Dýralæknar
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 77/1981, um dýralækna, með síðari breytingum.
    Meginefni þessa frv. eru breytingar á tveimur greinum dýralæknalaganna. Svo tókst til þegar lögunum var breytt 1982 að niður féllu þrjú mikilvæg atriði 2. gr. laganna sem verulega þýðingu hafa. Það er í fyrsta lagi ákvörðun landbrh. um búsetu héraðsdýralækna, hvar þeir skuli búsettir í umdæmunum, í öðru lagi heimild til að ráða dýralækni án fastrar búsetu og í þriðja lagi að í hópi starfsmanna við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum skuli að jafnaði vera tveir sérmenntaðir dýralæknar.
    Þessum atriðum er breytt með 1. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að upp verði tekin í 2. gr. laganna þessi þrjú ákvæði sem ég áðan nefndi og niður féllu við endurskoðun laganna árið 1982.
    Í 2. gr. frv. er svo lítillega breytt ákvæðum um skipun yfirdýralæknis og kveðið á um að skipun yfirdýralæknis skuli lengst gilda til sex ára í senn. Það er nýmæli í þessum lögum en er til samræmis við ákvæði sem verið hafa að festast í sessi og koma inn í lög hin síðari ár um tímabundna skipan manna í æðri embætti.
    Þá er í 2. mgr. nýmæli um stöðunefnd eða nefnd til að meta hæfni umsækjenda í stöðu dýralækna og kveðið á um að ráðherra skuli skipa þrjá dýralækna í nefnd til að hafa þetta hlutverk með höndum, meta hæfni umsækjenda og gera tillögur til ráðherra um röð umsækjenda þegar fleiri en einn sækja um tiltekið embætti. Einn nefndarmanna skal skipa eftir tilnefningu yfirdýralæknis, einn eftir tilnefningu Dýralæknafélags Íslands og einn án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Þá er enn fremur ákvæði í 2. gr. um greiðslur til dýralækna nánast óbreytt frá því sem verið hefur og að öðru leyti er 2. gr. óbreytt frá gildandi lögum.
    3. gr. laganna er svo stutt og kveður á um það að lög þessi skuli þegar öðlast gildi.
    Ég hef ekki miklu við þetta að bæta, herra forseti. Ég tel að hér séu á ferðinni sjálfsagðar lagfæringar að svo miklu leyti sem eingöngu er um að ræða að taka þau ákvæði upp að nýju í lög sem niður féllu að því er virðist í ógáti við endurskoðun laganna á sínum tíma 1982. Nýmæli um tímabundna skipan yfirdýralæknis sem og um stöðunefnd eða nefnd til að meta hæfi umsækjenda eru að mínu mati einnig þarfar úrbætur á gildandi lögum og ég nefni það til rökstuðnings að hér er í raun og veru verið að hverfa að sambærilegu fyrirkomulagi hvað varðar veitingu dýralæknaembætta og er um veitingu læknisembætta. En í læknalögum eru einmitt ákvæði um sambærilega nefnd sem meta skal hæfi umsækjenda um starf.
    Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir, þótt það komi ekki beint fram í texta frv., segir frá því í grg., að eitt af því sem nefndin geti lagt til grundvallar við röðun umsækjenda skuli vera reynsla þeirra í störfum og

ívilnun vegna starfa í afskekktum héruðum. Hér er það á ferð að Dýralæknafélagið hefur lengi haft það á dagskrá hjá sér að heimilt verði að taka tillit til þess við veitingu embætta hafi menn gegnt störfum við erfið skilyrði í afskekktum héruðum. Í því sambandi hefur Dýralæknafélagið í sínum félagsskap búið út tilteknar reglur, matsreglur, ákveðið punktakerfi, þar sem heimilt væri að taka tillit til slíks, m.a. þegar mönnum er raðað upp þegar sótt er um störf.
    Ég vil nefna þetta sérstaklega vegna þess að erfiðlega hefur gengið að manna hin afskekktustu héruð og enn situr við það að ákveðin héruð eru án dýralæknisþjónustu og er það auðvitað óviðunandi ástand og úr því þarf að bæta. Það er von þeirra sem að frv. standa að þetta geti hjálpað til í þeim efnum.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til hv. landbn. deildarinnar.