Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég var ekki með mínum orðum að gera því skóna að bankaráð eigi að skjóta sér undan því að fylgjast með því sem gerist í bönkum. Það sem ég lagði áherslu á var að samkvæmt síðari málsl. 1. mgr. brtt. við 2. gr. er fyrirsjáanlegt að tiltekin lánaviðskipti munu falla niður hjá viðskiptabönkunum vegna þeirrar miklu vinnu sem fylgir slíkum viðskiptum þar sem það er lögfest að við umfjöllun um vexti eða kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skuli bankaráð gæta þess að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána bankans í hliðstæðum áhættuflokki. Ég var að benda á að þessi grein eins og hún er hér orðuð mun valda því að bankarnir munu fella niður tiltekin viðskipti með þeim afleiðingum að þau munu að sjálfsögðu fara út á hinn almenna fjármagnsmarkað. Það sem ég var að leggja áherslu á var að það muni ekki verða til hagsbóta fyrir þá viðskiptamenn sem hafa notið þvílíkra viðskipta og það mun jafnframt valda því að bankarnir munu missa þessi viðskipti sem hafa gefið af sér ágætan arð og þess vegna orðið til þess að draga úr þeim vaxtamun sem bankarnir að öðru leyti hafa séð sig tilknúna til að taka.
    Vegna þeirra orðaskipta sem urðu milli okkar varðandi hina stærstu viðskiptamenn, þá er sú regla upp tekin að í bankaráðum er fjallað um stærstu viðskiptamenn tvisvar á ári, a.m.k. er það í Búnaðarbankanum, og oftar ef þurfa þykir og í lögum er kveðið á um það að ef viðskipti ná ákveðinni fjárhæð miðað við eigið fé sé bankaráði skylt að fylgjast með slíkum viðskiptum. Ég var ekki að gera því skóna að bankaráðið ætti ekki að ganga í þau verk sem eru óþægileg. Það var ekki mín hugsun.
    Ég vil svo að síðustu, herra forseti, þakka viðskrh. fyrir að hafa svarað, með sínum hætti þó, fyrirspurn minni varðandi þriðjamannspappíra. Það er augljóst að hæstv. viðskrh. gerir sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem því fylgja að setja um það fastar reglur, enda er það ekki svo í öðrum löndum. Meðan okurlögin voru hér á landi og þeim var fastast fylgt var heimilt að selja þvílík bréf með afföllum.