ekki til þeirra. Það er hægur vandi að breyta einkafyrirtækjum í hlutafélög og hlutabréfin geta verið skráð afskaplega lágt eins og er gert í mörgum fyrirtækjum hér. Þá ná þessi ákvæði ekki til þeirra, en ná hins vegar til litla mannsins í atvinnulífinu, til mannsins sem er með lítil einkafyrirtæki, mannsins sem rekur lítið fyrirtæki úti í bæ og er sjálfur ábyrgur fyrir sínu fyrirtæki, en þetta nær ekki til þeirra sem eiga stóru fyrirtækin. Hér er um verulegan galla að ræða. Ég held að það eigi heldur ekki að vera svona ákvæði inni vegna þess að það er alveg ljóst að slíkt gengur aldrei. Það mun hvort sem er verða þannig að þeir sem eiga eignir eða eru allt of ríkir miðað við þetta ákvæði munu komast fram hjá þessum ákvæðum. Þess vegna á ekki að hafa slík ákvæði í þessum lögum.
    Þá er á það að líta í 2. gr. þessara laga að í a-lið eigi umsækjendur sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn hámarkslánsrétt. Skv. 1. mgr. 12. gr. nemur lán hverrar íbúðar 2 millj. og 100 þús. kr. fyrir hjón, sambýlisfólk og einstæða foreldra, en 1407 þús. kr. fyrir einhleyping. Eigi þeir lágmarksrétt nemur lán hverrar íbúðar 700 þús. kr. fyrir hjón, sambýlisfólk og einstæða foreldra en 469 þús. kr. fyrir einhleyping. Þetta ákvæði er einnig afar merkilegt. Enn er verið að ganga á rétt einhleypinga og setja þá á þann stól að þeir megi yfirleitt ekki eiga neitt og eiga helst að búa í einu herbergi með einni Rafha-plötu.
    Ég held að lán eins og eru erlendis í húsbankakerfinu miðist við greiðslugetu viðkomandi, hvernig hann vill byggja sjálfur og það traust sem er á honum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði. Að flokka alltaf fólk niður eftir einhverjum sérstökum óskalista, eftir því hvort hann er einhleypingur eða hvort hann á meira eða minna í handraðanum er algerlega rangt. Ég held að það sé mikil heimska að gera slíkt. Þetta hvetur aðeins til þess að menn fjárfesti ekki í íbúðum sem hér á landi er lífsnauðsynlegt og aðstæður allt öðruvísi en í mörgum öðrum löndum að því leyti til að hin harða

vetrarveðrátta hér, sem oft og tíðum er, og hin stuttu sumur gera það nauðsynlegt að menn búi í stærra íbúðarhúsnæði en víðast hvar annars staðar vegna þess að þeir þurfa að vera innan dyra mestan hluta ársins, en í mörgum öðrum löndum geta menn verið utan dyra í sól og góðu veðri stóran hluta ársins. Þetta er ein af þeim ástæðum sem gera að verkum að menn verða að hafa stærra húsnæði hér og búa betur en víða annars staðar.
    Afstaða Framsfl. í þessu máli hefur verið mjög til umræðu. Þar kemur fram að þingflokkur Framsfl. er óbundinn af því hvort þingmenn styðja eða styðja ekki þetta frv. Eru það nú engin undur. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur margoft stigið hér í ræðustól og ávallt verið á móti öllum frv. hæstv. félmrh. Það kom engum á óvart þó það yrði einnig núna. Það hefur heldur ekki komið á óvart að forseti ASÍ hefur lagst á móti þessu frv. því hann hefur bundið sig við gamla fyrirkomulagið sem hann tók þátt í að koma á án þess að hann hafi nokkurn tíman gert grein fyrir því hvernig hann vill að 10.000 umsóknir verði afgreiddar og án þess hann hafi nokkurn tímann kynnt sér í raun það sem er gert í nágrannalöndunum og hefði hann nú mátt hafa samband við launþegasamtökin í Danmörku t.d. til að fá að vita hvað þeir gera þar. Hann hefði fengið þær upplýsingar að launþegasamtökin í Danmörku eru meðmælt húsbankakerfinu. Hann hefði fengið þær upplýsingar frá launþegasamtökum í
Noregi að þau eru meðmælt húsbankakerfinu. Hann mætti vel tala við þessa nágranna sína um þessi mál.
    Það er líka alveg ljóst að þó að þetta frv. stefni í rétta átt vekur það ýmsar spurningar.
    Í fyrsta lagi varðandi vaxtamun, eignarskatta og aðra óáran sem núverandi ríkisstjórn hefur komið á. Ég minni á að með hækkun eignaskatta hefur verið stigið spor frá séreignastefnunni í ríkisforsjá á öllum sviðum. Og ekki nóg með það heldur hefur núv. ríkisstjórn hækkað vörugjald á byggingarvörum sem þýðir að byggingarkostnaður hefur vaxið og útgjöld heimilanna hafa vaxið. Það þýðir líka það að menn þurfa meira fjármagn til að byggja, menn þurfa hærri lán og menn þurfa miklu lengri lán en nú eru veitt til að geta fjármagnað húsbyggingar sínar.
    Í grein sem er nefnd k (60. gr.) segir að hámarkstími á fasteignaveðbréfum er húsbréfadeild kaupir skuli vera 25 ár. Ég held að það væri mjög nauðsynlegt að slík lán væru til 40 ára. Það væri nauðsynlegt því að það þarf að lengja lánstímann, minnka greiðslubyrði lána þannig að það sé hagstæðara að greiða af eigin húsnæði, nema hugsunin sé sú að það eigi að hverfa frá séreignastefnunni, eins og mér finnst að sé að hluta til, og ganga í átt að algerri ríkisforsjá.
    Það er vafalaust svo að tillögur Borgfl. eru þær einu heildstæðu tillögur sem hér hafa komið fram, enda heyrði ég í máli hv. 1. þm. Suðurl., þegar hann las úr ályktun Sjálfstfl. frá nóvember 1987, að þær tillögur voru að hluta til þær sömu og Borgfl. hafði þá flutt á þingi. Þannig sé ég að Sjálfstfl. hefur nú nálgast Borgfl. að þessu leyti. Ég held, þegar við

lítum á það og hvað hv. 12. þm. Reykv. sagði um þessi mál, að það sé að myndast meiri hluti á þingi til að breyta þessum lögum í þá veru að það verði teknir upp jafnvel húsbankar og þetta kerfi verði alveg stokkað upp. Það er því nokkuð ljóst, eftir að framsóknarmenn hafa lýst því yfir að þeir hafi óbundnar hendur, að það er hægt að ná meirihlutasamstöðu á þingi um nýtt kerfi og það þrátt fyrir og án stuðnings Framsfl. Ég held að það væri full ástæða til þess þegar málið verður sent til félmn. að það verði reynt að sameina þessi sjónarmið og koma með nýtt kerfi sem jafnvel væri heldur frábrugðnara því sem hér liggur fyrir um húsbréf, sem væri fullkomnara og betra þannig að við gætum í eitt skipti afgreitt gott kerfi þar sem eru ekki 10.000 manns á biðlista og það þyrftu ekki að bætast við á biðlistann 6200 manns á hverju ári. Ef það er rétt sem hæstv. félmrh. sagði um að það hefði fjölgað svo á listanum frá því í fyrra má búast við að það verði enn þá meiri vöxtur í þeim lista á næsta ári.
    Ég vil svo ítreka að húsbankakerfi Borgfl. er að mörgu leyti tekið upp samkvæmt þeim fyrirmyndum sem danskir húsbankar hafa. Þar er jafnframt gert ráð fyrir ýmsum möguleikum um lánskjör. Það er jafnvíst og hér hefur reyndar oft komið fram í sölum Alþingis að lánskjör eru mjög erfið hér hvað varðar vísitölur. Ég held að það væri þess vert að skoða það lánafyrirkomulag sem til eru annars staðar, svo sem lán með greiðslumarki og afkomutryggingu. Það er full þörf á að við skoðum hvaða möguleikar eru fyrir hendi og höfum fleiri möguleika en einn á lánskjörum. Þá er rétt að minna á að vaxtaaðlögunarskuldabréf t.d. bjóða upp á mjög hagstæð kjör. Ég held að við mættum vel hugsa um hvort við tækjum ekki einnig það upp.
    Það er svo að húsnæðismál eru hjá hverri þjóð stærsta mál þjóðarinnar oft og tíðum ásamt launamálum. Það að hver hafi sitt eigið húsnæði er ein af þeim þörfum sem eru lífsnauðsyn. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði áðan að það þyrfti að rannsaka þessa þörf um allt land, gera víðtæka úttekt á því. Ég tek undir það sjónarmið að auðvitað væri ráðlegt að það lægi fyrir mjög viðamikil könnun á þessum málum og það lægi fyrir rannsókn á húsnæðisþörf um allt land. Það er nokkuð víst að það þarf að liggja fyrir ákveðin langtímaáætlun um húsnæðismál. Það þarf að liggja fyrir húsnæðisþörfin á komandi árum. Það þarf líka að liggja fyrir að það sé stöðugleiki í þessum málum. Stöðugleiki þessi næst aðeins með því að það verði farið inn á nýjar leiðir og að húsbyggjendur geti verið öruggir um að þeir geti gengið inn í húsbanka eða Húsnæðisstofnun og fengið lán þegar þeir hafa hugsað sér að koma sér þaki yfir höfuðið.
    Í Danmörku er það svo að maður sem kemur inn í húsbanka á mánudegi getur í versta falli lent í því að fá lánið ekki fyrr en á föstudegi. Það er það lengsta sem það getur tekið. Hér er verið að tala um --- ég veit ekki hvort það er verið að tala um að menn geti beðið fram á næstu öld, en það er þó einna helst svo að við getum átt von á því að þeir sem eru

núna síðastir í röðinni fái lán á næstu öld. Þetta sýnir í hnotskurn að húsnæðislánakerfið hér er langt frá því að vera fullnægjandi og við hljótum að sameinast um að gera það kerfi, sem er nauðsynlegt hér eins og annars staðar, með þeim hætti að það fullnægi óskum fólksins í landinu um að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er alveg ljóst að hugur íslenskra kjósenda stefnir í að eiga hús sín. Þess vegna verður jafnframt að gera breytingar á eignarskatti, á vaxtakjörum, á lánskjörum þannig að það sé ekki alltaf verið að hegna þeim sem standa sig vel, en það er alveg ljóst að núverandi kerfi gerir það. Að taka
húsnæðismálalán í dag er hagstæðara en að eiga skuldlausa eign. Menn koma betur út úr því. Það er því mjög mikilvægt að við reynum að sameinast um að hafa þessi mál með þeim hætti að allir geti sætt sig við þau.
    Ég vil að lokum taka fram að ég óska eftir því að þessi mál verði tekin til mikillar og góðrar umræðu í félmn. með þeim hætti að meiri hlutinn á þingi geti sameinast um að koma frá sér heildstæðum lögum um húsnæðismál en ekki að það sé verið að taka einn þáttinn að svolitlum hluta eins og e.t.v. hefur verið gert margoft og við bentum á æðioft í fyrra. Nú verði gengið til verks með þeim hætti að það þurfi ekki alltaf að leggja þessi mál hér fram á þingi og forræði stjórnmálamannanna í þessum málum verði minnkað og fært til fólksins í landinu, en það er aðeins gert með því að það verði tekið upp húsbankakerfi með öflugum stuðningi verkalýðshreyfingar, tryggingafélaga og bankamanna.