Afgreiðsla frumvarps til lánsfjárlaga
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Ég mælist til þess að við athugum aðeins okkar gang og könnum til þrautar hvort ekki verði hægt að ljúka þessari umræðu í kvöld. Ég hygg að 2. umr. um lánsfjárlög hafi tekið allmiklu lengri tíma í Nd. en menn höfðu ætlað. Þar ræddu menn málið mjög ítarlega fram eftir öllum degi og ég mundi gera það að tillögu minni við hæstv. forseta þessarar deildar að við frestuðum fundi í eins og 15--20 mínútur til þess að vita hvort við gætum ekki séð til lands og lokið þessu verki nú í kvöld eins og um var talað og hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist réttilega á hér áðan. Það hefur ekki verið undan neinu að kvarta í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu hér í þessari hv. deild í kvöld og allt gengið með góðum og eðlilegum hætti. Þess vegna er það fróm ósk að við dokum við í kannski 15--20 mínútur og könnum betur raunverulega stöðu mála í Nd. Það má vel vera að það komi í ljós að við þurfum að koma hér saman aftur kl. 2 á morgun. En ég mælist til þess að við athugum málið aðeins betur áður en ákvörðun verður tekin um að fresta fundi til morguns.