Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Þeim ákvæðum sem leitað er eftir með þessum frv. mun verða beitt ef þörf krefur til að ná lækkun vaxta. Um þetta hefur þegar verið rætt við Seðlabanka Íslands, mun verða rætt við Seðlabanka Íslands og unnið er á vegum viðskrh. að ákveðinni áætlun um lækkun vaxta sem Seðlabankinn verður beðinn að beita sér fyrir að komi til framkvæmda. Ef reynist óhjákvæmilegt að nota þau ákvæði sem eru í þessum lögum til að ná fram lækkun vaxta verður þeim beitt skilyrðislaust.
    Hv. þm. spyr einnig að því hvort lánskjaravísitala verði afnumin. Ég vísa til þess sem segir í stjórnarsáttamála um það. Þar segir að lánskjaravísitala verði afnumin þegar jafnvægi hefur verið náð í efnahagsmálum. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að lánskjaravísitölu ber að afnema eins fljótt og frekast er kostur og tel hana vera grundvöll að þeirri mjög óheilbrigðu peningastarfsemi sem fer fram í landinu. Allar þjóðir hafa afnumið lánskjaravísitölu og margir lýst undrun sinni við mig að við skulum treysta okkur til að tryggja fjármagnið á sama tíma og atvinnuvegirnir eru reknir með tapi.
    Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að það þurfi að afnema lánskjaravísitölu svo fljótt sem auðið er. Ég viðurkenni hins vegar að það kann að vera erfitt meðan verðbólga er töluvert mikil og órói í peningamálum en því fyrr sem það er gert því betra að mínu mati.
    Ég er að láta taka saman hver hagnaður banka og sjóða hefur orðið á síðasta ári á sama tíma og allir atvinnuvegirnir, sem eiga nú að bera uppi þetta peningakerfi okkar eins og sjávarútvegurinn, hafa stórtapað fé. Það er fróðlegt að vita hvort hv. þm. t.d. telur að unnt sé í raun að tryggja svo fjármuni þeirra sem þá eiga og peningastofnana að tryggt sé umfram það sem grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar bera uppi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt og vísa enn einu sinni til ágætrar greinar sem Gunnar Tómasson hagfræðingur skrifaði í Morgunblaðið 28. janúar sl.