Afgreiðsla frumvarps til lánsfjárlaga
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Ég vil ítreka það að hér í þessari deild hefur ekkert skort á samvinnu við stjórnarandstöðuna. Það hefur allt gengið eftir sem um var talað og ég ítreka þá tillögu mína að við gerum hér 15--20 mínútna hlé á fundinum, athugum okkar gang og tökum síðan í góðu samráði ákvörðun um hvernig framhaldið verði. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það að ég hygg að það sé mjög mikilvægt fyrir marga þá aðila sem koma við sögu í lánsfjárlögum að þessi lög verði samþykkt núna. Það held ég að við getum verið sammála um. Ég veit að það eru mörg fyrirtæki sem bíða þess að lánsfjárlagafrv. verði að lögum. Og ég veit það að sumum fyrirtækjum hefur þessi dráttur því miður skapað viss og kannski veruleg óþægindi. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við ljúkum því máli en ítreka það að ég held að það sé skynsamlegt að gera stutt hlé og ráða nú ráðum sínum í góðu samráði.