Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það sem fram hefur komið í máli þeirra sem til þessa hafa tekið þátt í umræðunni og vík þá fyrst að máli hv. 7. þm. Reykn.
    Það var margt rétt athugað í því sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn., en ég vil benda honum á að það verður ekki allt sagt í einni prédikun og ekki allur vandi leystur með einu frv. og þessu frv. er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á íslenskum efnahagsvanda. Það hefur mjög takmarkaðan tilgang en að mínu viti markverðan. Ég er sammála hv. þm. Júlíusi Sólnes um að það er þörf á skipulagsbreytingum í íslensku bankakerfi. Það er hins vegar ekki til umræðu í þessu frv. eða þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu í hv. Ed.
    Ég vildi víkja aðeins að því sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. um rekstrarafgang viðskiptabankanna á sl. ári í samanburði við afkomu atvinnuveganna. Það kom reyndar fram í máli ýmissa annarra sem hér töluðu. Það er oft svo að hagur bankanna fylgir góðærinu í landinu og kemur oft fram síðar en góður hagur atvinnuveganna. Það varð í fyrra og það er enn góður hagur í rekstri bankanna þótt byrjað sé að halla undan fæti hjá atvinnuvegunum. Þetta er ein ábending eða sjónarmið sem nauðsynlegt er að huga að. Ég vil líka benda á að þótt mönnum finnist þessar hagnaðartölur miklar eða stórar eru þær í flestum tilfellum það sem þarf til þess að bankarnir standi við þau ákvæði um eiginfjárstöðu og önnur ákvæði bankalaga sem eru að sjálfsögðu hugsuð til að tryggja hag innstæðueigenda. Það má aldrei gleymast þegar menn ræða bankamál að það er það sem fyrst og síðast skiptir máli, hagur innstæðueigenda, fólksins sem hefur lagt sitt fé þarna inn og það er markmið bankalaganna að tryggja öryggi í þessum viðskiptum.
    Ég get nefnt dæmi þess að bankastofnanir sem hafa sýnt verulegan hagnað í sínum rekstri hafa ekki aukið eiginfjárhlutfall sitt af heildarumsvifum. Þetta þekkja þeir vel sem skoðað hafa þessa reikninga. Og ég vara við því að slá af því stórar keilur að þarna séu hættulegir hlutir á ferðinni. Þvert á móti má segja að það sé öryggisatriði fyrir almenning, öryggisatriði fyrir íslenskt atvinnulíf að bankarnir hafi viðunandi afkomu. En spurningin er hvernig henni er náð. Það má ekki gerast eins og því miður verður nú vegna þess að það er áhalli í samkeppnisstöðunni á íslenskum lánamarkaði. Það er hörð samkeppni um innlánsféð. Það skrúfar upp vextina eins og fram kom í máli hv. 7. þm. Reykn. En það er ekki samkeppni á útlánahliðina, m.a. vegna þess að kerfið er lokað fyrir viðskiptum við önnur lönd hvað varðar lánsviðskipti.
    Ég er alls ekki að halda því fram að það sé endir allrar mæðu að opna flóðgáttir erlends fjármagns til Íslands eins og skilja hefði mátt af ræðu hv. 14. þm. Reykv. Ég vil ganga með gát um þær gáttir og skyggnast vel um hverja gátt. En hugsunin er samt rétt, sú að lokað kerfi mun ekki lukkast til lengdar.
    Síðan vildi ég víkja aðeins að því, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn., að vextir á Íslandi gætu aldrei

orðið hærri en íslenskt atvinnulíf ber. Ég vildi varpa fram annarri athugun sem ég veit að jafnalþjóðlega sinnaður maður og hv. 7. þm. Reykn. skilur á augabragði. Vextir á Íslandi geta heldur ekki vikið til lengdar frá heimsmarkaðsverði á fjármagni. Á sama hátt og við teljum að okkur sé það farsælast að selja okkar vörur á heimsmarkaðsverði þar sem það gerist best, þá munum við til lengdar ekki geta haft þarna mikið frávik í vaxtakjörum. Það þýðir að þarna gefur hvað annað. Það er ekki hægt að hrapa að þeirri ályktun að vextirnir verði þá bara að súrrast niður þegar illa gengur vegna þess að það er munur á þeim stærðum sem breytast frá ári til árs og fjármagnsstærðunum sem ávaxta þarf. Þetta er munurinn á því sem menn tala stundum um að það sé ekki hægt að verðtryggja fjármagnið eitt en láta allt annað taka afleiðingum breytinga í árferði. Það er að nokkru leyti rétt, en að nokkru leyti eru þarna ekki bornar saman sams konar stærðir.
    Ég fagna því sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. um bindiskylduákvæði frv. Honum þótti að þar hefði tekist málamiðlun sem væri viðunandi. Ég skildi það líka svo að hann gæti á það fallist að viðurlög vegna þess að ekki sé staðið við bindiskyldu eða lausafjárákvæði Seðlabankans hjá viðskiptabönkum eða öðrum innlánsstofnunum renni að stærstum hluta í ríkissjóð.
    Ég vil taka fram að breytingarnar á lögum um sparisjóði voru að því er varðar stjórn þeirra stofnana ræddar við Samband ísl. sparisjóða. Ég vil líka láta það koma fram að ég tel það ekki réttan skilning á þessum frumvörpum að með þeim sé verið að færa vald frá bankastjórum eða sparisjóðsstjórum til bankaráða og stjórna sparisjóða. Það er ekki það sem að er stefnt með þessu frv. Það er fyrst og fremst að gera skýrt að það að móta vaxtastefnu þessara innlánsstofnana varðar alla þætti í vaxtamynduninni, líka viðskipti með viðskiptavíxla og skuldabréf, til þess að koma í veg fyrir mismunun í viðskiptunum. Það er alls ekki verið að reikna með því að það vald sem bankaráðin bera og sú ábyrgð sem því fylgir eigi að hvíla hjá bankaráðunum. Bankastjórarnir eru áfram þeirra framkvæmdastjórar og eiga að taka hinar daglegu ákvarðanir.
    Þá kem ég að máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann fór að tala um vínber. Ég vil
þá rifja upp söguna um refinn og vínberin. Að vísu gerði hv. 2. þm. Norðurl. e. þá einu breytingu á sögunni að hann sagði ekki um vínberin sem hann ekki náði: Þau eru súr, heldur sagði hann: Þau eru blásúr. Það er eiginlega allur munurinn. (Gripið fram í.) Málið er það að hv. þm. gat eiginlega ekki gert það upp við sig frekar en ýmsir aðrir gagnrýnendur þessara frumvarpa hvort þau séu marklaus eða stórhættuleg breyting, mikið skref aftur til fortíðar. Ætli sannleikurinn sé ekki allt annað en þær tvær klofnu hugmyndir sem koma fram í málflutningi hv. 2. þm. Norðurl. e. langskýrast vegna þess að hjá honum vakir þetta eiginlega til skiptis í máli hans. Hvort skyldi nú vera rétt? Ætli ég verði ekki að

álykta sem svo að hvorugt eigi sér stoð í veruleikanum heldur eru þetta tilbúnar hugmyndir til þess að kljást við af því að það er miklu auðveldara að reka sitt mál á þann hátt.
    Ég vildi beina því til hv. 2. þm. Norðurl. e. að tilgangurinn með seðlabankalagabreytingunum sé í fyrsta lagi hvað varðar breytingarnar á 8. gr. þeirra laga að jafna aðstöðu milli lánastofnana hvað varðar bindiskyldu og lausafjárstöðu sem í fyrstunni mun að mati Seðlabankans hafa þau áhrif að bæta stöðu þeirra banka sem þjóna útflutningsatvinnuvegunum. Það er vegna þess hvernig stærðirnar liggja í dæminu. Ég hef enga ástæðu til að vefengja það og bendi á að í málflutningi þeirra fulltrúa viðskiptabankanna sem mættu í nefndinni hjá hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar gat maður ályktað sem svo að allir töpuðu á þessari breytingu. Það er óhugsandi vegna þess að hún færir fé og lausafjárstöðu á milli banka og hún tekur ekki neitt af neinum eins og hún er upp sett þannig að einhver af þeim hlýtur að hafa haft rangt fyrir sér.
    Það er tilgangur þessara breytinga af minni hálfu og reyndar lausafjárskyldubreytinganna, sem krefjast nú ekki ítarlegra breytinga á lögunum, að tryggja þennan framgang bæði í lengd og bráð. Um það ætla ég ekki að segja fleira. Þetta er ekki spurning um hvort Landsbankinn reiknar skakkt eða Seðlabankinn reiknar skakkt heldur hitt að það liggur í augum uppi eins og þessar greinar eru skrifaðar, eins og fram hefur komið í greinargerð og fyrri umræðum, að þetta mun til lengdar gagnast þeim best sem eru með mest af afurðalánum til útflutninggsreina, enda eru þau lán undanskilin bindiskyldunni samkvæmt tillögu frv. Til skamms tíma litið mun þetta líka verða þeim til góðs.
    Ég vildi svo koma að öðru meginatriði inni í frv. án þess að fara niður í smáatriði. Það er að skýra rétt Seðlabankans til íhlutunar í vaxtaákvarðanir innlánsstofnana og annars staðar á lánamarkaðnum þegar raunvextir keyra úr hófi. Þetta er ekki ný hugsun í seðlabankalögunum. Þetta var meginhugsun nefndarinnar sem samdi frv. til þeirra laga og skýrðist mjög í meðförum þingsins. Ég held að ég verði að benda hv. 14. þm. Reykv. á það úr því að ég nefni þetta að þegar hann var að leggja út af 2. mgr. 9. gr. laganna, þá var hann að mestu leyti að leggja út af þeim lögum sem þegar eru í gildi og samþykkt voru á þinginu á árinu 1986 vegna þess að það sem við hefur bæst eru orðin ,,og hóflegir`` hvað varðar vextina og ,,að teknu tilliti til annarra tekna bankanna`` í síðara falli. Ég veit að hv. þm. kannast við þau orð.
    Hv. þm. lagði hins vegar út af því að það væri erfitt að gera þennan samanburð. Það eru orð að sönnu. Einmitt vegna þess hversu það er erfitt er heiðarlegast að viðurkenna að þarna þurfi huglægt mat á því hvað hóflegt geti talist. Því er því orði þar inn skotið á nákvæmlega sama hátt og löggjafinn taldi nauðsynlegt hvað varðaði vaxtamuninn árið 1986 að hafa orðið ,,óhóflegur`` eða ,,óhæfilegur``. Ég man nú ekki reyndar nákvæmlega hvort heldur var. Þetta er skýringin. Þetta er líka mikilvægt að því leyti til að þá verður að leggja á þetta mat ákveðið og ég minni

á það, eins og fram kom reyndar í 1. umr. um þetta mál, að meðal minna fyrstu verka sem viðskrh. var að æskja þess af Seðlabankanum að hann gerði grein fyrir því hvaða skilning hann legði í 2. mgr. 9. gr. Hann hafði aldrei skýrt það til fulls og hefur reyndar enn ekki og það er nefnd að störfum að því að kanna vaxtamun í bönkum og innlánsstofnunum til að á þetta megi leggja sanngjarnt skynsamlegt mat.
    Um þessa hluti er það að segja að það er ekki verið að breyta hér meginreglunni um dreifingu valds í þessum viðskiptum, en það er þörf á aga og ábyrgð. Öllu frelsi þarf að fylgja slíkur agi og ábyrgð og það er tilgangur þeirra lagafrv. sem hér liggja fyrir þinginu en ekki að breyta grundvallarreglunni í því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem víðtækt samkomulag tókst um árið 1986. Þetta hlýtur að vera hverjum manni skiljanlegt sem skilja vill.
    Þá kem ég að viðskiptabankafrv. af því að það var nefnt af öllum þeim eða nær öllum þeim sem hér töluðu í þeirri von að það megi stytta umræður um það frv. og frv. um sparisjóðina. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá að girða fyrir hagsmunaárekstra í yfirstjórn bankanna og koma í veg fyrir --- og ég endurtek: koma í veg fyrir að þeir mismuni viðskiptavinum sínum, en það hefur viljað brenna við þegar varðar viðskipti með víxla og viðskiptaskuldabréf. Það þarf að gera það alveg skýrt að bankaráðin bera ábyrgð á þessu líka. Þetta er ekki eitthvað sem þau geta vikið sér undan. Þar með er ekki verið að færa vald eða verklega framkvæmd frá bankastjórunum heldur að gera það skýrt hverjir það
eru sem ráða þessu, hverjir það eru sem bera ábyrgð á þessu. Þannig megi tryggja betur samræmda bankastefnu. Það er málið. Það er það sem liggur fyrir.
    Ég ætlaði svo að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. þegar hann henti gaman að því að með frv. væri, eins og hann orðaði það, ríkið að skattleggja ríkið. Jafnvel prófessorum getur skjátlast og mér fannst reyndar síðast í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. að axíurnar í prófessorunum hefðu þá mjög fallið í verði frá því sem var fyrr í ræðunni þegar hann vitnaði í hagfræðiprófessorana. Þá fann hann að því að einhver prófessor sem ekkert vissi um atvinnulífið væri að gera lítið úr atvinnuöryggi og öryggisleysi fólksins úti um land. Skyldi það ekki vera að prófessorunum gæti stundum skjátlast, jafnvel þegar þeir reyna að vera gamansamir.
    Kjarninn í málinu er þessi: Það skiptir ekki miklu máli þegar litið er á Seðlabankann eins og rétt er að líta á hann, sem hluta af ríkinu, hvaða skattlagningarregla þar gildir og dugir því ekki fyrir hv. 2. þm. Norðurl. e. að vitna til þess að það sé skattalagaregla. Það er rétt. Hún er þar og það er gott að hafa hana og það þarf að hafa einhvern aðskilnað. En það er vel þekkt, eins og hann reyndar vitnaði til, í ríkjum eins og Noregi og Vestur-Þýskalandi að allur hagnaður af rekstri seðlabanka renni til ríkisins, þar með þá viðurlög sem þeir kunna að leggja á. Einmitt í sambandslýðveldinu Þýskalandi er bindiskylda og

lausafjárkvöð líkt og hér er þótt það sé ekki í ýmsum öðrum ríkjum. Það ríki hefur lengi þótt til fyrirmyndar. Það ríki hefur þá reglu að allur hagnaður seðlabankans renni til ríkissjóðs og þess vegna gæti háðsglósan sem til var vitnað alveg eins átt við efnahagsundrið þýska. Ég vil biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að velta því aðeins fyrir sér hvort þetta sé nú jafnfáránlegt og honum fannst að prófessorunum fyndist. En þetta er svona til umhugsunar.
    Í öðru lagi hefur enginn ætlað sér að bjarga ríkissjóði með þessu. Efnahagslegu áhrifin af þessu eru hin sömu. Það getur vel verið að hv. þm. treysti því að ráðdeild og sparnaður séu svo í fyrirrúmi í Seðlabankanum að þar sé öruggast að koma fyrir peningum ef menn ætla ekki að eyða þeim. Það hefur sumum sýnst annað hér í þinginu, þar á meðal mjög mörgum flokksbræðrum hv. þm.
    Ég ætla ekki að segja mikið meira um þetta. Hv. þm. taldi að þessi frumvörp væru ekki til marks um nútímaleg viðhorf í viðskiptum. Ég hef í reynd þegar svarað því því að hér er fyrst og fremst um það að ræða að herða á nokkrum skrúfum sem fyrir voru í því regluverki sem samið var hér á árunum 1985 og 1986. Grundvallarreglum er ekki breytt, en hins vegar verkfærunum hagrætt í höndum manna til þess að það sé hægt að vinna með þeim það sem vinna átti við þær aðstæður að undantekningaraðstæður á lánamarkaði geri það óhjákvæmilegt í bráð að hlutast til um vextina. Það er allt sem með þessu er sagt og ég ætla alls ekki að fara hér út í að endurtaka allar okkar umræður sem voru hér við 1. umr. Ég vildi bara segja að ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e. að það mundi auka mjög á reisn Alþingis ef það hætti að dunda við frumvörpin sem við erum hér að fást við og gerði þau að lögum, ef við tökum ekki svo mikinn tíma til þess að fjalla um mál sem þegar er þaulrætt. Ég vildi beina því til hans að hugleiða hvort hann hafi tekið þátt í því.
    Það er kannski ástæða til að svara beinlínis því sem til mín var beint frá hv. 2. þm. Norðurl. e. um 9. gr. Ég hef þegar svarað því hvað felst í því að leggja þarna til að bæta við orðunum ,,og hóflegir``. Ég vildi líka skýra hvers vegna þessum viðbótarmálsgreinum um fyrirtæki sem starfa utan bankakerfisins á lánamarkaðnum, bæði hvað varðar bindiskyldu og vaxtaákvarðanir, var bætt við. Það er fyrst og fremst og eingöngu til að tryggja að nokkurt jafnræði ríki með þeim sem á markaðnum starfa, að sams konar aðhald sé veitt, að stíflugarðar séu reistir til að koma í veg fyrir að viðskiptin renni þarna viðstöðulaust úr hinu hefðbundna bankakerfi sem hefur miklum skyldum að gegna sem ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. e. er gerkunnugur frá sinni annarri starfsstöð sem bankaráðsmaður í Búnaðarbanka Íslands. Til þess er þetta gert. Hvort það tekst til fulls áætla ég ekki að segja. Ég veit að þingheimur gerir sér það vel ljóst að svona reglur virka oft best þegar ekki þarf á þær að reyna, eingöngu af því að þær eru þarna. Það er vel kunnugt og það er kannski ekki síst tilgangur þess frv. sem hér er flutt. Ég ætla mér ekki þá dul að þessi

viðbót muni leysa allan vanda í vaxtamálum. Hún mun ekki leysa alla vaxtarverki út úr veröldinni. Hún mun ekki leysa þann vanda sem í því felst að menn gera viðskipti með fjárskuldbindingar utan við stofnanafarvegi. En þetta verður nokkur viðmiðun, nokkur viðspyrna fyrir þá sem telja að þarna hafi úrskeiðis farið. Þetta er rauði þráðurinn í þessum tillögum og ég vona að hv. Ed. hjálpi til við að ljúka því að spinna hann.
    Síðan spurði hv. þm. mig hvort ég væri ráðinn í því að beita þessum heimildum og það kom reyndar einnig fram hjá hv. 14. þm. Reykv. Svarið við því er ákaflega einfalt. Það fer eftir því hvernig vextirnir þróast eftir að þetta er orðið að lögum. Reyndar vil ég benda á það að heimildin er handa Seðlabankanum en ekki ráðherranum nákvæmlega eins og er í gildandi lögum. Það
er mat hans, faglegt og annað á lögunum og gildi þeirra og því sem gerist á markaðnum, hvort hann leitar eftir samþykki ráðherrans við því hvort þarna þurfi til að hlutast.
    Ég ætla samt ekki að segja neitt annað um málið að svo stöddu en það að það kann vel svo að fara að á þetta þurfi að reyna, en ekki vegna þess að nafnvextirnir núna hafi farið svo fram úr því sem verðlagsbreytingar gæfu tilefni til heldur tel ég, og þá kem ég aftur að því sem kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv., að raunvaxtakrafan sem gerð er víða á markaðnum sé há og hærri en gerist í löndunum í kringum okkur. Þá kem ég að því að það er verkefni bankaráðanna, hvort sem það eru ríkisbankar eða aðrir bankar, ekki eingöngu eins og skilja hefði mátt á máli hv. 2. þm. Norðurl. e. að standa vörð um hagsmuni bankanna. Þeir eiga líka að standa vörð um hagsmuni almennings samkvæmt bankalögunum eins og þau eru sett og það gildir jafnt um hlutafélagsbanka sem ríkisbanka. Ég veit að hv. 14. þm. Reykv. getur staðfest að það sjónarmið á að vera þar uppi líka.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. spurði um verðtryggingu fjárskuldbindinga og viðhorf mitt í því máli. Það gerði líka hv. 4. þm. Vesturl. Það gerði reyndar líka hv. 14. þm. Reykv. Mitt svar í þessu máli er mjög skýrt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir og ég ætla að vitna til hennar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin ætlar sér að koma í veg fyrir víxlhækkanir verðlags og lánskjara þegar jafnvægi í efnahagsmálum er náð.``
    Þetta er okkar samþykkt. Hún stendur enn óbreytt. Það er deginum ljósara að menn hafa á því ýmsar skoðanir hvenær slíku jafnvægi sé náð. Ég hlustaði með athygli á það sem fram kom hjá hv. 14. þm. Reykv. um hans viðhorf í því máli. Þau eru innlegg í þetta mál að mínu áliti. Það er margt sem athuga þarf og kom fram hjá honum og ég mun víkja að því síðar í minni ræðu í örfáum orðum.
    Síðan kem ég að því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vesturl. þar sem innt var eftir því hvernig það mætti vera að mesta blómaskeið bankanna stæði nú þegar atvinnulífið ætti við jafnmikla erfiðleika að glíma og raun bæri vitni. Þá vil ég nú fyrst nefna tímamuninn

sem á þessu er, að núna er sem óðast verið að birta reikninga bankanna fyrir liðið ár og sá samanburður sem nú hefur verið gerður hefur oft verið gerður við erfitt ástand á líðandi stund í atvinnulífinu, reyndar líka við ársreikninga frá því í fyrra.
    Ég vil líka minna á það, sem ég sagði hér áðan, að hagur bankanna kemur á eftir í hagsveiflunni mjög oft. Ég minni líka á það, sem ég sagði um lagaskyldu þessara stofnana, að halda ákveðnum hlutföllum í sínum reikningum til öryggis fyrir sína viðskiptamenn. En síðast en ekki síst vil ég á það benda að það eru reyndar tölur um það ljósar að hagur bankanna hafi breyst til hins lakara á því ári sem nú er að fjórðungi senn liðið. Ég hef sett til þess hóp manna að kanna vaxtamuninn í bankakerfinu vegna þess að það mál hefur aldrei verið nægilega vel kannað eða skýrt til þess að á því efni megi byggja skynsamlegar tillögur um breytingar í þessu efni. Þetta er það sem ég vil um málið segja og ég býst við því að þessi harðari samkeppnisstaða bankanna núna, þrengri hagur þeirra muni knýja þá til að leita eftir sameiningu, samruna, gera bankakerfið hagkvæmara. Þess eru nokkur merki og þá er vel, því þannig og aðeins þannig fæst raunveruleg lækkun á kostnaði við miðlun fjármagns.
    Hv. 4. þm. Vesturl. gerði nokkuð að umtalsefni að ríkisstjórnin hefði á fyrstu mánuðum síns starfs náð allgóðum árangri. Nú væri hins vegar meiri óvissa ríkjandi. Honum fannst sem bankakerfið græddi á tá og fingri meðan atvinnulífið sylti. Ég hef raunar þegar gefið nokkur svör við því hvers vegna þetta lítur svona út. Ég vil taka undir áhyggjur þær sem komu fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. um að það er mjög mikilvægt fyrir okkur nú að ná betri tökum á þessu og láta ekki verðbólguna æða upp enn á ný.
    Hann innti mig eftir áliti á afstöðu minni til verðtryggingar lánssamninga. Ég hef þegar svarað því, en ég vildi segja við hann að ég tel að það væri einmitt samþykkt þeirra frumvarpa sem við ræðum hér nú sem gæti gefið okkur viðspyrnu í þessu efni. En auðvitað er það rétt að það er undirstaðan í þessu að það komist á raunverulegir kjarasamningar í þeirri merkingu að menn takist á um það sem er raunverulega til skipta en séu ekki að spenna hér allt upp með óraunhæfum hætti. Það gerist ekki eingöngu í launasamningunum. Það gerist líka í öðrum ákvörðunum sem ráða hér kjörum, þar á meðal hvað varðar vexti og gjaldskrár ýmissa fyrirtækja og stofnana.
    Þá kem ég að lokum, virðulegi forseti, að máli hv. 14. þm. Reykv. og vildi benda á að mér fannst gegna að nokkru leyti sama máli í hans málflutningi og hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. Að vísu fullyrðir hv. 14. þm. Reykv. miklu fremur en 2. þm. Norðurl. e. að hér sé um mjög mikilvægar og hættulegar breytingar að ræða. Hv. 2. þm. Norðurl. e. slær úr og í. Ýmist skipti þetta engu máli eða að maður gæti skilið að þetta gengi ekki nógu langt af því að þetta bjargaði ekki nógu miklu. Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja það. En ég vildi endurtaka að ég tel það ekki alls kostar rétt að þessi frumvörp stefni til aukinnar

miðstýringar. Það gera þau ekki. Ég get endurtekið það sem ég hef sagt. Þetta er áherslubreyting í því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem samþykkt var hér
1986.
    Það er rétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að ég er mikill stuðningsmaður þess að Ísland sé í sem bestum tengslum við hinn vestræna heim. Ég er fylgjandi því að við höfum frjálslegri viðskipti með fjármagn og fjármálaþjónustu en tíðkast hefur. Forsendan fyrir því er að sjálfsögðu að við samræmum okkar reglur þeim reglum sem gilda um lánsviðskipti í öðrum löndum, en með gát. Ég fullyrði að staðhæfingin um að þessar breytingar gerbreyti svo íslenska lánakerfinu að það geri það ósamþýðanlegt umhverfinu eru rangar. Ég þekki nægilega vel til þess sem er á lögbókum nágrannalandanna. Þar er víða um reglur að ræða sem ekki eru ýkja frjálslegar, sums staðar. Sums staðar er þetta mjög frjálslegt. Það er einmitt þessi sundurleiti reglugerða- og lagaskógur sem ætlunin er að reyna að hefla og leiða til sameiginlegrar niðurstöðu innan Evrópu á næstu árum. Við getum verið þátttakendur í því og ég tel að sérstaklega löggjöfin um verðbréfafyrirtæki og verðbréfaviðskipti, eignarleigu, sem hér hafa verið til umræðu í þinginu og tengjast að nokkru leyti þessum frumvörpum, sé allt saman góður efniviður í þá samræmingarvinnu. Þær breytingar sem hér eru gerðar stefna alls ekki í þveröfuga átt. Þær eru ekki mikilvægar til að breyta okkar kerfi til þeirrar áttar sem gildir hér í kringum okkur, en það verður hver að éta úr sínum aski og það er einmitt það sem hér er gert.
    Ég bendi enn á það sem ég tel vera nokkra tvíhyggju í þessari gagnrýni, annars vegar séu þetta lítilvægar breytingar, hins vegar eitthvert stórkostlegt hættuefni á ferðum, og endurtek: Það er vel hægt að samrýma það að hlutast til um vaxtaákvarðanir í bráð en stefna að opnun markaðarins í lengd sem úrræði til þess að koma eðlilegri verðlagningu á fjármagnsþjónustuna. Það er ekki verið að færa vald til ríkisins með þessum lagaákvæðum. Það vald sem er þegar hjá ríkinu fyrir er þar enn. Þetta er ekki breyting hvað þetta varðar.
    Að lokum vildi ég kannski benda á að mér finnst ekki hægt af því efni sem fyrir liggur að draga þá ályktun að einkabankarnir hafi komist betur af en ríkisbankarnir ef maður lítur yfir nokkur ár í senn. Það var einmitt niðurstaða prófessors Þorvalds Gylfasonar, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. vitnaði hér til fyrr í umræðunni, að hann gat ekki fundið slíkan mun. Á því geta auðvitað verið eðlilegar skýringar, þær sem flestum eru kunnar, að einkabankarnir eru minni einingar, geta ekki náð þeirri hagkvæmni sem fylgir stærðinni, og þess vegna tel ég einsýnt að það gildi það sama um einkabankana og ríkisbankana að það þurfi sameiningu, samruna, samstarf til þess að ná virkari einingum.
    Að lokum vildi ég taka það fram að ég tel að fjárráðstöfun lífeyrissjóðanna og frjálslegri ráðstöfun sparnaðar landsmanna yfirleitt muni geta stuðlað að betra jafnvægi á lánamarkaðnum og tek undir það

með hv. 14. þm. Reykv. Ég bendi á að húsbréfafrv. sem er til umræðu í þinginu gæti einmitt verið farvegur fyrir slíkt betra jafnvægi á lánamarkaði, dregið úr þörfinni fyrir opinber afskipti og fjármögnun um opinbera sjóði, meiri innri fjármögnun á markaðnum. Ég er viss um að með því að leiða saman sjónarmið eins og komu fram hjá hv. 14. þm. Reykv. og annarra í verkalýðshreyfingu og hjá ríkisvaldinu megi bæta mjög starfsemina á fjármagnsmarkaðnum.
    Ég vek athygli á því, sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að það er mjög mikilvægt að draga úr lántökuþörf ríkisins ef menn vilja ná hér hóflegum útlánsvöxtm. Ég bendi á að hv. 14. þm. Reykv. sem einn stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verslunarmanna hefur gengið á undan í því að sýna að það er hægt þar sem eru ráðandi aðilar á markaði eins og Lífeyrissjóður verslunarmanna er að lækka raunvexti á þessum fjármagnsmarkaði með ákvörðunum eins og þeir hafa tekið. Ég vona að það geti orðið upphafið að hagstæðri, hagfelldri þróun í þessum ákvörðunum og vil einmitt nota þennan ræðustól til að hrósa Lífeyrissjóði verslunarmanna fyrir það frumkvæði.
    Að lokum vildi ég segja að einmitt í þeim anda sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að það sé nú kominn tími til að snúa sér að því að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl og tefja ekki tíma þingsins með óþarfamasi um tiltölulega einföld mál, vona ég að þetta frv. verði hér afgreitt.