Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Frv. til lánsfjárlaga var lagt fram á Alþingi 11. nóv. í haust í Ed. og var tekið til umræðu 23. nóv. Nál. frá fjh.- og viðskn. Ed. var afgreitt 17. febr. og málið afgreitt út úr Ed. þann dag og því vísað til Nd. Þar var því vísað til fjh.- og viðskn. 17. febr. og hélt nefndin fimm fundi um frv. til lánsfjárlaga og var mjög gengið á eftir nefndarmönnum að hraða sem mest afgreiðslu málsins og minnt á að það hefði fengið allítarlega meðferð í hv. Ed. Ég fyrir mitt leyti vildi ekki á nokkurn hátt annað en greiða fyrir framgangi málsins þó að margar upplýsingar vantaði og það varð því að ráði að þó að frv. yrði afgreitt frá nefndinni 8. mars þá fengju þeir nefndarmenn sem þess óskuðu einhvern tíma til þess að afla frekari upplýsinga frá stjórnvöldum.
    Þingflokkur Sjálfstfl. leitaði til fjmrh. um það að fá upplýsingar frá þeim ráðuneytismönnum varðandi ýmis atriði sem snerta frv. og komu þeir til fundar við okkur nokkra þingmenn og formann Sjálfstfl. þar sem við lögðum ákveðnar spurningar fyrir. Sömuleiðis voru fulltrúar frá Seðlabanka á þeim fundi og í framhaldi af því fengum við ítarlegar og góðar upplýsingar og svör við flestum okkar spurningum, eftir því sem hægt var á svo skömmum tíma. Fyrir það ber að þakka, bæði fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Seðlabanka, Þjóðhagsstofnun og þeim öðrum sem til var leitað.
    En á því átti ég ekki von að það liðu 13 dagar frá því að nefndin afgreiddi málið þar til það er nú tekið hér fyrir til 2. umr. í hv. þingdeild. Það sýnir að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft hraðan á við afgreiðslu þessa máls eða stuðningslið hennar, enda má segja að það sé nú tvístrað tvist og bast, ekki eingöngu hér í þingsölum heldur einnig um gjörvalla álfuna og jafnvel í aðrar álfur og því er erfitt að ná því liði saman. Sennilega er þetta eina þjóðþing veraldar sem leggur niður störf í rúma viku vegna þess að allmargir þingmenn þess þurfa að sækja annað þing þó það sé Norðurlandaþing. Ég held að það eigi að vera metnaður þingsins og allra þingmanna að slíkt endurtaki sig ekki. Annaðhvort er þetta þing starfandi eða það er ekki starfandi. Það er ekki hægt að gera slík frávik frá þingstörfum eins og skeði hér.
    Við í 1. minni hl. fjh.- og viðskn., sem er auk mín hv. þm. Ingi Björn Albertsson, höfum lagt fram nokkuð ítarlegt nál. um lánsfjárlögin þar sem við rifjum upp ýmislegt það sem á dagana hefur drifið, bæði frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum og sömuleiðis er rifjað upp ástand og horfur áður. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera sér nokkra grein fyrir því hvað hefur verið að gerast og er að gerast í sambandi við efnahagsmál og eiginlega gang þjóðmála þegar nú eru senn sex mánuðir liðnir af valdatíma þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Frá því í byrjun október sl. hefur framfærsluvísitalan hækkað um 6,3%. Þar af hefur hækkun verið um 6% frá því í byrjun desember. Helstu ástæður hækkunar vísitölunnar eru þessar:
    Hækkun á innflutningsgjaldi bíla olli 7--8% hækkun

á útsöluverði þeirra. Bensín hækkaði um 12% 2. jan. Hækkun vörugjalds um áramótin hefur hækkað verð á innfluttum og innlendum vörum, m.a. á matvælum. Gengisfelling um 5% í byrjun janúar og 2,5% í febrúar hafa haft áhrif til hækkunar á vöruverði. Nú nýverið hefur áfengi hækkað um tæp 13%, tóbak um rúm 15%, gjaldskrár opinberra stofnana hafa hækkað mikið, afnotagjöld Ríkisútvarpsins hækkuðu um rúm 28%, fargjöld með strætisvögnum um 25%, rafmagn og hiti um 6,8%, landbúnaðarvörur hækkuðu um 5--10% um sl. mánaðamót, gjaldskrár leigubíla hafa hækkað um 8% og hjá Verðlagsráði eru erindi um 13% hækkun á skipa- og farmgjöldum og 20% hækkun á innanlandsflugi. Þetta er aðeins lítið sýnishorn af öllu því sem við blasir í verðlagsmálum nú á þessum degi. Það eru fjölmörg önnur erindi sem fyrir liggja um hækkanabeiðnir.
    Allt kemur þetta á eftir þeirri verðstöðvun sem hér hefur átt sér stað og það má segja að flest hafi hækkað. Því miður verður maður að segja það eins og er að flestar hækkanir eru hæstv. ríkisstjórn að kenna. Hún fór út í það í desembermánuði sl. að gera fjölmargar skattahækkanir sem koma illa niður á almenningi í hækkuðu vöruverði. Hún fór af stað þegar þjóðin hafði tekið mjög vel verðstöðvun í langan tíma og stöðvun launa eða bindingu launa, en ríkisstjórnin reið á vaðið og hóf sína hækkunaröldu sem við erum nú að súpa seyðið af.
    Í hvert skipti sem einhver ráðherra talar um gengi, þá talar hann alltaf um fastgengisstefnu eins og það sé eitthvert trúaratriði að gengi erlendra gjaldmiðla eigi að vera það sama. En þrátt fyrir þessar yfirlýsingar ráðherra um að hér verði ekki hvikað frá fastgengisstefnu og erlendur gjaldmiðill verði skráður á sama verði og var, þá hafa orðið hvorki meira né minna en þrjár gengisfellingar á þessum sama tíma þrátt fyrir þessar hörðu og ákveðnu yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Þannig hefur Bandaríkjadollar hækkað miðað við kaupgengi úr 48.140 í 52.700 eða um 9,472%. Sterlingspundið hefur hækkað á sama tíma um 11,620%, Kanadadollar um 11,916%, spænski pesetinn hefur hækkað um 17,227% og þannig mætti lengi telja. Þetta hefur verið sú gengisstefna sem hefur verið lýst að væri óumbreytanleg og mætti á engan hátt hreyfa, það væri
föst ákveðin stefna ríkisstjórnarinnar. En þrátt fyrir allar yfirlýsingar hefur verið gripið til þess að breyta gengi krónunnar.
    Í sjálfu sér er ég ekki að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að breyta skráðu gengi krónunnar. En ég er að gagnrýna það að á sama tíma og hún er að gera þetta hvað eftir annað eða beina tilmælum og fyrirskipunum til Seðlabankans um að breyta gengi krónunnar, þá er alltaf verið að gefa yfirlýsingar um það að ekki verði beitt neinni gengislækkun í þessu landi á meðan ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju situr að völdum. Það er þetta sem er orðið óþolandi og fólkið skilur ekki.
Við spurðum seðlabankamenn að því hver áætlun væri um ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna 1988 og 1989 og

sömuleiðis um þróun skuldabréfakaupa lífeyrissjóðanna af Húsnæðisstofnun ríkisins fyrstu mánuði þessa árs. Í svari bankans kemur fram að í greinargerðinnni frá 9. des., sem send var hv. fjh.- og viðskn. Ed., var gerð grein fyrir endurskoðaðri áætlun um ráðstöfunarfé lífeyrissjóða 1988 og þessa árs ásamt yfirliti um ráðstöfunarfé á tímabilinu 1983--1989. Endurskoðunin tók mið af nýjum upplýsingum annars vegar og reikningum lífeyrissjóða og dekkri horfum um launa- og tekjuþróun. Niðurstöður voru þær að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna var talið verða 13,4 milljarðar á árinu 1988 í stað 12,7 milljarða í eldri áætlun. Þetta var byggt á upplýsingum úr úrtaki sjóða fyrir fyrstu níu mánuði ársins 1988. Hins vegar var áætlunin fyrir árið 1989 lækkuð úr 16,9 milljörðum í 16,1 milljarð og var þar tekið mið af nýlegum upplýsingum um atvinnu- og tekjuþróun, m.a. minnkun yfirvinnu og styttingu vinnutíma.
    Nú liggja fyrir upplýsingar um þróun ráðstöfunarfjár 18 lífeyrissjóða á sl. ári. Þessir sjóðir ná yfir um 50--60% af ráðstöfunarfé sjóðanna miðað við árið 1987. Þessar upplýsingar benda til þess að hin endurskoðaða áætlun fyrir 1988 sé nærri lagi og frekar í lægri kantinum ef eitthvað er. Það virðist ekki ástæða til að endurskoða ofangreinda áætlun um ráðstöfunarrétt lífeyrissjóða fyrir árið 1989 og vísast til meðfylgjandi greinargerðar frá 9. des., sem ég áður gat um, um forsendur m.a. varðandi tekjuþróun. Rétt er þó að benda á að áætlunin byggir á sömu verðlagsforsendum og samþykkt fjárlög en ætla má að gengisbreytingar að undanförnu hafi einhver áhrif til hækkunar verðlags á þessu ári umfram það sem reiknað er með í fjárlögum. Þessi fyrirvari á að líkindum við allar þessar áætlanir, þ.e. fjárlög og lánsfjáráætlun.
    Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins námu skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna í janúar og febrúar sl. 670 millj. kr., þar af 170 millj. kr. í febrúarmánuði. Áætlað hafði verið að þau næmu um 1470 millj. kr. samtals þessa tvo mánuði, þar af 735 millj. kr. í febrúar, en þau urðu ekki nema 170 millj. Menn spyrja: Hvernig stendur á þessu? Svarið er það að fjmrn. og fjmrh. eiga í stríði við lífeyrissjóðina í landinu og það kemur illa niður á Húsnæðisstofnun sem og fleirum. Ég held að það sé rétt að menn reyni að ná endum saman, menn reyni að ná saman í þessum málum en standi ekki í stríði. Það er algjör misskilningur hjá hæstv. fjmrh. ef hann heldur sig geta mulið sjóðina undir sig og þeir gert allt eins og hann einn vill. Þetta eru sjálfstæðar stofnanir. Þetta eru sterkar einingar. Þeim ber að sjá um þá fjármuni sem þeim er trúað fyrir og þess vegna er það skynsamra manna háttur að ná samkomulagi og halda ekki þessu sífellda stríði áfram.
    Það er mikið talað núna um vextina og hefur verið á undanförnum mánuðum og það er eðlilegt. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún ætli að lækka vextina með handafli, eins og sagt er. Það hefur gengið svona með ýmsu móti. Yfirlýsingar hafa verið alltíðar frá ráðherra og núna heyrir maður að sjálfur

herforingi ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., ætli nú heldur betur að taka í lurginn á bönkunum í landinu.
    Nú veit ég ekki betur en að í ríkisbönkunum séu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í meiri hluta í bankaráðum. Þar af leiðandi eiga þeir að ráða ferðinni. Og ég veit ekki betur en að þeir hafi flestir hverjir samþykkt þær hækkanir sem orðið hafa á vöxtum nú að undanförnu.
    Ég held að það væri rétt að líta aðeins á þróun meðalvaxta á sl. ári. Þá var sú þróun á fyrsta ársfjórðungi ársins 1988 að nafnvextir voru 32,9%, ávöxtun 40,2%, verðbólgan var talin 16,9% en raunvextir 20%. Á öðrum ársfjórðungi voru tölurnar þessar í sömu röð: 32%, 39%, 37,5% og raunvextirnir aðeins 1,1%. Á þriðja ársfjórðungi voru þeir 33,1%, 40,6%, 22% og raunvextir 15,2%. Og á fjórða ársfjórðungi 16,1%, 17,7%, 2,7% og raunvextir 14,6%. Meðaltal ársins 1988 voru nafnvextir 28,5%, ávöxtun 34%, verðbólga 19,1% og raunvextir 12,5%.
    Á þessu ári eða til 21. mars eru nafnvextirnir 16,3%, ávöxtun 18%, verðbólga miðað við gömlu lánskjaravísitöluna 29,7% en raunvextir eru komnir niður í mínus 9,1%. Og nú spyrjum við: Á að halda áfram að knýja svo á um vaxtalækkun að þeir sem spariféð eiga fari að taka það út úr bönkunum, út úr lánastofnunum á sama tíma sem við erum að taka í ríkari mæli lán frá öðrum löndum, m.a. frá Japan, og borga sparifjáreigendum þar mun hærri vexti en við borgum þeim íslensku? Er það svona miklu verra að borga íslenskum almenningi eðlilega sparisjóðsvexti en fara með þetta meira út úr landinu? Við, eða ríkisstjórnin,
erum með þessu að fara út á þá braut að hreinlega vinna að því að menn taki spariféð út úr íslenskum lánastofnunum og fari með það annað, í aðra fjárfestingu sem menn fá meira upp úr eða þá að fara í aðra lánastarfsemi sem hefur verið kallaður grái markaðurinn. Því á að stuðla að þessu? Er ekki skylda bankanna að reka þá með hagnaði? Hafa menn ekki fengið heldur betur ákúrur fyrir það ef þeir hafa verið reknir með halla? Ég held að það hafi ekki staðið á sumum þingmönnum bæði þeim sem nú eiga hér sæti og eins þeim sem eru varamenn að gagnrýna það. Menn mega því ekki falla í þennan pytt eftir allar þær predikanir sem við hafa verið hafðar á undanförnum árum og missirum.
    Ég ætla að snúa mér lítillega að skerðingaráformum frv. Lánsfjárlög eiga sér stoð í lögum nr. 10/1979, um stjórn efnahagsmála, sem kölluð hafa verið Ólafslög og þau tóku fyrst til ársins 1980. Frá upphafi setningar lánsfjárlaga hefur verið inni kafli um skerðingarákvæði fjárlaga. Slík skerðingarákvæði er reyndar einnig að finna í lögum nr. 20/1979, um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979. Þessi skerðingarákvæði nema nú tæplega 1600 millj. kr. Lögboðin framlög til viðkomandi sjóða ættu að vera 3 milljarðar 395 millj. en eru samkvæmt frv. 2177 millj. eða skerðing 1218. Þetta var á árinu 1988. Lögbundið framlag þessa árs er upp á 3 milljarða 457

millj. kr. en samkvæmt fjárlögum 1861 millj. þannig að skerðingin er núna 1596 millj. kr.
    Það sjá allir að það er ekki hægt að bjóða þjóðinni það að Alþingi samþykki lög um tiltekin fjárframlög til ákveðinna sjóða og ákveðinnar starfsemi en standi svo að því árum saman að brjóta sín eigin lög. Nú er ég ekki að gagnrýna þessa hæstv. ríkisstjórn fyrir þetta því að þar eiga allir flokkar sök sem átt hafa aðild að ríkisstjórn á þessu tímabili sem ég nefndi áðan. En mér finnst fyrir mitt leyti vera kominn tími til, og þó fyrr hefði verið, að stokka upp þessi lög og lækka þessi framlög, ekki endilega í þá skerðingu sem nú er, en að lækka þau verulega. Það eru auðvitað ákvæði sem eru ferleg, sem nú eru tekin upp og ég kem að síðar, eins og Atvinnuleysistryggingasjóður, þar sem ríkið hættir greiðslum til hans og það er upp á 300 millj. kr. Bjargráðasjóður er felldur niður, á að vera með 56 millj. Ferðamál, það er tiltölulega ný löggjöf um Ferðamálasjóð. Samkvæmt henni ættu tekjur Ferðamálasjóðs að vera 109 millj. kr. en samkvæmt fjárlögum er það skorið niður í 28 millj. kr. Félagsheimilasjóður á að vera 58 millj., er skorinn niður í 21 millj. Fiskveiðasjóður er nú skorinn niður alveg, átti að vera 20 millj. og ég held að stjórn Fiskveiðasjóðs sé löngu hætt að reikna með því að ríkið leggi sjóðnum nokkurn skapaðan hlut til. Framkvæmdasjóður fatlaðra á eftir að koma hér síðar, en Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins sem á að fá 140--160 millj. er skorinn niður. Framlag til jarðabóta er skorið verulega niður, úr 286 millj. í 100 millj. Framlag vegna búfjárræktarstyrkja er þurrkað út, ætti að vera 42,2 millj. og framlag vegna eyðingar refa og minka á að vera 18 millj. en er skorið niður í 8 millj. --- Það er alveg undarleg árátta þessarar ríkisstjórnar hvað hún vill leggja af mörkum til þess að þetta kvikindi, minkurinn, sé að mestu leyti óáreittur. Ég veit ekki hvaðan það er ættað. --- Hafnabótasjóður er skorinn niður úr 66 millj. í 25 millj., Iðnlánasjóður, sem ætti að vera með 90--100 millj., er þurrkaður út. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er lækkaður úr 1660 millj. í 1275 millj. Kvikmyndasjóður úr 110 millj. í 71 millj. Og svo kemur hér einn ágætur sjóður sem allir menningarvitar Alþingis hafa lagt mikið upp úr. Það er Listskreytingasjóður ríkisins. Hann ætti að vera með hvorki meira né minna en 200 millj. en hann er skorinn niður í 6 millj. Og samt höfum við alveg einstakan menningarvita núna sem menntmrh. Menningarsjóður kemur aftur mun betur út, enda veitir ekki af því að hressa upp á menninguna, því að hann er nú með 11 millj. og ekkert skorið niður. Stofnlánadeild landbúnaðarins er skorin úr 46 í 39 millj.
    Samtals er þetta því niðurskurður upp á tæplega 1600 millj. kr. Nú vil ég leyfa mér að hvetja hæstv. ríkisstjórn til þess að taka sig nú saman í andlitinu og flytja frv. til laga um breytingu á þessum framlögum og miða framlögin við það sem á að standa við en ekki við þessi svik sem núna eru búin að vera, að vísu mismunandi mikil, í 10 ár samfleytt.
    Þá langar mig að koma hér að Verðjöfnunarsjóði

fiskiðnaðarins. Það hefur staðið til að endurskoða þau lög alllengi. Ég leyfði mér ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni að flytja hér á síðasta þingi frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins sem gerir ráð fyrir grundvallarbreytingu á starfsemi sjóðsins og við nokkrir þingmenn Sjálfstfl. endurflytjum þetta frv. núna. Þegar við fluttum þetta frv. á síðasta þingi brást hinn skapgóði og ljúfi sjútvrh. illa við og taldi í samtali við blað sitt Tímann að þetta væri alveg óstjórnleg frekja af tveimur þingmönnum samstarfsflokks að leyfa sér að flytja frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins því að unnið væri að endurskoðun þessara laga.
    Lögð var fram á síðasta þingi fsp. frá varaþm. Alþb., Þórði Skúlasyni, varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og í munnlegu svari sem sjútvrh. gaf
segir hann að 27. jan. 1988 hafi hann skipað nefnd til að endurskoða gildandi lög og reglur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hlutverk nefndarinnar er að meta hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegs miðað við núverandi verðmyndun á fiski og skipulag á sölumálum sjávarafurða og með hvaða hætti slíkri verðjöfnun verði komið fyrir með sem virkustum og hagfelldustum hætti. Síðan telur hann upp hverjir hafi verið skipaðir í nefndina og bætir því við að í skipunarbréfi nefndarinnar sé henni falið að leita í störfum sínum samráðs við samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Nefndin hefur þegar haldið fjóra fundi, segir ráðherrann, og átt viðræður við fulltrúa samtaka margra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Á þessu stigi vil ég ekki fullyrða, segir ráðherra, hvenær vænta má tillagna nefndarinnar en tel þó ekki ólíklegt að það verði í aprílmánuði nk., þ.e. í apríl 1988.
    Í byrjun júní gegnir hæstv. núv. forsrh., þáv. utanrrh., starfi sjútvrh. í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar. Hann er staddur á Ísafirði 4. júní á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar og þar segir hann, vegna umræðna um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, við forráðamenn rækjuverksmiðja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er bókað, það á að vera fiskiðnaðarins, yrði lagður niður og lagt yrði fyrir Alþingi frv. um málið, sem sagt á sl. hausti. Ég hrökk við þegar ég frétti þetta og spurði þáv. forsrh. hvort þetta væri rétt, að ríkisstjórnin hefði gert slíka samþykkt. Nei, hann kannaðist ekkert við það. Og á daginn hefur komið að engin slík samþykkt var gerð og þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsrh. hefur ekkert frv. komið fram í þessum efnum, að leggja Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins niður, sem betur fer. Hins vegar var það tekið upp af núv. hæstv. ríkisstjórn að láta eina veikustu deild Verðjöfnunarsjóðsins taka lán að upphæð 800 millj. kr., eða freðfiskurinn 750 millj. kr. lán og hörpudiskurinn 50 millj. kr. Þá er alveg horfið frá því að ríkið ábyrgist lánið í Seðlabankanum með sjálfskuldarábyrgð. Þetta er núna á yfirdráttarskuld og er bundið kaupgengi og SDR. Seðlabankinn getur skipt um lánsgrundvöll með því að afla erlends

lánsfjár sem yrði grunnur yfirdráttarheimildar þessarar og síðan lán samkvæmt lánsfjáráætlun.
    Það er talið að skuldin eigi að endurgreiðast af tekjum deildarinnar eða deildanna fyrir frystar afurðir og hörpudisk á þremur árum. Um síðustu áramót átti freðfiskdeildin 12 millj. kr. til sem tekur 750 millj. kr. lán og þessar 12 millj. kr. eru núna miðað við 28. febr. komnar í 22,6 millj. kr., hafa hækkað vegna gengisbreytinga. Engum manni dettur í hug að þessi deild geti greitt þetta lán aftur á þremur árum. Því hefði verið miklu eðlilegra og heiðarlegra fyrir ríkisstjórnina að leggja þá þessari deild til þessa upphæð því að það vita allir menn, bæði í haust og ekki síður nú, að þessir fjármunir koma til með að falla á ríkið.
    Eftir afgreiðslu lánsfjárlaga er ákveðið mál að þetta lán verður tekið í erlendri mynt. Við erum m.ö.o. að taka erlend eyðslulán til þess að halda uppi útflutningsatvinnuvegum landsmanna. Undirstöðu landsmanna er haldið uppi núna með erlendri lántöku. Svo tala sömu menn um það að við ætlum að bæta afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina. Og þeir segja í málefnasamningi sínum:
    ,,Ríkisfjármál og lánsfjármál fyrir næsta ár munu miðast við að draga úr þenslu sem verið hefur í þjóðarbúskapnum undanfarin missiri.
    Fjárlög fyrir árið 1989 verða samþykkt með tekjuafgangi. Til að ná þessu markmiði verða útgjöld ríkisins ekki hækkuð að raungildi frá því sem er á þessu ári. Auk þess verður tekna aflað í ríkissjóð m.a. með skattlagningu fjármagnstekna.
    Lánsfjárlög munu mótast af ströngu aðhaldi að erlendum lántökum,,, segir í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar. Ég vil bæta því hér við að miðað við 28. febr. er þegar búið að greiða af þessu láni úr freðfiskdeildinni 415 millj. kr. og af hörpuskelinni 22,5 millj. kr.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum frá sl. hausti kom m.a. fram að hún mundi beita sér fyrir fjórðungs lækkun á raforkuverði frystihúsanna. Samkvæmt upplýsingum frá iðnrn. er á lokastigi --- er sagt núna --- reglugerð þar sem framkvæmd þessa ákvæðis er útlistuð. Þar er m.a. gert ráð fyrir að afsláttartímabilið verði frá ársbyrjun til ársloka 1989. En í málefnasamningi segir að þetta eigi að gera strax eftir að ríkisstjórnin tók við völdum. Og heildarkostnaður ríkisins verði um 100 millj. kr. Lækkun á raforku nái til fyrirtækja í frystingu, saltfiskvinnslu og rækjuvinnslu með lágmarksnotkun raforku sem nemur 100 kwst. á ári og nýtingartíma sem nemur 2500 klst. á ári og afslátturinn aukist línulega eftir notkun og verði að hámarki 27% miðað við 3500 klst. vinnu á ári. Framkvæmdin verður með þeim hætti að rafveiturnar veita viðkomandi fyrirtækjum afsláttinn og senda iðnrn. kröfu um endurgreiðslu. M.ö.o.: Það vantar viku upp á að það sé hálft ár liðið frá því að þetta loforð var gefið og ekkert er enn búið að afgreiða. Það eru athafnamenn miklir í hæstv. ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis.
    Í fjárlögum 1989 er gert ráð fyrir endurgreiðslu á

söluskatti í sjávarútvegi
að fjárhæð 907 millj. kr. Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að hækka þessa endurgreiðslu um 100 millj. kr. með það í huga að bæta rekstrarafkomu fyrirtækja í þeirri grein. Ekki liggur fyrir nein ákvörðun um hvort þessum auknu útgjöldum verði mætt með sérstakri tekjuöflun og ekkert tillit tekið til þess nú við afgreiðslu lánsfjárlaga.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum frá sl. hausti kom m.a. fram að verð á búvörum mundi ekki breytast á verðstöðvunartímabilinu og að niðurgreiðslur yrðu auknar til að halda því óbreyttu. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 3353 millj. kr. til niðurgreislu á búvöruverði. Þar af er viss fjárhæð sem tekur mið af því að halda óbreyttri niðurgreiðslu á einingu út fyrsta ársfjórðung í anda fyrrnefndrar yfirlýsingar. Að þeim tíma liðnum er áætlað að smásöluverð landbúnaðarafurða þurfi að hækka um 9--10% að meðaltali ef sú fjárhæð, sem ætluð er til niðurgreiðslna á fjárlögum, dugi út árið. Ef halda ætti óbreyttri niðurgreiðslu á einingu eins og hún var fyrsta þessa mánaðar er áætlað að um 600 millj. kr. vanti á fjárhæð fjárlaga að því er varðar kindakjöt og mjólkurafurðir og um 70 millj. kr. að því er varðar nautakjöt. Hvað verður svo ef þannig horfir með kjarasamninga að kröfur aðila vinnumarkaðarins verði þær að halda niðri óbreyttu verði á landbúnaðarafurðum? Þá er ég hræddur um að þessi upphæð eigi eftir að hækka verulega eða sennilega, ef ég man rétt, um 500 millj. kr.
    Ég er hræddur um að það sé farið að saxast á greiðsluhagnaðinn hjá hæstv. fjmrh. þegar í stað. Ég hugsa að ef hann lifir það að vera í þessu embætti út árið þurfi hann að flytja svipaðar ræður og hann gerði í haust, þá kostaði það að halli á ríkissjóði hækkaði um þetta 3 og 4 milljarða í hvert skipti sem hæstv. ráðherra opnaði munninn. ( Fjmrh.: Nei, nei, um einn milljarð.) Og það er nú eins gott að hann fari að takmarka það að opna það undratæki. ( Fjmrh.: Það var einn milljarður.)
    Ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju vissi hvert átti að leita þegar hún tók við völdum á sl. hausti. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins fjölluðu um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skerða umsamin og lögbundin framlög ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 600 millj. kr. við setningu bráðabirgðalaganna á sl. hausti. Það var sameiginleg afstaða samtakanna að með þessu sé ríkisvaldið einhliða að rjúfa áratuga samkomulag aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um uppbyggingu og fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður árið 1955 á grundvelli samkomulags um lausn vinnudeilu það ár og var ein meginforsenda að lausn þeirrar deilu. Í samkomulaginu var m.a. ákveðið hver framlög aðila til sjóðsins skyldu vera og hafa lög um sjóðinn síðan verið byggð á þessu samkomulagi. Tilgangur

sjóðsins hefur frá upphafi verið að tryggja lágmarksframfærslu þeirra sem missa vinnu sína. Á síðustu árum hefur að sönnu reynt lítið á bótagreiðslur vegna atvinnuleysis. Sjóðurinn hefur á hinn bóginn borið þungar skyldur, m.a. vegna greiðslu eftirlauna til aldraðra. Þetta hefur rýrt fjárhagslega getu sjóðsins þrátt fyrir lítið atvinnuleysi. Það sætir því furðu að stjórnvöld áformi einmitt nú stórfellda skerðingu á framlögum til sjóðsins, einkum í ljósi þess að samdráttar í atvinnustarfsemi verður nú vart og því fyllsta ástæða að treysta fjárhagslega stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Samtökin telja með öllu óviðunandi að einn aðili þríhliða samnings, sem bundinn er í lögum, skuli með þessum hætti leysa sig undan fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Samtökin gerðu þá kröfu að ríkisvaldið standi við sinn hluta samningsins og greiði að fullu umsamið og lögbundið framlag sitt til sjóðsins, ella er stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs teflt í tvísýnu.
    Tekjur sjóðsins á þessu ári eru 554 millj. kr., 277 millj. frá sveitarfélögum og 277 millj. sem eru í reynd iðgjöld atvinnurekenda. Tekjur af lausafé, sem eru vextir, voru á síðasta ári um 100 millj. kr. Fastar greiðslur á mánuði í eftirlaunagreiðslur eru 30 millj. eða 360 millj. á ári. Greiðslur vegna reksturs kjararannsóknarnefndar eru um 12 millj. á ári, rekstrarkostnaður vegna greiðslna atvinnuleysisbóta eru nú um 4--5 millj. á mánuði eða um 48--60 millj. Það er erfitt að áætla greiðslu atvinnuleysisbóta því að slíkt fer eftir atvinnuhorfum, en í janúar voru þessar greiðslur um 100 millj. kr. og svipaðar í febrúarmánuði. En þá var talið að þær yrðu líklega eitthvað minni í þessum mánuði.
    Í byrjun mars var greiðslustaðan þannig að um 395 millj. kr. voru enn til ráðstöfunar af heildartekjum sem voru 654 millj. til þess að mæta föstum útgjöldum og atvinnuleysisgreiðslum.
    Hvað hefði nú Alþb. sagt um þessa ráðstöfun ef það hefði verið utan stjórnar? Ég er hræddur um að það hefði heyrst í þeim. Það hefði nú lengt heldur betur þingfundi. Og eitthvað hefði Þjóðviljinn þurft að segja um málið ef Alþb. hefði verið utan stjórnar. En þessir aðilar allir þegja nú þunnu
hljóði. Nú er þetta talið sjálfsagt og eðlilegt að ganga þannig á gerða samninga eins og gert hefur verið, undir því yfirskini að hér sé ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju á ferð. Sjái nú hver jafnréttið og félagshyggjuna í þessu! Ég er hræddur um að Guðmundur vinur minn Hagalín hefði sagt svei attan, ef hann hefði verið ofar foldu, yfir slíkri hræsni.
    Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um byggðamál segir:
    ,,Gerðar verði ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði síma, húshitunar og skólagöngu. Unnið verði skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun.`` Ætli það sé gert með því að skera niður vegaframlögin og hafnarframlögin? Var þetta tilgangurinn með þessu?
    ,,Gerðar verði ráðstafanir til aukinnar valddreifingar,

m.a. með því að auðvelda flutning stofnana og svæðisbundinna verkefna frá miðstjórn ríkisvaldsins út í héruð.`` Finnst mönnum að það sé verið að hverfa frá miðstýringunni hjá þessari hæstv. ríkisstjórn? Það er undarlegt þegar þessir svokölluðu vinstri flokkar ná saman í eina sæng, þá er alltaf farið að tala um valddreifingu og farið að tala um það að flytja þetta og hitt út á land til þess að styrkja landsbyggðina. Og svo meina þeir ekkert með því og hafa aldrei gert nokkurn skapaðan hlut í því og eru staðráðnir í því að gera ekki neitt.
    Og svo kemur hérna ákaflega sæt og góð rúsína:
    ,,Byggðasjóður verði efldur.`` Og að því ætla ég nú að koma síðar. ,,Unnið verði að samræmingu skipulags- og byggingarlaga. Unnið verði að því að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli.`` Hefur verið rennt styrkari stoðum undir verslunarfyrirtækin í dreifbýlinu á þessum sex mánuðum sem félagshyggjustjórnin hefur setið að völdum? Ja, þau halda áfram að fara á hausinn hvert á fætur öðru og enginn hreyfir legg eða lið.
    ,,Sérstakt átak verði gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni.`` Það var nú ekki nóg að setja þetta inn í málefnasamninginn á sl. hausti heldur fóru þó nokkuð margir þingmenn Framsfl. af stað með sérstaka þáltill. í þessu efni til þess að hressa upp á ríkisstjórnina og það var rétt eftir að hún fæddist.
    Jú, ,,Byggðasjóður verður efldur.`` Það stendur hérna í þessari grænu bók. Þetta er sami liturinn og Vigdís hefur, alveg nákvæmlega sami. Hvernig var hann nú efldur? Framlagið til Byggðasjóðs, 125 millj. kr., er það sama og á fjárlögum 1988, en það er tekinn lántökuskattur. Miðað við lánin sem tekin voru á árinu 1988 hefði verið tekið af þessu framlagi aftur í ríkissjóð 86 millj. kr. 23 millj. kr. hefðu verið teknar í stimpilgjöld og 10 millj. kr. í ríkisábyrgðasjóðsgjald. Eftir hefði verið af þessum 125 millj. kr. 6 millj., 6 millj. kr. sem er nettóframlag til Byggðasjóðs. Þarna er vel að verki staðið eða hitt þó heldur.
    En hvað hefur svo aftur gerst? Byggðastofnun á samkvæmt lögum að gegna því hlutverki að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m.a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði. Í staðinn fyrir að standa við fyrirheitið um að efla Byggðasjóð hefur verið dregið úr framlögum, en það hefur ekkert verið dregið úr þeirri beiðni ríkisstjórnar að sinna sífellt fleiri málum sem til þessarar stofnunar er beint. En hitt hefur aftur verið gert. Stofnunin hefur verið veikt verulega. Atvinnutryggingarsjóður var settur á, hann er settur inn í Byggðastofnun. Starfsfólk Byggðastofnunar vinnur fyrir þennan sjóð, en stjórn Byggðastofnunar

hefur ekkert með að segja stjórn á þessum málum. Nú er kominn hlutabréfasjóður. Hann er líka settur þarna inn og hann heitir Hlutabréfasjóður Byggðastofnunar. Byggðastofnun eða stjórn hennar hefur ekkert með hann að gera. Það eru sem sagt komnar þrjár stjórnir yfir Byggðastofnun sem er byggð á grundvelli sérstakra laga sem Alþingi hefur sett.
    Í raun og veru veit enginn hvar þessi stofnun stendur eftir þetta og enginn skilur af hverju þetta er gert. Ekki er þetta gert vegna þess að stjórnarandstaðan ráði Byggðastofnuninni. Það vill nú svo til að það er sjö manna þingkjörin stjórn og þessir 32 menn sem viðurkenna að þeir styðji þessa ríkisstjórn eiga fimm af sjö í stjórninni vegna þess að einn var kjörinn í hana úr hópi stjórnarandstæðinga þegar kosið var. Það hefði því verið óhætt að fela þessum fimm að ráða fram úr þessu því að við þessir slæmu erum þá ekki nema tveir, en það er ekki gert. Mér finnst þetta algjör móðgun við þessa fimm fulltrúa sem hafa þó verið að reyna af fremsta megni eftir því sem líf og heilsa hefur hrokkið til að styðja þessa hæstv. ríkisstjórn en þetta eru þakkirnar.
    Ég held að það sé ekki úr vegi að fara hér nokkrum orðum um það hvernig þessi stofnun stendur svona í stórum dráttum. Efnahagur Byggðastofnunar er viðkvæmur fyrir stöðu sjávarútvegs þar sem 65,6% lánveitinga er beint til
þeirrar atvinnugreinar við þau erfiðu skilyrði sem þar ríkja um þessar mundir. Það er ekki að undra að hrikti í undirstöðunni hjá Byggðastofnun. Fleiri greinar sem stofnunin hefur lánað til eiga í erfiðleikum. Heildarútlán þessarar stofnunar að meðtöldum ábyrgðum voru um síðustu áramót 6,74 milljarðar en eigið fé hennar var á sama tíma 1,85 milljarðar að meðtöldum Afskriftasjóði. Vanskil af lánum um áramót voru 525 millj. eða 8% af útlánum. Hlutfall eigin fjár af heildarútlánum var 27,4%, en það var um 33% á sama tíma fyrir ári og einnig um áramótin 1986/1987.
    Versnandi afkoma hefur að undanförnu verið í sjávarútvegi og þess vegna eru lán stofnunarinnar í sjávarútvegi ekki það vel tryggð vegna þess að Fiskveiðasjóður á ætíð 1. veðrétt með sín lán, bæði í skipum og fasteignum. Með auknum skuldum fyrirtækjanna er algengara að eignir séu veðsettar, bæði í viðskiptabönkum og hjá öðrum aðilum. Byggðastofnun á á ýmsum stöðum í veðröðum, enda hafa mörg fyrirtæki í greininni margoft fengið lán hjá stofnuninni og þeim stofnunum sem áður voru á undan henni. Lán sem tryggð eru með veðum í togurum eru þolanlega trygg. Lán í loðnuveiðiskipum eru flest í skilum og vel tryggð. Nokkur loðnuskip eru aftur á móti skuldsett svo að ekki má út af bera svo að þau lendi ekki á uppboði. Vegna þess eru vanskil við stofnunina að hún er með lélegar tryggingar fyrir lánum í þessari grein, allt að 90 millj. kr. Stofnunin hefur einnig lánað til endurbóta á bátaflotanum vegna skipakaupa og fjárlagslegrar endurskipulagningar. Flest þessi lán eru vel tryggð og vanskil eru lítil. Í allmörgum tilvikum er málum þannig háttað að kvóti

bátanna dugir ekki til að standa undir skuldum og annað þarf þá að koma til. Og það má ætla að stofnunin sé í hættu með allt að 80 millj. kr. vegna lána bátaflotans.
    Það er mikið rætt um það núna að fækka frystihúsum og öðrum vinnslustöðvum. Þrátt fyrir það fjölgar þeim samt jafnt og þétt, bæði á hafi úti og í landi. Eigi að fækka frystihúsum og endurskipuleggja greinina sýnist sem úreldingarfjármagnið þurfi að koma til, einhvers staðar frá. Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hefur leyfi til að kaupa eignir í slíkum tilgangi eins og menn eflaust muna, en stjórn hans mun sennilega beita þeirri heimild mjög varlega. Vegna þess að frystihúsin eru mörg gömul og raunar sum of stór fyrir þá starfsemi sem nú fer fram í þeim má hins vegar búast við að verðtryggingar Byggðastofnunar í þeim geti verið lítils virði og sama gildir um loðnuverksmiðjur og rækjuvinnslustöðvar sem eru of margar. Byggðastofnunin má búast við fjárhagsáföllum í sambandi við gjaldþrot stórra frystihúsa. Fari svo er hætta á að stofnunin tapi einnig fé hjá þjónustufyrirtækjum ef þau verða gjaldþrota í kjölfarið. Stofnunin mun tapa einhverjum fjárhæðum á bátaflotanum, rækjuvinnslu og loðnuverksmiðjum, en þó ekki á loðnuskipum. Verulegar upphæðir mun þurfa að færa yfir í Hlutabréfasjóð í gegnum hlutdeildarbréfin. Gróft mat á því hvaða upphæðir muni tapast eða skila ekki neinum vöxtum á næstu árum eru samtals um 500 millj. kr. Þar af eru um 60 millj. vegna gjaldþrota frystihúsa eða rækjuvinnslustöðva, hjálp við skuldsett fyrirtæki og endurreisn þeirra sem verða gjaldþrota er áætluð um 400 millj. og bátaflotinn um 40 millj. Stofnunin á mikið inni hjá vinnslustöðvum landbúnaðarins eða allt að 138 millj. Þar er aðallega um að ræða eldri lán sem þó hefur bæst við vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á árinu. Það er mikið útistandandi í fiskeldi. Þar eru veitt lán upp á 326 millj. Byggðastofnun hefur veitt verulegum fjármunum til uppbyggingar iðnaðar á landsbyggðinni eða alls um 600 millj. kr. Bæjar- og sveitarfélög hafa fengið lán upp á 336 millj. Lán þessi verða þó að teljast tryggð þó að því beri ekki að leyna að sveitarfélög á landsbyggðinni eiga mörg hver í miklum fjárhagserfiðleikum. Til þjónustustarfsemi hafa verið lánaðar um 305 millj. kr. og er ástæða til þess að áætla að 10% af þessum kröfum séu töpuð þar sem rekstur gengur ekki og veð reynast fremur lítils virði. Það má því segja að með lækkun framlaga úr ríkissjóði til þessarar stofnunar verði stofnunin að treysta á dýrt fjármagn sem verður að borga af fulla vexti á hverjum tíma og því er ákaflega erfitt að halda áfram á sömu braut nema taka upp frekari tryggingar eða eyða eiginfjárstöðu þessarar stofnunar. Það er því ákaflega undarlegt mat hæstv. ríkisstjórnar á því hvernig hún hefur staðið að fjármögnun Byggðasjóðs og í raun og veru undarlegt hvað stjórnarþingmenn láta ríkisstjórnina bjóða sér í þessum efnum því að ég veit að meðal þeirra eru ágætir menn sem vilja gera sitt besta fyrir hinar dreifðu byggðir

landsins.
    Í áætlun sem gerð var um ársverk í Byggðastofnun fyrir árið 1986 var reiknað með um 14% samdrætti ársverka í sjávarútvegi og 10% samdrætti ársverka í landbúnaði. Það er mjög merkilegt að gera sér grein fyrir hvað þetta kemur misjafnlega niður á byggðir landsins. Þessi samdráttur hefur áhrif, 14% í sjávarútvegi. Hann hefur áhrif á Vestfjörðum, 6,76%, en hér í Reykjavík 0,68%. Á Austfjörðum eru áhrifin 5,85%. Þessar tölur sýna betur en hvað annað hvað þessar atvinnugreinar eru alls ráðandi víða úti á landi og því verður að taka meira tillit til þess sem þar er verið að gera. En allt hefur þetta farið á þann veg að ríkisstjórnin hefur látið lönd og leið það sem skiptir
landsbyggðina mestu máli. Hafnaframkvæmdir hafa verið skornar niður, Hafnabótasjóður er skorinn verulega niður, vegamálin eru skorin niður þrátt fyrir stórfellda aukningu á tekjum af vegamálum. Meira að segja innheimtar markaðar tekjur til vegagerðar eru nú komnar niður í 82,5% miðað við áætlun ársins 1989, en þær hafa allar farið undanbragðalaust til vegamála fram að þessum tíma.
    Ekki verður því neitað að hlutfall ríkisins af bensínverðinu hefur farið vaxandi. Verð á bensínlítra er nú 42,90 kr. Kostnaðarverðið er 13,49 kr., skattur á lítra er 29,41 kr. Þar af er veggjald 16,70, en aðrir skattar eru 12,71 kr. á hvern bensínlítra. Skattur af verði bensínlítra er því 68,6% svo að menn sjá af þessu hversu mikið fer til þess opinbera. Á sama tíma liggur hér fyrir frá fjmrn. eða hagdeild þess að tekjur ríkisins af bifreiðum nema hvorki meira eða minna á þessu ári, samkvæmt fjárlögum, en 12 milljörðum 550 millj. kr. Þar af eru tekjur af bifreiðakaupum 4,7 milljarðar, tekjur af notkun bifreiða 6,6 og aðrir skattar 1,2 milljarðar svo að það er ekki lítil upphæð sem samfélagið tekur af orkunni sem fer af umferðinni. Í 26. gr. þessa frv. eru ákvæði um að 600 millj. kr. hækkun bensíngjalds og þungaskatts skuli renna í ríkissjóð. Fyrir vikið mun Vegagerð ríkisins ekki geta staðið fyrir öllum þeim framkvæmdum á næsta ári sem henni voru ætlaðar í vegáætlun frá 1987. Þar af eru 300--350 millj. vegna vegganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Það er gert ráð fyrir að tekjur af þungaskatti og bensíngjaldi verði um 3,7 milljarðar þetta ár og þar af munu 600 millj. renna í ríkissjóð. Framlagið í ríkissjóð er óháð því hverjar raunverulegar tekjur af þessum álögum verða. Verði þær minni skerðist framlagið í Vegasjóð sem því nemur og eykst ef þær verða hærri. Til þess að ná inn þeim 600 millj. sem upp á vantar til að Vegagerðin geti staðið við vegáætlun er nauðsynlegt að hækka gjaldið sem var ekki hægt vegna verðstöðvunar fyrr en núna 1. mars. Í fyrra voru 285 millj. af tekjum Vegasjóðs settar inn á sérstakan reikning. Í fjárlögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir því að endurgreiða Vegagerðinni 180 millj. af þessari upphæð.
    Ég furða mig á því að nú er að koma að páskafríi og vegáætlun hefur ekki enn verið lögð hér fyrir Alþingi. Mér er sagt að hún sé til meðferðar í stjórnarflokkunum og mér er einnig sagt að ekki sé

almenn hrifning yfir þeirri vegáætlun sem þar er lögð fram, en hins vegar er nauðsynlegt að farið sé að hraða því að leggja fram þessa áætlun.
    Það fer ekki á milli mála að þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr er afar sundurleit og samkomulag er þar ekki upp á marga fiska. Frv. bíða hér afgreiðslu. Það er reynt að koma þeim í gegnum nefndir. Síðan verða uppi alls konar upphlaup á milli stjórnarliða. Ráðherrar troða hver öðrum um tær. Enginn virðist hafa neina sérstaka löngun til þess að stunda sitt eigið ráðuneyti heldur þurfa menn að vera fyrir öðrum. Hæstv. fjmrh. fór til þess að afhenda SÁÁ tékk og hafði auðvitað sjónvarpsmenn með til að taka mynd. Hæstv. heilbrrh. sást þar hvergi. Er þetta þó mál sem heyrir undir heilbrrh. Það stendur ekki á að gefa húseignir og fleira og fleira. Hæstv. menntmrh. --- mér dettur það nú í hug af því að ég sé hann þarna í gættinni --- kom nýlega fram í sjónvarpi og sagði að hann legði á það mikla áherslu að afgreiða hin nýju útvarpslög fyrir vorið. Í þeim lögum eru mjög merkar nýjungar. M.a. á að leggja sérstakan skatt á blöðin og þá hefur sennilega menntmrh. hugsað sérstaklega til Þjóðviljans. Hann er sennilega aflögufær núna að taka á sig nýja skatta og fleiri blöð. Það er líka talað um að breyta afnotagjöldunum. Nú er það ekki visst á hlustanda heldur á að breyta um og það á að vera visst á herbergi hér eftir. Þetta eru ákaflega merkar nýjungar sem eru í þessu frv., og ég held að Alþingi verði að líta alvarlega á það og renna því ekki alveg niður umsvifalaust þó að það komi frá formanni BSRB. ( Gripið fram í: Er ræðumaður að lýsa stuðningi við það?) Nei, ég held að útvarpið eigi ekki að fá sínar tekjur eftir fjölda herbergja.
    Hæstv. fjmrh. mátti ekkert vera að því að vera hér heima til þess að koma lánsfjáráætluninni fram. Hann þurfti að fara til Sovétríkjanna og auka viðskipti Íslands því að hann treysti ekki samferðamanni sínum á rauðu ljósi fyrir því þó að hann fari með utanríkisviðskipti og sömuleiðis ekki viðskrh. Þeir láta sér þetta allt saman vel líka.
    Það er mikið verið að tala um sparnað. Í hverju er sparnaðurinn fólginn? M.a. á að draga úr heilbrigðisþjónustunni. Einu sinni datt mér það í hug sem heilbrrh. að menn sem færu inn á sjúkrahús í 10 daga gætu greitt eitthvert gjald. Það var kallað sjúklingaskattur og það var talin alveg ofboðsleg ósvífni að ætlast til þess ef ég eða aðrir sem færu á fullu kaupi inn á sjúkrahús greiddu ríflega fæðið okkar þar og bara hrein árás á þá sem voru veikir í landinu. Núna segir hins vegar ekki nokkur maður neitt um það að draga eigi úr þjónustunni og loka heilu deildunum. Það hefur aldrei verið lagt í annað eins. Það þykir sjálfsagt og m.a.s. sjálfur fjmrh. fer á fund og skammar þá alveg sundur og saman, lækna og annað lið heilbrigðisstéttanna fyrir það hvað þeir séu mikið kröfugerðarfólk og hvað þeir hafi hátt kaup, það þurfi að lækka það. ( SighB: Þú varst mér hjartanlega sammála í því samt.) Í
hverju? ( SighB: Í því að skamma þá fyrir þetta.) Nei,

ef menn gera samninga, hvort sem það eru læknar eða einhverjir aðrir, þá gera þeir ekki einir samning. Þeir gera samning við annan aðila. Og þá verður að skamma báða aðila ef þeir hafa gert ómögulegan samning. Þessir samningar voru gerðir af núv. menntmrh. þegar hann var heilbrrh. og fjmrh. var úr flokki núv. fjmrh. svo að það dugar ekki fyrir fjmrh. að vera að skamma læknana á Borgarspítalanum eða starfsfólkið þar. Það verður að taka þessa tvo líka með og skamma þá fyrir að hafa gert þessa samninga. En það er kannski fullseint. Aðalatriðið er þá að segja upp samningum og semja að nýju. Ég er alveg sammála mörgu því að það hefur verið gengið allt of langt fyrir ákveðnar stéttir í landinu. En þetta er ekki leiðin, að draga úr þjónustunni og láta fólk bíða eftir aðgerðum, að loka heilu deildunum eins og nú stendur til að gera.
    Forsrh. boðar aðgerðir gegn bönkum. Ég spyr: Hvað er orðið af þessum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar í bankaráðum? Af hverju eru þeir að gera hluti þvert ofan í það sem herrarnir í Stjórnarráðinu vilja? Er verið að boða hertar aðgerðir gegn þessu fólki? Er verið að boða aðgerðir gegn Lúðvík Jósepssyni? Það væri nú þakklæti sem honum væri sýnt frá hendi Alþb. ef þeir telja hann vera óábyrgan gjörða sinna í bönkunum. ( Gripið fram í: Það er of mikil vaxtahækkun núna.) ( ÞP: Þeir héldu honum veislu ...) Ja, það er nú kaldhæðnislegt að halda manninum fyrst veislu og telja hann svo óhæfan til að gegna þessu starfi að vera bankaráðsmaður í Landsbankanum. Það er fullmikið af því góða. Og þetta tal alltaf að allt hafi verið gert öðruvísi en menn hafi viljað. Ég sá haft eftir forsrh. að hann er alveg eyðilagður yfir því að Albert seldi hlutabréf ríkisins í Flugleiðum þegar hann var fjmrh. Ég minnist þess ekki að einn einasti ráðherra hafi sett sig upp á móti sölu á hlutabréfum Flugleiða, hvorki forsrh. né aðrir. Allir samþykktu það með tölu. En núna er verið að segja: Ja, ég var mjög óánægður með þegar hann Albert seldi bréfin í Flugleiðum. Svona er ekki hægt að haga sér.
    Það er nú einhvern veginn þannig að fólk er að missa trúna á stjórnarherrunum og það fer sífellt minnkandi álit almennings á ríkisstjórninni. Ég held að langlundargeð þingmanna stjórnarliðsins sé líka að verða búið. Þingmenn geta ekki látið bjóða sér allt þó að þeir vilji ýmislegt fyrir sína ráðherra gera.
    Þetta frv. til lánsfjárlaga var illa undirbúið. Lántökurnar frá frv. hækka ef ég man rétt um 109% undir meðferð málsins og það sýnir að það hefur verið kastað til þess höndunum, hæstv. fjmrh. Við sjálfstæðismenn og fulltrúi Borgfl. í fjh.- og viðskn. flytjum ekki brtt. um hækkun á frv. Við flytjum heldur ekki brtt. um afnám ,,þrátt fyrir`` ákvæðanna sem svo eru kölluð vegna þess að við teljum nógu langt gengið þrátt fyrir þetta. Við teljum að það verði að sýna í alvöru gætni og aðhald, en með þeim hætti að við stígum ekki skref aftur á bak eins og nú er verið að gera í heilbrigðismálum.