Minning Finnboga Rúts Valdimarssonar
Mánudaginn 20. mars 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Nú verður minnst látins alþingismanns, Finnboga Rúts Valdimarssonar.
    Finnbogi Rútur Valdimarsson fyrrverandi alþingismaður andaðist á sjúkrahúsi hér í Reykjavík í gærmorgun, sunnudaginn 19. mars, á átttugasta og þriðja aldursári.
    Finnbogi Rútur Valdimarsson var fæddur 24. sept. 1906 í Fremri-Arnardal í Eyrarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Valdimar bóndi þar Jónsson bónda og hákarlaformanns á Melum í Árneshreppi Jónssonar og Elín Hannibalsdóttir bónda í Tungu í Nauteyrarhreppi Jóhannessonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1927, las lög við Háskóla Íslands veturinn 1927--1928 og var jafnframt þingskrifari, en fór síðan utan og nam alþjóðarétt í París, Genf, Berlín og Róm á árunum 1928--1933. Þegar heim kom frá námi varð hann ritstjóri Alþýðublaðsins 1933--1938, var síðan framkvæmdastjóri bókaútgáfu Menningar- og fræðslusambands alþýðu 1938--1944. Hann gaf út ásamt öðrum vikublaðið Útsýn 1945--1946 og var ritstjóri þess. Árið 1940 fluttist hann úr Reykjavík að Marbakka við Fossvog og átti þar heimili síðan. Hann átti sæti í hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps 1946--1947, í hreppsnefnd hins nýja Kópavogshrepps, og var jafnframt oddviti hennar, 1948--1955 og loks í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar 1955--1962. Bæjarstjóri var hann 1955--1957. Hann var landskjörinn alþingismaður 1949--1959 og alþingismaður Reykjaneskjördæmis 1959--1963, sat á 15 þingum alls. Bankastjóri Útvegsbanka Íslands var hann 1957--1972.
    Finnbogi Rútur Valdimarsson átti sæti í skipulagsnefnd atvinnumála 1934, í útvarpsráði 1939--1945, í stjórn Byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna, síðar Byggingarsjóðs verkamanna, 1957--1970 og í landhelgisnefnd 1957--1974. Hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1956 og 1967 og á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1974.
    Finnbogi Rútur Valdimarsson varð ritstjóri Alþýðublaðsins þegar hann kom heim frá námi. Hann kom með nýjar hugmyndir um ritstjórn blaða, blaðið breytti um svip, stækkaði og varð brautryðjandi nýrra hátta í blaðaútgáfu. Hann hvarf frá ritstjórn blaðsins á umbrotatímum í stjórnmálum og stóð næstu árin með öðrum fyrir bókaútgáfu með nýju sniði, útgáfu ódýrra en vandaðra félagsbóka.
    Finnbogi Rútur nam þjóðarétt og alþjóðastjórnmál, fyrst í París en lengst í Genf. Hann bjó alla ævi yfir miklum fróðleik og góðri yfirsýn um þessi mál. Þau voru meginviðfangsefni hans á Alþingi. Hann var allan þann tíma í utanríkismálanefnd og málflutningur hans á Alþingi var að stærstum hluta um utanríkismál Íslands og samskipti þess við önnur lönd. Hann var í landhelgisnefnd og fjallaði þar um landhelgis- og fiskveiðilögsögumál á tímum stórra ákvarðana.
    Finnbogi Rútur stofnaði nýbýlið Marbakka við Fossvog, skammt utan Reykjavíkur, árið 1940. Byggð

á þeim slóðum jókst ört og breyttist í þéttbýli á fáum árum, varð sérstakt sveitarfélag og síðar kaupstaður. Stofnað var Framfarafélag Kópavogs og unnið að hagsmunum byggðarinnar undir merkjum þess. Finnbogi Rútur stóð þar lengi fremstur í flokki, átti sem slíkur og sem oddviti og bæjarstjóri frumkvæði að skipulagi byggðarinnar þar og nauðsynlegum framkvæmdum. Hann stóð fyrir því á Alþingi að Kópavogur hlyti kaupstaðarréttindi. Í þakkarskyni fyrir mikil og árangursrík störf voru þau hjónin Finnbogi Rútur Valdimarsson og Hulda Jakbosdóttir, sem tók við bæjarstjórastarfi af honum 1957 fram til 1962, kjörin fyrstu heiðursborgarar Kópavogskaupstaðar 8. október 1976. Þar unnu þau brautryðjandastarf sem lengi mun minnst.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Finnboga Rúts Valdimarssonar með því að rísa úr sætum.