Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 17. mars 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að leggja áherslu á stefnu Sjálfstfl., en hún er sú að sem flestar fjölskyldur og einstaklingar í þjóðfélaginu geti eignast eigið húsnæði og notið þess öryggis og sjálfstæðis sem því fylgir. Ég tel þessa stefnu mjög stóran þátt í fjölskyldupólitík, en því miður hefur markviss fjölskyldupólitík ekki skipað nógu stóran sess í hugum margra stjórnmálamanna, hvort sem er um álagningu skatta eða á annan hátt. Það er hins vegar alveg ljóst að öruggt húsnæði er nauðsynlegt fyrir fólk og alveg sérstaklega með tilliti til þeirrar festu sem það skapar börnum t.d. hvað varðar fasta skólavist og félaga. Það vita líka allir hvaða áhrif það getur haft á fólk að eiga við stöðugar peningaáhyggjur að stríða og mikið strit, álag sem kemur niður bæði á líkamlegri og andlegri heilsu manna og í mörgum tilvikum á fjölskyldunni.
    Ástæða þess að ég nefni hér sérstaklega fjölskylduna er sú staðreynd að langflestir umsækjendur húsnæðislána eru pör með barn eða börn þó að að sjálfsögðu séu aðrir inni í myndinni þar sem þörfin getur verið ámóta mikil. Þrátt fyrir þetta hlýtur sú spurning alltaf að vakna hversu langt eigi að ganga í þessum efnum, þ.e. að tryggja fólki húsnæði, og það er ljóst að hér hefur verið og er um gífurlega fjármuni að ræða. Ég get ekki lagt á það mat hér og nú hvernig núverandi kerfi hefur reynst í þessum efnum, en félmrn. hefur sent frá sér minnisblað um þetta efni og þar koma fram ákveðnar upplýsingar. Ef þær eru á rökum reistar eru u.þ.b. 10.000 umsóknir enn óafgreiddar rétt eins og hæstv. félmrh. gat um í framsöguræðu sinni áðan. Hún hélt því reyndar fram að engin von væri til þess að núverandi kerfi gæti náð jafnvægi og biðröðin mundi halda áfram að lengjast þrátt fyrir mikla fjármuni sem til þess yrði varið. Með tilliti til þess og annarra ókosta þessa kerfis virðist þetta frv. um húsbréfakerfi því lagt fram.
    Þess má reyndar geta að fæðing þess hefur reynst erfið innan ríkisstjórnarinnar og hafa fulltrúar bæði Alþb. og Framsfl. fundið því margt til foráttu. Má raunar telja ljóst að framsóknarmenn sérstaklega hafi reynt að setja hæstv. félmrh. upp að vegg í þessu máli og er það kannski einkennandi fyrir þá óeiningu sem ríkir um mörg stórmál innan ríkisstjórnarinnar. En þetta er kannski í takt við þá efnahagsstefnu sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir og er að koma mörgum fjölskyldum á kaldan klakann. Sem dæmi má nefna eignarskattinn margfræga sem getur orðið til þess að fjölskyldur og einstaklingar hrekist úr eigin húsnæði. En nóg um það. Slíka háttsemi munu kjósendur sjálfir dæma um.
    Það er álit margra að núverandi kerfi hafi ekki uppfyllt þær vonir sem við það voru bundnar og einstaka lagfæringar muni hrökkva skammt. Tilgangur húsbréfakerfisins virðist m.a. felast í því að hægt sé að komst hjá margra ára biðtíma núverandi kerfis og lækka útborgunarhlutfallið við íbúðakaup. Með því kerfi á húsnæðislánamarkaðurinn að geta fjármagnað sig að miklu leyti sjálfur og fjármagnið á að haldast heima í héraði. Húsbréfakerfið virðist því draga úr

þeirri miðstýringu sem verið hefur á afgreiðslu húsnæðislána. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir því að húsbréfadeildin leiti samninga við almennar lánastofnanir, svo sem banka og sparisjóði, um að annast skuldabréfaviðskipti og mat á greiðslugetu íbúðarkaupanda. Það hlýtur að teljast eðlilegt og jákvætt að slík viðskipti fari fram á þeim vettvangi. Getur þetta kerfi e.t.v. stuðlað að því að minnka framlag ríkisins og jafnvel að viðskipti sem þessi fari í heild til bankanna.
    Hæstv. félmrh. lýsti því áðan ítarlega hverja kosti þetta kerfi á að hafa í för með sér og margvíslegar upplýsingar eru einnig fyrirliggjandi í ýmsum gögnum og fylgiskjölum.
    Þá grundvallarhugmynd sem hér liggur að baki teljum við sjálfstæðismenn jákvæða og í frjálsræðisátt. Hins vegar teljum við ákveðinn fyrirvara nauðsynlegan því um margt ríkir hér töluverð óvissa. Það eru einnig ýmis ákvæði í þessu frv. sem virðast varasöm. Án þess að ég geri hér nákvæmlega grein fyrir því má nefna fyrstu þrjár greinarnar sem þrengja núverandi kerfi. Sérstaklega má benda á b-lið 1. gr., en hv. 1. þm. Suðurl. vakti einmitt athygli á þessu ákvæði í ræðu sinni áðan. Ég ítreka þetta atriði því hér virðist alfarið byggt á geðþóttaákvörðunum sem er mjög alvarlegt og hefur mikla mismunun í för með sér fyrir þjóðfélagsþegna. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Einnig er húsnæðismálastjórn heimilt, þrátt fyrir ákvæði 12., 13., 14. og 48. gr. laga þessara, að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetra brúttó að frádregnum bílskúr. Sama gildir um þann sem á aðrar eignir sem meta má jafngildar að verðmæti.``
    Hér er engan veginn ljóst við hvað er átt. Er hér átt við manninn sem stundar sjálfstæðan atvinnurekstur og á því t.d. vörubifreið eða sendiferðabíl? Á hann þá að vera verr settur en verslunarmaðurinn við hliðina á honum? Þetta verður að skýra og taka af öll tvímæli.
    Fleira mætti nefna til, t.d. hvernig fer með kaupskyldu lífeyrissjóðanna. Reyndar er um þá farið orðum á nokkuð furðulegan hátt í athugasemdum frá félmrn., en þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Reynslan hefur sýnt að ýmsir annmarkar eru samfara heildarsamningum við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup af Húsnæðisstofnun. Hér er í raun um að ræða einu langtímalántökurnar í landinu og enga viðmiðun að hafa á öðrum sviðum. Í þessum samningum takast á tveir einokunaraðilar þar sem útkoman getur orðið æðitilviljanakennd.``
    Svona athugasemd er að mínu mati ákaflega ósanngjörn því lífeyrissjóðirnir hafa verið þvingaðir til samninga.
    Hins vegar er margt áhugavert í þessu frv. Og þar sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir var áðan að ræða um hið félagslega íbúðarkerfi, þá er það vissulega mikilvægt að það gegni sínu hlutverki. Þó er það álit margra þeirra sem þetta unnu að húsbréfakerfið gæti

hugsanlega dregið úr ásókn í hið félagslega kerfi þar sem fleiri aðilar eru nú sem gætu ráðist í íbúðakaup. Um það skal ég ekki dæma hér, en leyfi mér þó að vitna í grein eftir Yngva Örn Kristinsson hagfræðing sem birtist í Dagblaðinu í gær. Þar er m.a. borið saman núverandi kerfi og húsbréfin og þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Eins og sjá má léttir húsbréfakerfið mjög greiðslubyrðina fyrstu árin, fyrst og fremst vegna þess að það dregur úr þörf fyrir dýra skammtímafjármögnun. Þegar fram líða stundir jafnast þessi munur, en húsbréfakerfið er þó hagstæðara þegar tekið er tillit til vaxtabótanna.``
    En það er ákveðin árátta í þessu frv. sem víða kemur fyrir, og það er setningin: ,,Nánari reglur um framangreind atriði skal setja í reglugerð.`` Þegar um svo veigamiklar breytingar er að ræða sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er þetta alls ófullnægjandi. Hér má ekki ríkja neinn vafi á um framkvæmdina. Við þessu þurfa hv. þm. að fá skýrari svör.
    Enn fremur má geta þess að húsbréfadeildin er kaupandi fasteignaveðbréfanna og verður því að ganga tryggilega frá öllum þeim þáttum sem lúta að tryggingum vegna þeirra, sbr. og e-lið 4. gr. frv., þar sem þessari deild eða trúnaðarmönnum ber að annast mat á veðhæfni eigna. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt, en ég verð hins vegar að vekja athygli á því í þessu sambandi að í lögum um staðgreiðslu og virðisaukaskatt eru ákvæði sem veita skattakröfum algjöran forgang fram yfir veðkröfur í þrotabú og skuldafrágöngubú með þeim afleiðingum m.a., að veðbókarvottorð verða nær marklaus því aldrei er hægt að vita fyrir fram hvaða kröfur og hversu miklar skattheimtumenn munu gera. Hvernig á þá að vera hægt að meta alfarið veðhæfni eigna? Svarið er einfalt. Það virðist ekki hægt.
    Sl. þriðjudag flutti ég ásamt fleiri hv. þm. frv. til breytinga á þessum ákvæðum. Tel ég að með því máli sem hér er til umræðu hafi bæst við enn ein rökin fyrir þeirri nauðsyn að framangreint frv. um breytingar á skattalögunum verði samþykkt. Þar sem hæstv. félmrh. er hér staddur spyr ég um álit hennar á þessu.
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að tíminn er naumur. Ég ætla því ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Ég geri við það ákveðna fyrirvara, en lýsi hins vegar stuðningi mínum við þá grundvallarhugmynd sem það er byggt á. Vænti ég að hæstv. félmrh. muni leitast við að skýra á næstunni ýmsa þá óvissuþætti sem hér hefur verið drepið á og geri nauðsynlegar breytingar.
    Að lokum vil ég leggja áherslu á að sjálfstæðismenn munu ekki taka þátt í neinum pólitískum skollaleik í þessu máli. Sjálfstæðismenn munu skoða þetta mál betur og taka síðan til þess ábyrga afstöðu.