Fjáraukalög 1987
Mánudaginn 20. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga á þskj. 523 og er það flutt í tengslum við frv. til staðfestingar á ríkisreikningi fyrir sama ár.
    Eins og fram hefur komið í hv. Nd. hefur fjh.- og viðskn. Nd. skilað nál. um ríkisreikninginn og virðuleg fjvn. hefur að undanförnu unnið mjög ötult starf við að fara yfir það frv. til fjáraukalaga sem ég mæli hér fyrir. Það er þess vegna ekki seinna vænna að mæla formlega fyrir frv. hér í Sþ. svo að a.m.k. því verki verði lokið þegar nál. fjvn. verður lagt fram.
    Í bréfi sínu til fjmrh., dags. 1. des. 1988, lögðu yfirskoðunarmenn ríkisreiknings til að auk ríkisreiknings fyrir árið 1987 samþykkti Alþingi fjáraukalög vegna gjaldfærslu umfram fjárlög ársins 1987.
    Verulegar breytingar eru nú gerðar á frv. til fjáraukalaga frá því sem verið hefur. Meginbreytingin felst í því að frv. er sett fram með sama hætti og fjárlög. Sú framsetning á að gefa hv. alþm. og sérstaklega fjvn. tækifæri til þess að bera rækilega saman tölur fjárlaganna fyrir viðkomandi ár og síðan útkomu ársins. Þar með á að skapast miklu skýrari grundvöllur til þess að hafa eftirlit með útgjöldum ríkisins, kanna það hvers vegna farið hafi verið fram úr þeim tölum sem ákveðnar voru í fjárlögum og á annan hátt tryggja það eftirlit og aðhald sem nauðsynlegt er í rekstri ríkisins. Áður var það venjan að einungis var leitað eftir samþykki á breytingum á 2. gr. fjárlaga, en þar komu einungis fram heildartölur, skipt á einstök ráðuneyti.
    Nú liggja hins vegar fyrir tölur um hverja einustu ríkisstofnun og hvern einasta lið í fjárlögunum sjálfum, þannig að það aðhald og eftirlit sem ég gat um áðan á að vera miklu raunhæfara og auðveldara nú og í framtíðinni.
    Þá er einnig í frv. gerð grein fyrir breytingum á einstökum tekjuliðum skv. 3. gr. fjárlaga og birt er heildaryfirlit er sýnir breytinguna á rekstrarafkomu og fjármagnshreyfingum á efnahag A-hluta reikninga skv. 1. gr. fjárlaga. Það er von mín að þessi breyting sem nú er innleidd í meðferð fjáraukalaga verði til þess að alþingismönnum gefist kostur á að ræða og afgreiða fjáraukalög með fyllri hætti en áður.
    Með þessum breyttu vinnubrögðum um endurskoðun sem tekin hafa verið upp með lögum nr. 12/1986 standa vonir til þess að ríkisreikningurinn fyrir árið 1988 ásamt endurskoðunarskýrslu og frv. til fjáraukalaga fyrir það ár liggi fyrir eigi síðar en frv. til fjárlaga fyrir 1990, þ.e. í upphafi þings á hausti komanda.
    Ég vil, virðulegur forseti, síðan nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. fjvn. sérstaklega fyrir það að hún hefur kosið að vanda mjög yfirferð sína yfir það frv. til fjáraukalaga sem hér er mælt fyrir. Það er mikilvægur þáttur í viðleitni okkar til þess að skapa traust tök á ríkisrekstrinum að fjvn. og Alþingi láti finna mjög rækilega fyrir því að Alþingi krefst þess að einstök ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir geri þinginu rækilega grein fyrir gjörðum sínum, ekki aðeins við

fjárlagagerðina á hverju ári, heldur einnig þegar farið er yfir reynsluna að árinu loknu. Ég vænti þess að þessi nýju vinnubrögð, bæði af hálfu fjmrn., Ríkisendurskoðunar og fjvn., verði til þess að stjórnendur ríkiskerfisins, bæði ráðuneyta, ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana, finni fyrir miklu meiri ábyrgð og miklu virkara aðhaldi en til þessa.
    Ég vil svo einnig, virðulegur forseti, nota þetta tækifæri til að greina frá því að ég hef til athugunar í fjmrn. með hvaða hætti eigi að fara með greiðslur umfram fjárlög á yfirstandandi ári. Það hafa verið margvíslegar umræður um það hvernig æskilegt sé að breyta þeirri skipan. Ég hef ákveðið að setja í gang athugun í ráðuneytinu þar sem m.a. verði tekið tillit til þeirra aðferða sem beitt er í ýmsum nágrannalöndum okkar og mun innan nokkurra vikna gera hæstv. ríkisstjórn og fjvn. grein fyrir hugmyndum um nýja skipan þeirra mála.
    Ég mælist svo til þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjvn. þar sem vinna við það hefur, eins og ég hef hér greint frá, þegar hafist.