Afgreiðsla frumvarps til lánsfjárlaga
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég segi nú bara: Nú fór í verra. Ég hafði svona allt að því sammælt mig við hv. 2. þm. Norðurl. e. um það að við þyrftum að komast heim til okkar á miðvikudag, helst hann niður að höfnum nyrðra til að hitta þar fiskimenn og spjalla við þá í síðasta róðrinum fyrir páska á morgun. Það sama hafði ég haft von um að gæti skeð vestur á Snæfellsnesi, að ég mundi hitta þar sjómenn þegar þeir væru að koma úr síðasta róðrinum. Nú skilst mér að hv. þm. þurfi endilega að fara að ræða hér mjög mikið um lánsfjáráætlun sem alls ekki var ætlun hans þegar við vorum að spjalla um þessa hluti og mér fannst heldur ekki í dag. Ég legg því til og tek undir tillögu hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar um það að gert verði hlé á fundum núna og athugað hvort ekki sé hægt að koma málum þannig fyrir í Nd. að við getum klárað umræðuna um lánsfjáráætlun hér í deildinni og afgreitt málið. Ef það er ekki hægt að þá verði boðað til fundar í fyrramálið, ekki á venjulegum fundartíma kl. 2 heldur kl. 10, svo að möguleiki sé að ljúka afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir hádegi, þannig að við þingmennirnir Halldór Blöndal og sá sem hér stendur getum komist til þess að hitta okkar kunningja við Eyjafjörð og vestur á Snæfellsnesi þegar þeir koma úr síðasta róðrinum fyrir páska.