Flm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 548 flyt ég ásamt þingmönnunum Agli Jónssyni, Hjörleifi Guttormssyni, Birnu K. Lárusdóttur, Óla Þ. Guðbjartssyni, Auði Eiríkisdóttur og Alexander Stefánssyni till. til þál. um að fela ríkisstjórninni að vinna að sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar í samræmi við það. Enn fremur verði með þeirri lagasetningu kveðið á um jöfnun smásöluverðs á raforku þannig að verðlagning hjá hinu nýja fyrirtæki verði sambærileg við vegið meðaltal hjá öðrum rafveitum.
    Alþingi hefur með lagasetningu á undanförnum áratugum markað stefnuna í uppbyggingu raforkuvera og dreifiveitna og í skjóli þessara lagasetninga hefur raforkukerfið síðan þróast. Ein af afleiðingum þess er mismunandi smásöluverð á raforku milli landsvæða þannig að mikill meiri hluti þjóðarinnar nýtur lægra verðlags en þeir sem búa í héruðunum þar sem raforkuöflunin fyrst og fremst fer fram þrátt fyrir ýmsar lagabreytingar sem gerðar hafa verið til þess að jafna þann mismun. Slíkt ástand er að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi og minnir á það þegar nýlenduþjóðir fyrri tíma sóttu ódýr hráefni til nýlendna sinna til að standa undir eigin velmegun. Það er því Alþingi til vansa að láta slíkt viðgangast lengur.
    En að fenginni reynslu virðist erfitt að ná því fram nema það gerist innan
raforkukerfisins sjálfs, enda rökrétt að sá aðili sem nýtur þeirra forréttinda að fá að nýta orkuna og virkja taki á sig þær skyldur í staðinn.
    Að sjálfsögðu er hægt að fara fleiri en eina leið til að ná því markmiði, en í þessari þáltill. er lagt til að fara þá einföldustu, þ.e. að sameina rekstur Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og annarra þeirra dreifiveitna sem þess kynnu að óska og smásöluverð þessa nýja fyrirtækis verði síðan miðað við vegið meðaltal annarra dreifiveitna. Heildsöluverðið yrði síðan sú afgangsstærð sem verður að miðast við að ná viðunandi afkomu fyrir fyrirtækið eins og hingað til hefur verið gert þannig að því fer víðs fjarri að afkoma þess yrði síður tryggð en hjá Landsvirkjun núna, enda má segja að hliðstæður þess séu hjá Rafmagnsveitum ríkisins þar sem þær selja í heildsölu til annarra dreifiveitna jafnframt sinni smásölu. Auk þess að vera einföld leið til verðjöfnunar ætti með sameiningu þessara fyrirtækja að vera hægt að ná fram margvíslegri hagræðingu í rekstri þeirra þar sem m.a. fellur niður annað heildsölustig.
    Á núverandi skipulagi verðlagningarkerfis hafa komið fram ýmsir annmarkar sem m.a. birtast í því að fyrir sum fyrirtæki er það sparnaður að leggja í fjárfestingu til að framleiða raforku með olíu í stað þess að kaupa hana af umframorku hins innlenda orkukerfis. Augljóst er hvað það er miklu dýrara fyrir þjóðarbúið í heild að fara inn á slíka braut.
    Þá hefur einnig komið í ljós að fjármagninu hefur ekki alltaf verið beint til þeirra framkvæmda

sem brýnastar eru í raforkukerfinu. Á sama tíma og ekki hefur verið unnt að vinna að bráðnauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun línukerfisins hefur verið flýtt sér um of við sumar framkvæmdir í raforkuöflun svo að við umframkostnaðinn einan af þeim sökum hefði mátt gera þar miklar umbætur á línukerfinu.
    Eiginfjárstaða beggja þessara fyrirtækja er sterk þar sem eigið fé Landsvirkjunar var í árslok 1987 13,6 milljarðar kr. og Rafmagnsveitna ríkisins um 5,5 milljarðar. Af þessum tölum er ljóst að hlutur ríkisins mun verða miklu stærri í hinu sameinaða fyrirtæki en hann er í Landsvirkjun nú, að minnsta kosti ef ekki koma inn fleiri sveitarfélög eða samtök þeirra, en sjálfasagt virðist að taka það til athugunar.
    Eins og áður er sagt er tilgangurinn með flutningi þessarar þáltill. fyrst og fremst að leiðrétta ójöfnuð á smásöluverði á raforku sem allt of lengi hefur dregist að gera. Ég vil því beina því til nefndar þeirrar sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki það sem fyrst til afgreiðslu á þann hátt að þessu markmiði verði náð, hvort sem það verður gert með þeirri leið sem hér hefur verið bent á eða annarri ef nefndinni sýnist að auðveldara sé að komast hana.
    Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. atvmn.