Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir að lánsfjárlögum er einhver augljósasti vottur um hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn hefur með öllu mistekist stjórn sín á ríkisfjármálum og lánsfjármálum og efnahagsmálum yfirleitt. Ég hygg að fáir fjármálaráðherrar hafi sýnt með meðferð lánsfjárlaga á hinu háa Alþingi annar en núv. hæstv. fjmrh. að þeir hafi með öllu á svo skömmum tíma misst tök á því verkefni sem meiri hluti Alþingis hefur trúað þeim fyrir. Enginn fjmrh. hefur fengið stærri falleinkunn á jafnskömmum tíma og núv. hæstv. fjmrh.
    Það hefur komið fram að við meðferð málsins hér á hinu háa Alþingi hafa lántökur ríkissjóðs aukist um meira en 100% og það kemur fram að erlendar lántökur þjóðarbúsins verða 50% meiri en upphaflegt frv. gerði ráð fyrir. Það var gert ráð fyrir því að þjóðarbúið mundi taka erlend lán upp á rúma 14 milljarða kr. á þessu ári. Við meðferð málsins á hinu háa Alþingi hefur hæstv. ráðherra misst svo öll tök á stjórn ríkisfjármála og lánsfjármála að þessi tala hefur hækkað um 50% og er nú komin upp í 21 milljarð. Ég held að það fari ekki á milli mála að hér er á ferðinni einsdæmi um lausatök við stjórn ríkisfjármálanna, einsdæmi um það hvernig einn ráðherra hefur á jafnskömmum tíma með öllu misst stjórn á því verkefni sem honum hefur verið trúað fyrir.
    Það hefur oft áður komið fram að hæstv. fjmrh., sem er verkstjóri efnahagsmála hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, er mesti gengisfellingarráðherra stóryrða í stjórnmálasögunni. Enginn ráðherra hefur hvorki fyrr né síðar tekið jafnmikið upp í sig og enginn þurft að viðurkenna jafnmikið gengisfall stóryrðanna á jafnskömmum tíma.
    Meðferð þessa frv. er reyndar eitt af fjölmörgum dæmum um að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einasta misst tök á ríkisfjármálum og lánsfjármálum heldur hefur hún enga stjórn á vegferð mála hér á hinu háa Alþingi. Þegar þing kom saman í haust var gefin út starfsáætlun um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að koma sínum málum fram, hvernig þingið skyldi starfa í vetur. Satt best að segja hefur ekkert staðist í starfsáætlun hæstv. ríkisstjórnar um meðferð mála hér á hinu háa Alþingi. Jafnvel fyrsta mál hæstv. ríkisstjórnar, sem hún lagði fyrir fyrst allra mála í þingbyrjun, er ekki enn orðið að lögum. Og hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður fjh.- og viðskn., hefur lýst því yfir að hann ætli að tefja framgang þess þangað til hann hefur tryggt með hrossakaupum að samstarfsflokkarnir standi að afgreiðslu einhverra annarra mála sem hann hefur áhuga á að ná fram. Efnahagslöggjöfin sem ríkisstjórnin flutti í kjölfar efnahagsyfirlýsingarinnar þegar hún tilkynnti hinar varanlegu og endanlegu lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar, þessi lög eru ekki enn komin í gegnum Alþingi og komið fram að páskum.
    Það er að vísu ekki nýlunda að seinagangur sé í störfum Alþingis, en ég hygg að það sé fátítt að nokkur ríkisstjórn hafi þurft að horfa fram á slíkt

verkstjórnarleysi og skipbrot í framgangi mála, enda kemur tortryggnin á milli stjórnarflokkanna fram í hverju málinu á fætur öðru og skýrir það hver ástæðan er fyrir því að mál dragast á langinn og raunverulegar ákvarðanir eru ekki teknar í hinum mikilvægustu málum.
    Lánsfjárlög endurspegla um margt betur en ýmislegt annað efnahagsstefnu og árangur ríkisstjórna við stjórn efnahagsmála. Oft er það svo að endurmat á lánsfjárlögum sýnir árangurinn kannski enn betur. En að þessu sinni þurfa menn ekki einu sinni að bíða loka ársins í þeim tilgangi að frv. að lánsfjárlögum sé gert upp. Menn hafa það fyrir augum eftir meðferð frv. á hinu háa Alþingi að ríkisstjórnin hefur með öllu misst tök á þessu verkefni og erlendar lántökur þjóðarbúsins verða nú um 50% meiri en fyrir aðeins örfáum mánuðum þegar þetta mál kom inn á Alþingi. Þetta er árangurinn af starfi fjmrh. stóryrðanna. Þetta er gengisfellingin á stóryrðunum sem hæstv. ráðherra er nú orðinn frægur fyrir.
    Þegar ríkisstjórnin tók við völdum voru sett skýr og ákveðin markmið. Það átti að bæta afkomu atvinnuvega, það átti að ná niður verðbólgu, það átti að reka ríkissjóð með umtalsverðum tekjuafgangi og það átti að lækka vexti svo að um munaði. Nú sjá menn fyrir hver hefur orðið árangur af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér og lýsti með stóryrðum að hún mundi nú loksins ná. Hv. 3. þm. Norðurl. e. vekur athygli á því þegar hann gengur í þingsalinn að þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki meiri áhuga á því að fylgja ráðherra sínum að málum að þeir sitja ekki í þingsalnum hvað þá heldur að þeir taki þátt í umræðum til þess að styðja ráðherra sinn. Þeir flýja hver á fætur öðrum og ráðherrar stjórnarflokkanna, bæði úr Alþfl. og Framsfl., geta auðvitað ekki setið undir umræðum um lánsfjárlög. Þeir þola ekki þessa umræðu. Og það er athyglisvert og þakkarvert að hv. 3. þm. Norðurl. e. skuli vekja athygli á þessari aumu ásjónu ríkisstjórnarinnar sem sýnir kannski betur en flest annað gengisfall stóryrðanna, sýnir kannski betur en flest annað hvernig þingmenn stjórnarflokkanna hafa viðurkennt og viðurkenna í raun gengisfall stóryrðanna, sýnir kannski betur en flest annað það, sem hv. 1. þm. Vestf. var að vekja hér athygli á, að þingmenn stjórnarflokkanna eru farnir að ókyrrast undir
árangursleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar, ráðleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar. ( Fjmrh.: Enginn hlustar á ræðu formanns Sjálfstfl. Það er enginn þingmaður Sjálfstfl. til að fylgja foringjanum þó að þrír séu mættir hér af skyldu.) Ég hélt, hæstv. fjmrh., að hér væru til umræðu lánsfjárlög hæstv. ríkisstjórnar og maður hefði kannski vænst þess að það væru heldur þingmenn stjórnarflokkanna sem tækju þátt í þeirri umræðu og reyndu að styðja hæstv. ráðherra. En ég skil mætavel að hann ákalli þingmenn stjórnarandstöðunnar og kannski vænti þess helst að þaðan komi eitthvert lið. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi lánsfjárlög og stefna ríkisstjórnar Íslands væru með öðrum hætti ef þeir sætu við

stjórnvölinn og því ætti hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir og viðurkennir greinilega með taugaveikluðum frammíköllum sínum. Staðreyndin er nefnilega að um öll þessi höfuðverkefni, að því er varðar öll þessi höfuðmarkmið hefur ríkisstjórnin engum árangri náð. Þvert á móti hefur í öllum tilvikum sigið á ógæfuhliðina.
    Í umræðum um fjárlög í kringum áramótin hélt ríkisstjórnin því fram að nú væru nýir tímar í vændum, verðbólgan á hinu nýja ári yrði eins stafs tala. Ég man eftir því að í þeim umræðum vakti ég á því athygli að fyrir lægi að verðbólgan á fyrstu þremur mánuðunum yrði meira en 20%, jafnvel 22--23%, og þeir stóðu hér upp, ráðherrarnir, hver á fætur öðrum, hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., og náðu varla upp í nefið á sér af hneykslan að svona hrakspár skyldu fluttar inn á Alþingi Íslendinga því að sannarlega yrði nú annað uppi á teningnum.
    En hver er staðreyndin? Hvaða fréttir eru birtar í dag þegar lánsfjárlög eru til 2. umr. í Nd. Alþingis? Að verðbólgan sé komin upp í 27% og hún stefni í yfir 30% á næstu vikum. M.ö.o.: þau varnaðarorð sem hér voru viðhöfð af minni hálfu í kringum áramótin voru varfærnisleg. Verðbólgan náði ekki einu sinni þeim tölum sem ég nefndi þá, 22--23%. Það eru birtar verðbólgutölur í dag upp á 27% og hún fer hækkandi. Er nema von að hæstv. forsrh. segi í viðtali við Morgunblaðið í dag: Það sem hér hefur farið úrskeiðis er verðbólguholskeflan sem hefur dunið yfir í miklu ríkari mæli en mér hafði verið talin trú um. Verðbólguholskeflan sem hefur dunið yfir í miklu ríkari mæli en mér hafði verið talin trú um, segir hæstv. forsrh. Hver taldi honum trú um eitthvað annað? Hver var það nú sem var að ,,plata`` hæstv. forsrh.? Var það hæstv. fjmrh.? Var það hæstv. fjmrh. sem enn einu sinni var að ,,plata`` hæstv. forsrh. sem segir nú í viðtali við Morgunblaðið að honum hafi verið talin trú um allt annað? Það er von að hæstv. forsrh. víki sér undan því að vera viðstaddur umræður sem þessar og kjósi að senda meðráðherrum sínum skeyti af þessu tagi í dagblöðunum því að auðvitað eru það einhverjir aðrir ráðherrar úr ríkisstjórninni sem bera ábyrgð á þessari verðbólguholskeflu sem honum hafði verið talin trú um að ætti ekki að dynja yfir. Það er verið að senda hæstv. fjmrh. smáskeyti. Það er verið að senda verðlagsráðherranum og vísitöluráðherranum, sem treystir sér heldur ekki til þess að vera viðstaddur þessa umræðu, smáskeyti. Hæstv. forsrh. er að segja m.ö.o.: Það er sama hvort ég er utanrrh. eða hvort ég er forsrh. Þegar hlutirnir ganga úrskeiðis, þá hef ég verið plataður og þá ber ég enga ábyrgð og er í hálfgildings stjórnarandstöðu. Ég hygg að það sé kannski um margt sannmæli að hæstv. forsrh. hafi ekki fengið að ráða því sem hann hafi óskað í þessari hæstv. ríkisstjórn því að viðurkennt er af öllum að þar hefur hæstv. fjmrh. haft verkstjórn á hendi í flestum efnum.
    Og hæstv. forsrh. heldur auðvitað áfram að skjóta í þessu Morgunblaðsviðtali, með leyfi forseta. ,,Þar að

auki eru bankarnir mjög óhagkvæmar og illa reknar einingar.`` Það er á ábyrgð hæstv. viðskrh. ,,Og hvernig í ósköpunum``, segir hæstv. forsrh., ,,getið þið verið með minnkandi sjávarafla og minnkandi þjóðartekjur`` og hefur eftir einhverjum Norðmanni sem hann hitti í útlöndum seinast. Síðast hitti hann Svía sem spurði sömu spurningar, þar áður hitti hann Þjóðverja sem spurði sömu spurningar: Hvernig í ósköpunum getið þið verið með verðtryggingu við þessar aðstæður? Það er auðvitað að kenna hæstv. vísitöluráðherra. En hæstv. forsrh. ræður engu um þetta.
    Kjarni málsins er svo auðvitað ekki að því er varðar verðbólguna að það lá ljóst fyrir þegar ríkisstjórnin hafði tekið sínar fyrstu ákvarðanir, þegar hún tók ákvarðanir um biðleikinn, að efnahagsstefna hennar mundi leiða til aukinnar verðbólgu. Það hefur verið rakið hér með mjög skilmerkilegum hætti æ ofan í æ og nú síðast af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að meginhluti þeirrar auknu verðbólgu verður rakinn beint til aðgerða núv. hæstv. ríkisstjórnar. Núv. hæstv. ríkisstjórn er fyrsta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins sem gripið hefur til verðstöðvunaraðgerða og talið að hún sjálf gæti brotið þær aðgerðir ein allra í þjóðfélaginu og ekki aðeins unnið þannig gegn efnahagslegum markmiðum heldur brotið niður almennt siðferði í landinu, brotið gegn almennri siðferðisvitund í landinu. Það er þetta sem hefur gerst.
    Hér er hægt að minna á þær miklu skattahækkanir sem ríkisstjórnin lagði til. Hækkanir á opinberri þjónustu, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir, nær alla
verðbólguholskefluna sem hæstv. forsrh. er svo undrandi á að skuli hafa skollið yfir og honum var talin trú um að mundi ekki skella yfir, má rekja til ákvarðana núv. hæstv. ríkisstjórnar og fyrst og fremst þeirra ákvarðana sem hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir og haft forustu um innan stjórnarinnar.
    Svo spyrja menn auðvitað: Hvers er að vænta í framhaldinu? Ég óttast að verðbólgan muni heldur halda áfram að vaxa en hitt. Flestir þeir óvissuþættir sem eiga eftir að koma fram benda í þá veru.
    Í Þjóðviljanum í dag segir svo, með leyfi forseta, í frásögn af kjarasamningum: ,,Í áliti starfshóps um verðlagsmál segir að ljóst sé að verðbólga verði mikil á næstu mánuðum, jafnvel þó laun hækki ekki og gengi haldist stöðugt, og kaupmáttur muni því halda áfram að rýrna.``
    Jafnvel þó að gengið verði stöðugt og kaup hækki ekki og kaupmáttur haldi áfram að rýrna gera aðilar vinnumarkaðarins, launafólkið í landinu ráð fyrir því að verðbólgan muni aukast. Hvar eru nú stóru orðin, hæstv. fjmrh.? Er ekki kominn tími til að skýra svolítið út hvers vegna ekkert af stóryrðunum varð að veruleika þegar jafnvel Þjóðviljinn í fréttaskýringu af samningafundum vinnuveitenda hefur þennan spádóm um verðbólguþróunina á næstu mánuðum? Ég ætla ekki að vera að vitna til stjórnarandstæðinga eða einhverra aðila á fjármagnsmarkaðnum. Nei, þetta er úr áliti starfshóps sem hefur verið að vinna að gerð kjarasamninga sem Þjóðviljinn segir frá í dag.

Vaxandi verðbólga miðað við óbreytt gengi og engar launahækkanir og rýrnandi kaupmátt. Ég hygg að það séu nær engin dæmi um það að með svo afgerandi hætti hafi ríkisstjórn misst tök á stjórn efnahagsmálanna.
    Það verður ekki sagt að þessar verðhækkanir hafi komið vegna þess að atvinnulífið hafi þrýst fram kostnaðarhækkunum. Þvert á móti blasa nú við þær staðreyndir að atvinnulífið hefur tekið á sig kostnaðarhækkanir en ekki ýtt þeim út í verðlagið og það hefur hæstv. fjmrh. viðurkennt. Því meiri er niðurlæging hans við að missa svo gersamlega tökin á þróun efnahagsmálanna.
    Af sjálfu leiðir að vextir fara hækkandi. Það var ekki talað svo lítið um að núv. hæstv. ríkisstjórn ætlaði að keyra niður vexti. En nú hækka þeir frá einni viku til annarrar og samt er það svo að nafnvextir eru nú neikvæðir eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf. Þrátt fyrir þær miklu hækkanir sem hafa orðið á nafnvöxtum á undanförnum vikum eru þeir neikvæðir í dag. Þeir halda ekki í við vaxandi verðbólgu. Auðvitað skapar þetta mikla hættu. Auðvitað er það rétt, sem hér hefur verið bent á, að með þessu er hæstv. ríkisstjórn að þjóna erlendum sparifjáreigendum. Auðvitað er hæstv. ríkisstjórn að grafa undan innlendum fjármagnsmarkaði. Auðvitað er hæstv. ríkisstjórn með þessu að grafa undan möguleikum íslensks atvinnulífs sem getur ekki byggt sig upp, þróast og tæknivæðst nema íslenska þjóðin spari. Raunvextir á verðbréfamarkaði hafa á hinn bóginn lækkað lítið eitt, að vísu innan við 1%, frá því um áramót að því er mér er tjáð. En hver er skýringin á þessu? Skýringin er sú að hæstv. ríkisstjórn hefur verið í miklum slagsmálum við lífeyrissjóðina, slagsmálum sem einstök eru í viðskiptum ríkisvalds og lífeyrissjóða, með þeim afleiðingum að lífeyrissjóðirnir hafa mjög dregið úr kaupum á ríkisskuldabréfum. Af þeim sökum hefur verið meira framboð af lánsfjármagni á verðbréfamörkuðunum. Þetta ætti kannski að sýna hæstv. ríkisstjórn að það er skynsamlegasta leiðin til þess að ná niður vöxtum að losa um hömlur og draga úr hólfaskiptingu á fjármagnsmarkaðnum. En það vill ekki svo vel til að þetta sé stefna hæstv. ríkisstjórnar. Nei, þetta er afleiðing af alveg einstæðum slagsmálum hæstv. fjmrh. við forustumenn lífeyrissjóðanna, afleiðing af því að hæstv. fjmrh. hefur ekki treyst sér til þess að standa við eigin samning sem líka er einsdæmi í sögunni, að fjmrh. geti ekki staðið við eigin samning sem hann hefur gert við lífeyrissjóðina í landinu.
    Aukið framboð á lánsfjármagni lífeyrissjóðanna inn á verðbréfamarkaðinn stafar sem sagt af þessum ástæðum en ekki því að hæstv. ríkisstjórn hafi fallið frá hugsjón sinni um reglugerðarhagkerfið og hólfaskiptingu á fjármagnsmarkaðnum, því miður. En þetta ætti kannski að kenna henni hvaða leið er vænlegust til þess að ná hér jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og ná niður vöxtum.
    Spariskírteini ríkissjóðs seljast ekki með þeirri afleiðingu að ríkissjóður þarf í vaxandi mæli að leita

annarra leiða til að fjármagna það sem fjármagna þarf á þessu ári. Auðvitað leiðir það til aukinnar erlendrar lántöku. Auðvitað er það enn eitt dæmið um skipbrot stjórnarstefnunnar. En sýnu alvarlegastur er þó sá ágreiningur sem nú er uppi milli lífeyrissjóðanna og fjmrn. sem fyrst kom til vegna þess að hæstv. fjmrh. gekk á bak orða sinna í samningi sem hann gerði við lífeyrissjóðina skömmu fyrir áramót um skuldabréfakaup þeirra á fyrstu mánuðum þessa árs. Lífeyrissjóðirnir hafa leitað lögfræðilegra álitsgerða um þetta efni og í nýlegu fréttabréfi þeirra segir svo, með leyfi forseta, um þetta álitaefni:
    ,,Niðurstaða lögfræðinganna er ótvíræð. Hvorki er heimilt að taka upp beina viðmiðun við launabreytingar á grundvelli lánskjaravísitölu né er hægt að breyta efni verðtryggingar í gildandi lánssamningum. Þrátt fyrir ítrekaðar
samningsumleitanir af hálfu fulltrúa lífeyrissjóðanna hafa stjórnvöld ekki sýnt neinn samkomulagsvilja. Ýmsar tillögur samtaka sjóðanna þar að lútandi hafa verið lagðar fram, m.a. að vísa málinu í sérstakan gerðardóm. Harmar sambandsstjórnarfundurinn þann ósveigjanleika sem fram hefur komið af hálfu stjórnvalda sem leiddi til þess að ekki fannst viðunandi lausn á málinu. Jafnframt lýsir fundurinn yfir fullum stuðningi við hvernig unnið hefur verið að lausn þess af hálfu framkvæmdastjórnar Sambands almennra lífeyrissjóða. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa hafnað öllum samkomulagsleiðum telur sambandsstjórnin nauðsynlegt að lífeyrissjóðir láti á málið reyna fyrir dómstólum og er framkvæmdastjórn SAL falið á grundvelli fyrri samþykkta og álitsgerða lögfræðinga samtaka sjóðanna að fylgja málinu eftir.``
    Þetta er harður dómur forustumanna launþega yfir núv. hæstv. fjmrh., formanni Alþb., í samskiptum hans við lífeyrisþegana í landinu.
    Í þessu fréttabréfi kemur einnig fram að ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir hafa dregið svo úr kaupum sé að hæstv. fjmrh. hafi ekki staðið við það ákvæði sem hann skrifaði undir um verðtryggingarskilmála í samningum sem gerðir voru skömmu fyrir áramót.
    Þetta hefur ýmsar afleiðingar í för með sér, ekki einungis það hversu mikið áfall það er þegar fjmrh. í ríkisstjórn Íslands gengur þannig á bak samninga sem hann hefur gert og hvílíkt gengisfall það er fyrir ríkisstjórn Íslands að innan hennar skuli vera fjmrh. sem þannig starfar. Þetta hlýtur að hafa áhrif á fjárhag húsnæðisstjórnar. Nú óska ég eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þeim afleiðingum sem þessi framkoma hans hefur haft fyrir húsnæðisstjórn, að hann geri hér í umræðunni grein fyrir því hvernig hún ætlar að fjármagna starfsemi sína á þessu ári ef fram heldur sem horfir í samskiptum hæstv. fjmrh. við lífeyrissjóðina. Það væri rétt, herra forseti, að hæstv. félmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Ég óska eftir því að hann verði kallaður til fundarins því það er einnig nauðsynlegt. ( Forseti: Ég vil minna á að það voru settar hér verklagsreglur í deildinni þess efnis að það væri ekki gerðar kröfur um nærveru annarra

ráðherra en þess sem málið heyrði undir öðruvísi en í upphafi fundar. Að sjálfsögðu verður orðið við óskinni engu að síður, en ég vænti þess að ræðumaður haldi áfram ræðu sinni.) Það skal ég gera, herra forseti. Ég hélt kannski að hæstv. félmrh. hefði meiri áhuga á fjármögnun húsnæðislánakerfisins en raun ber vitni og hefði þess vegna hug á að taka þátt í þessari umræðu og knýja fram hagsmuni húsnæðislánakerfisins, en á því virðist hafa verið nokkur skortur.
    En það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherrar fjármála og félagsmála geri grein fyrir því í hvert efni stefnir ef fram heldur sem horfir varðandi samskipti fjmrh. og lífeyrissjóðanna. Nú segja lífeyrissjóðirnir að mjög hafi dregið úr kaupum og fyrir dyrum standa umfangsmikil málaferli. Þess má af þeim sökum vænta að húsnæðissjóðirnir eigi ekki á næstu missirum aðgang að því fjármagni sem lög gera ráð fyrir til útlána og því þurfi að leita annarra leiða. Hefur verið leitað annarra leiða og þá í hverjum mæli? Hvernig verður málið leyst ef þetta ástand verður til langframa? Hefur hæstv. félmrh. sætt sig við og samþykkt afstöðu hæstv. fjmrh. í viðskiptum hans við lífeyrissjóðina? Er þetta sameiginleg afstaða hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh.? Það er mjög mikilvægt að fá það staðfest við þessa umræðu hvort afstaða hæstv. fjmrh. er einnig afstaða hæstv. félmrh., hvort það er hans afstaða að það eigi að koma fram við lífeyrissjóðina með þessum hætti og hvort stefna eigi samskiptum ríkisvaldsins og þeirra í langvarandi, kannski margra ára málaferli og hvort hæstv. ráðherra félagsmála telur það vera vænlegustu leiðina til að leysa úr þeim mikla vanda sem húsnæðismálin og fjárhagsstaða húsnæðissjóðanna eru í í dag. Er það skoðun og afstaða hæstv. félmrh. að þetta sé vænlegasti kosturinn til að greiða úr fjárhagsvanda húsbyggingarsjóðanna?
    Það er einnig nauðsynlegt að fá fram hvaða áhrif þessi framkoma hæstv. fjmrh. muni hafa á réttindi sjóðfélaga því ef það er rétt, sem hér segir í fréttum frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, að mjög hafi dregið úr kaupum sjóðanna vegna stríðsástandsins á milli þeirra og fjmrn., vaknar upp spurningin um réttindi sjóðfélaganna. Húsnæðislöggjöfin gerir ráð fyrir að þeir einir eigi rétt á lánum sem eru í lífeyrissjóðum sem hafa fullnægt kaupskyldu samkvæmt lögunum. Ef þetta stríðsástand leiðir til þess að sjóðirnir treysta sér ekki til að eiga áframhaldandi viðskipti við ríkissjóð Íslands hvaða áhrif mun það þá hafa á réttarstöðu þeirra sem eru að sækja um lán? Ef ríkissjóður eða húsnæðissjóðirnir neyðast til þess að leita annarra leiða til fjármögnunar mun það þá skerða lánsréttindi sjóðfélaganna eða þarf að breyta lögum um Húsnæðisstofnun í þeim tilgangi að þetta stríðsástand skerði ekki réttindi þeirra sem sækja um lán?
    Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. geri ítarlega grein fyrir þessu í umræðunni því hér er um veigamiklar spurningar að tefla sem snúa að hagsmunum húsbyggjenda, almennings í landinu. Það

verður auðvitað ekki við það unað að valdhroki og þrákelkni hæstv. fjmrh. stefni hagsmunum þessa fólks í óefni og a.m.k. nauðsynlegt að fá fram hvort það er sameiginleg afstaða þeirra ráðherra
sem fara með fjármál og félagsmál.
    Það hefur komið fram að mjög verulega skortir á að gert hafi verið ráð fyrir öllum fyrirsjáanlegum útgjöldum ríkisins og ríkissjóðs á þessu ári. Stærsta atriðið í því efni er lántaka Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem er að verða eitt aðalaðhlátursefni fyrir hæstv. sjútvrh. vegna þess að hann hafði lýst því yfir á fundi með sjómönnum að ríkissjóður tæki á sig þetta lán, en hann hefur ekki komist fet með þá yfirlýsingu vegna þess að hæstv. fjmrh. neitar að bókfæra þetta lán á ríkissjóð. Hæstv. sjútvrh. er af þessum sökum að verða aðhlátursefni í sjávarplássunum víðs vegar um land, en hæstv. fjmrh. hreyfir sig hvergi og kætist því meir sem fólkið í sjávarplássunum brosir að hæstv. sjútvrh. fyrir að koma ekki yfirlýsingu sinni um þetta efni fram. Eigi að síður hefur Þjóðhagsstofnun framkvæmt útreikninga á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á þeirri forsendu að ríkissjóður hafi tekið þetta lán og beri þennan kostnað.
    Nú veit ég ekki á hvaða forsendum Þjóðhagsstofnun gerir þetta því að lögin eru alveg skýr um að sjávarútvegurinn á samkvæmt þeim að bera þessa lántöku sjálfur. En Þjóðhagsstofnun hefur reiknað þetta á annan veg og þetta ekki leiðrétt. Lánið er í raun og veru hvergi bókað. Það er ekki bókfært í afkomuútreikningum Þjóðhagsstofnunar á sjávarútveginn og það er ekki bókfært í bókhaldi ríkisins á ríkissjóð. Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Er ekki full ástæða til að gera þessa tilraun á fleiri sviðum? Ef það er hægt að taka erlend lán til að reka sjávarútveginn og bókfæra það ekki á ríkissjóð og ekki á sjávarútveginn, láta lánið vera í lausu lofti og reka sjávarútveginn þannig, er ekki hægt að leysa vandamál Ríkisútvarpsins og byggingarsjóðanna, getur ekki hæstv. félmrh. fengið heimild til þess að taka erlent lán af þessu tagi fyrir húsnæðissjóðina án þess að það sé bókfært sem skuld húsnæðislánasjóðanna og án þess að það sé bókfært á ríkissjóð, það hangi bara einhvers staðar ofar skýjum? Það er spurning sem ég óska eftir að hæstv. fjmrh. svari hvort honum hafi ekki dottið í hug að beita þessari einstöku hagfræði á fleiri sviðum efnahagsstarfseminnar. Ef þessi hagfræði gengur upp, ef það er hægt að reka þjóðarbúskapinn á þessari hagfræði og það kemur í ljós þegar upp verður staðið, þá ætti hæstv. ráðherra að fá nóbelsverðlaun að minnsta kosti ofan á öll verðlaunin sem hann hefur fengið til þessa í útlöndum.
    En kjarni málsins er auðvitað að það er búið að ákveða þessa lántöku. Það er verið að reka sjávarútveginn á þessum lánum og hvað sem líður valdhroka og þrákelkni hæstv. fjmrh. er þetta lántaka ríkissjóðs. Hvaða loftfimleika sem hann ætlar sér í bókfærslu og erlendum lánum, hversu sniðugur sem hann heldur að hann sé að taka erlend lán án þess að bókfæra þau nokkurs staðar, þá lendir þetta á ríkissjóði. Það eru 800 millj. kr. sem ríkissjóður er að

greiða með sjávarútveginum fyrstu mánuði þessa árs og það eru útgjöld ríkissjóðs hvað sem hæstv. fjmrh. þykist kunna fyrir sér í bókfærslu eða loftfimleikum bókfærslunnar.
    Hæstv. fjmrh. hefur heldur enga grein gert fyrir því hvernig hann ætlar að fjármagna 100 milljónir í viðbótarendurgreiðslu á söluskatti sem dugar fram á vormánuðina. Hæstv. fjmrh. verður við þessa umræðu að gera grein fyrir því hvernig á að afla þessa fjár og hann verður einnig við þessa umræðu að gera grein fyrir því hvert framhald á að vera á þessum útgjöldum þegar komið er fram í maímánuð. Á þá að taka ákvarðanir um áframhaldandi endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti í samræmi við þessar 100 millj. og á þá að taka nýtt 500 millj. kr. lán til að halda sjávarútveginum gangandi fram á haustið eða á að fara í gengisbreytingu? Það er ekki hægt að ljúka umfjöllun um lánsfjárlög nema hæstv. ráðherra svari því hvað á að taka við þegar þessum greiðslum lýkur í maímánuði.
    Þá hefur einnig komið fram að hæstv. ráðherra hefur enga grein gert fyrir því hvernig á að fjármagna 100 millj. kr. niðurgreiðslu á raforkuverði til frystihúsa og það hefur komið fram að það vantar 670 millj. kr. til þess að ríkisstjórnin geti staðið við fyrirheit sitt um óbreytt niðurgreiðslustig út þetta ár. Hér í umræðunni hefur verið gerð grein fyrir brtt. sem stjórnarmeirihlutinn flytur við þetta frv. þar sem lagt er til að fjmrh. að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. geti samið um ógreidd framlög til jarðræktarframkvæmda og ógreidd framlög til búfjárræktar vegna ársins 1988. Hér eru engar upphæðir tilgreindar, en þetta er enn eitt dæmið um vinnubrögðin þar sem Framsfl. samþykkir að standa að afgreiðslu fjárlaga með því að takmarka þessar greiðslur, kemur svo þegar búið er að afgreiða fjárlögin og segir: Nú krefjumst við þess að þetta mál verði leyst, og þá er skotið hér inn við afgreiðslu lánsfjárlaga þegar komið er fram undir páska heimild til hæstv. fjmrh. að gera samninga þar sem engar takmarkanir eru varðandi fjárhæðir. Þetta er dæmi um alkunn vinnubrögð þingflokks framsóknarmanna í þessum efnum.
    Auðvitað er það svo að menn verða að standa við skuldbindingar sínar, en var þá ekki nær að horfast í augu við það við afgreiðslu fjárlaga? Auðvitað liggur það fyrir í hvaða skuldbindingum ríkissjóður er að því er varðar þessa tvo þætti. Þær tölur liggja alveg klárt fyrir. Það var hægt að setja þær inn í
fjárlög við afgreiðslu þeirra fyrir þá sem vildu standa við sínar skuldbindingar. Nú er opnuð heimild. Hún er án takmarkana. Hún getur þess vegna verið núll og hún getur þess vegna verið hvað sem er þar fyrir ofan. En það liggur alveg fyrir hvaða tölur hér er um að ræða. Það væri nauðsynlegt og er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hverjar þessar skuldbindingar eru og hvaða áform hann hefur í þessu efni og það er einnig nauðsynlegt að hv. formaður fjvn., sem á að hafa umsagnaraðild um þetta, geri nánari grein fyrir þeim fjárskuldbindingum sem með

þessu er verið að leggja á ríkissjóð.
    Það er líka nauðsynlegt að hér komi fram vegna nýlegra samþykkta ríkisstjórnarinnar um Arnarflug hvaða heimilda ríkisstjórnin hæstv. ætlar að afla í því efni. Hún hefur gert þar um skýra samþykkt sem m.a. lýtur að heimild til erlendrar lántöku. Ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki að afla heimilda til þessarar lántöku við afgreiðslu lánsfjárlaga? Er það svo rétt að einstakir þingmenn Framsfl. hafi samkvæmt þessu baksamkomulagi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar heimild til að flytja brtt. um allt önnur skilyrði varðandi lánveitingar til Arnarflugs en ríkisstjórnin gaf út í þeirri samþykkt sem hún kynnti opinberlega? Eru einhverjir slíkir baksamningar og má vænta þess að einhverjir þingmenn Framsfl. flytji tillögur af því tagi við þessa umræðu eða 3. umr. þessa máls og ætlar ríkisstjórnin að flytja tillögur af þessu tilefni?
    Allt hefur þetta áhrif á heildarútkomu lánsfjárlaga og skuldbindingar ríkissjóðs og með hliðsjón af þeim samþykktum sem hafa verið gerðar er eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn geri grein fyrir áætlunun sínum að því er þetta varðar.
    Ég vil einnig að því er varðar einstök atriði í frv. inna hæstv. fjmrh. eftir því hvað hann ætlar að gera varðandi lántökuheimildir Herjólfs, en um nokkurt skeið hefur Alþingi lýst yfir vilja sínum til þess að það fyrirtæki taki erlent lán til að byggja nýja ferju. Það hefur strandað á hæstv. fjmrh. að fyrirtækið fái þá heimild. Hæstv. samgrh. hefur verið þess mjög fýsandi og lýst því margsinnis yfir að hann telji að tími sé kominn til að ráðast í þær framkvæmdir, en enn sem komið er hefur hæstv. fjmrh. staðið þar í vegi og ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvort hann ætlar að láta af þeirri andstöðu.
    Þegar litið er á aðeins örfáa af þeim þáttum sem hér hafa verið dregnir fram og valda óvissu, þá er ljóst að það er ekki gert ráð fyrir 800 millj. sem ríkissjóður verður að taka á sig varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og auðvitað ekkert um þær 500 millj. sem þarf að taka ef halda á þessu áfram. Það er ekki gerð grein fyrir 100 millj. vegna niðurgreiðslu á raforkuverði. Það er ekki gerð grein fyrir 100 millj. vegna endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Það er ekki gerð grein fyrir tæplega 700 millj. vegna fyrirheita ríkisstjórnarinnar um óbreytt niðurgreiðslustig á búvöru. Og það er ekki tekið fram hvað þessar nýju heimildir varðandi jarðræktarframlögin og búfjárræktarframlögin koma til með að auka útgjöld ríkissjóðs.
    Mér sýnist í fljótu bragði, aðeins eftir að hafa litið á þessa örfáu liði, að það séu a.m.k. 2 milljarðar kr. sem þarna eru í uppnámi, það bendi allt til þess að nú þegar liggi það fyrir að hallarekstur ríkissjóðs verði 2 milljarðar kr. og mun þá láta nærri að þetta ár fari eins og hið fyrra, að í hverjum mánuði bæti hæstv. fjmrh. einum milljarði við halla ríkissjóðs.
    Þetta er sú staða sem hér blasir við og hæstv. ráðherra hefur enga grein gert fyrir hvorki í fjárlögum né heldur með hvaða hætti hann ætlar að afla fjár, þá sennilega lánsfjár, til að standa undir þessum kröfum.

    Þá liggur fyrir að hæstv. fjmrh. hefur ekki enn gengið frá, þó að lög mæli fyrir um að það skuli gert fyrir lok þessa mánaðar, yfirdráttarskuldum ríkissjóðs í Seðlabankanum um sl. áramót. Það liggur líka fyrir að yfirdráttarskuldin er nú komin í tæpa 10 milljarða kr. Yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum er nú þegar í marsmánuði og var reyndar komin í febrúarmánuði í 10 milljarða kr.
    Ég hygg að þessi einfalda tala skýri einkar vel þau lausatök sem nú eru á stjórn ríkisfjármálanna, sýni á einfaldari hátt kannski en flest annað að hæstv. ráðherra hefur með öllu misst tök á stjórn ríkisfjármálanna þegar yfirdráttarskuldin er í lok febrúarmánaðar komin upp í 10 milljarða kr. Þá geta menn spurt hvers er að vænta í árslok ef hæstv. ráðherra á að halda áfram á sömu braut.
    Við allar þessar aðstæður búa atvinnuvegirnir svo enn við verulegan hallarekstur, bæði sjávarútvegur og iðnaður. Með uppbóta- og styrkjakerfinu, sem hæstv. viðskrh. hefur verið aðaltalsmaður fyrir eftir að hann beitti sér fyrir kollsteypu Alþfl. í efnahagsmálum, er auðvitað verið að falsa gengisskráninguna með svipuðum hætti og vinstri stjórnin, sem gafst upp á rólunum 1958, gerði, að vísu ekki enn í jafnríkum mæli en vinnubrögðin og aðferðirnar eru þau sömu. Auðvitað bitnar þetta á sjávarútveginum, en þó með enn meiri þunga á iðnaðinum. Hæstv. sjútvrh. hefur verið ólatur við að minna á að þetta komi með enn meiri þunga niður á iðnaðinum, þessi aðferð við stjórn efnahagsmála. Skyldi hann kannski vera að senda hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh.
smáskeyti með þessum yfirlýsingum? Ætli hann sé að senda þeim smáskilaboð um að það sé nú ekki víst að þeir góðu herrar sem ráða ferðinni í ríkisstjórn séu á réttri leið?
    Þrátt fyrir allt búum við þó við mjög góð ytri skilyrði í þjóðarbúskapnum. Það er mokveiði um allt land, loðnuvertíðin hefur gengið vel og hvar sem er á landinu er mokveiði. Það fiskast alls staðar vel. Og hæstv. forsrh. hefur margsinnis lýst því yfir að á næstu vikum sé að vænta stórfelldrar hækkunar á erlendum mörkuðum Íslendinga. Ég man ekki betur en að þegar hann kom af Norðurlandaráðsþinginu hafi hann tíundað það að Schluter, forsætisráðherra Danmerkur, hafi staðfest þetta. Þó að mér sé ekki kunnugt um það frá fyrri tíð að forsætisráðherra Danmerkur hafi mikið að segja um verð á íslenskum sjávarafurðum erlendis eru þetta þó þær yfirlýsingar sem forsrh. hefur gefið um ytri aðstæður í þjóðarbúskapnum. M.ö.o.: við erum samkvæmt hans orðum að horfa fram á verulegar hækkanir á fiskverði og betri aflabrögð en um langan tíma. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessi hagstæðu skilyrði er sjávarútvegurinn rekinn með verulegum halla og iðnaðurinn með enn meiri halla og stefnir í enn meira óefni ef fram heldur sem horfir þrátt fyrir þetta. Og þrátt fyrir þetta geta aðilar vinnumarkaðarins ekki gert kjarasamninga til nokkurra mánaða af því að allt er í óvissu um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Þrátt fyrir þessi hagstæðu skilyrði, sem hæstv. forsrh. hefur

lýst svo, er ekki hægt að ljúka gerð kjarasamninga.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir hér á hinu háa Alþingi fyrir jólaleyfi þingmanna að hann ætlaði þegar í stað á milli jóla og nýárs, eins og hann orðaði það, að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins til þess að leggja grundvöll að endurnýjun kjarasamninga. Ég geri ráð fyrir að hann hafi staðið við þessi orð. Og ég geri ráð fyrir að svokallað samráð hafi staðið síðan. Ég óskaði þá eftir því að hann gerði grein fyrir því á hvaða grundvelli þetta samráð ætti að fara fram, hvað það væri sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði að leggja á borðið fyrir aðila vinnumarkaðarins, launþega og vinnuveitendur. Ég skildi það svo á þeim tíma að hæstv. forsrh. hafi þá ekki verið búinn að bera sig upp við hæstv. fjmrh. og hann gat þess vegna ekki gefið skýr svör um samráðsgrundvöllinn sem ríkisstjórnin ætlaði að leggja fram.
    Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins verið á löngum samningafundum og fréttir hafa borist af því að hæstv. ríkisstjórn hafi setið á löngum fundum, helgarfundum, til þess að ræða þau viðfangsefni. Það er nauðsynlegt vegna þess að það hefur bein áhrif á lánsfjárlögin, á fjárlögin, hvaða afstöðu ríkisstjórnin tekur í þessum efnum að fá hér skýr svör frá þeim ráðherra sem mótar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, hvernig og hvað hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á borðið í þessu samráði og hvað hún er tilbúin að gera. Það hefur verið upplýst að aðilar vinnumarkaðarins koma að nýju saman til funda á þriðjudag eftir páska. Þá verður Alþingi í leyfi og þess vegna skýlaus krafa að hæstv. ríkisstjórn geri annað en að vera með fæturna uppi á ráðherrastólunum í þinginu heldur geri Alþingi grein fyrir afstöðu sinni til þessara samninga, til þess hvað hún hefur lagt á borðið í þeim efnum og hvaða áhrif það hefur á fjárhag ríkisins og lánsfjárlög.
    Í frétt Þjóðviljans í dag þá segir svo, með leyfi forseta, um þessi efni:
    ,,Gerir starfshópurinn tillögur um að fyrstu skref stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum verði eftirfarandi:
    1. Reynt verði að efla verðskyn neytenda með auknu verðlagseftirliti og aukinni og opnari samkeppni. Sýnt verði aðhald í verðlagningu á opinberri þjónustu á árinu 1989. Verð landbúnaðarafurða verði óbreytt út árið, endurskoðun á verðlagningu og skipulagi á sölu landbúnaðarafurða, þar með töldum kartöflum, grænmeti, eggjum og kjúklingum. Hugað verði að lækkun eða afnámi söluskatts á matvæli í tengslum við upptöku virðisaukaskatts, endurskoðun á vörugjöldum. Eins og hér sést [segir svo Þjóðviljinn] er alla vega tekið á málum og krafan um óbreytt verð á landbúnaðarafurðum hlýtur að gerast annaðhvort á kostnað ríkissjóðs eða bændanna sjálfra.``
    Síðan segir: ,,Skattamálahópur hefur rætt um hluti eins og hækkun skattleysismarka, lækkun skatta fyrirtækja, afnám eða lækkun matarskattsins og þá í tengslum við upptöku virðisaukaskatts.``
    Hér er á einfaldan og skýran hátt greint frá því hvað aðilar vinnumarkaðarins og þá einkanlega

verkalýðshreyfingin telja vera samráðsgrundvöllinn í þeim samningum sem nú standa fyrir dyrum, hvað þessir aðilar telja vera lágmark þannig að unnt verði að gera kjarasamninga við þessi þó hagstæðu skilyrði í þjóðarbúskapnum sem hæstv. forsrh. hefur verið að lýsa með ávísunum á hækkandi markaðsverð og í ljósi góðs afla. Hér er fyrst spurt að því. Ríkisstjórnin hefur gefið sjálf yfirlýsingar um að niðurgreiðslustig eigi að vera óbreytt. Það kostar 670 millj. kr. Hér kemur fram krafa um að landbúnaðarverðið sjálft verði óbreytt út allt árið. Óskað er eftir því að hæstv. ráðherra svari hvað það kostar til viðbótar við þessar tæpu 700 millj. og óskað er eftir því að hæstv. ráðherra svari hvort hæstv. ríkisstjórn ætli að verða við þessari kröfu.
    Þá væri einnig fróðlegt, þó að það komi ekki beint við umræðu um lánsfjárlög, að fá að heyra hvaða afstöðu hæstv. ríkisstjórn tekur til þeirrar kröfu sem hér er sett fram um endurskoðun á verðlagningu og skipulagi á sölu landbúnaðarafurða.
    Þá segir hér einnig að endurskoða þurfi vörugjöld. Hæstv. ríkisstjórn viðurkenndi reyndar í efnahagsyfirlýsingu sinni í byrjun febrúar að hún hefði gert alvarleg mistök við setningu laganna um vörugjöld þar sem hallað hefði á hagsmuni íslensks iðnaðar á kostnað innflutnings og því þyrfti að bæta úr í því efni. Enn sem komið er hefur ekkert frv. verið lagt fram í samræmi við þessa yfirlýsingu. Ætlar hæstv. fjmrh. að leggja þetta frv. fram? Ef svo er, hversu mikla leiðréttingu á að gera? Á hún að vera í samræmi við þau fyrirheit sem hæstv. ráðherrar hafa greinilega gefið forustumönnum iðnaðarins í landinu?
    Í nýlegu fréttabréfi Landssambands iðnaðarmanna segir svo: ,,Landssamband iðnaðarmanna hefur fengið það staðfest hjá iðnrh. og forsrh. að hér sé ekki einungis átt við þá nauðsynlegu lagfæringu á framkvæmd laganna sem felst í nýsettri reglugerð um þau heldur jafnframt að skattskyldu samkvæmt lögunum verði breytt þannig að hagstæðara verði fyrir íslenskan iðnað.``
    M.ö.o.: Hér hefur Landssamband iðnaðarmanna upplýst að bæði iðnrh. og forsrh. hafi gefið um það alveg klár og skýr fyrirheit að yfirlýsingin frá því í febrúar þýði endurskoðun á vörugjöldunum, lækkun vörugjaldanna til að mæta hagsmunum íslensks iðnaðar. Um þetta stóðu verulegar deilur á Alþingi fyrir jól þegar hæstv. ráðherra var að berjast fyrir skattahækkunum sínum. Á þessa galla var bent með mjög skýrum rökum. En hæstv. fjmrh. sló þá höfðinu við steininn. Nú hefur ríkisstjórnin gefið út yfirlýsingu og tveir ráðherrar, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., gefið samtökum iðnaðarins í landinu klár fyrirheit um hvað í þessu felst. Hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki komið með þetta frv. inn á þingið enn þá? Hvað veldur þeim drætti? Er það kannski ætlun ráðherrans að smeygja sér undan því að efna þetta fyrirheit?
    Þá er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri grein fyrir öðrum skattabreytingum sem aðilar vinnumarkaðarins virðast leggja til grundvallar í þessum umræðum, ekki síst hvað varðar hækkun

skattleysismarka. Það var ein meginádeilan á hæstv. ráðherra í skattaumræðunni fyrir jól hversu freklega hann gekk fram í því að hækka skattleysismörk. Nú koma launþegasamtökin og gera það að höfuðkröfu til þess að kjarasamningar geti tekist til aðeins örfárra mánaða að hæstv. fjmrh. breyti um stefnu, komi hér og iðrist þess sem hann gerði fyrir jól og breyti skattalögunum, eti ofan í sig öll stóru orðin sem hann hafði hér í skattaumræðunni fyrir jól og breyti skattalögunum á ný. Ætlar hæstv. ráðherra að gera þetta?
    Það kemur einnig fram að atvinnurekendur gera ráð fyrir að samráðsgrundvöllurinn feli í sér lækkun á sköttum fyrirtækja. Hvað er hæstv. ráðherra tilbúinn að gera í því efni? Er hann reiðubúinn að falla frá nýju afskriftarreglunum? Er hann reiðubúinnn að lækka skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði til viðbótar þeirri augljósu kröfu að breyta vörugjöldunum? Það er útilokað annað í ljósi yfirlýsinga hæstv. forsrh. frá því fyrir sl. áramót, að hann ætlaði þá þegar að hefja samráð við aðila vinnumarkaðarins um lausn kjaradeilnanna, að nú þegar komið er á þennan tímapunkt í samningunum, eftir að þetta samráð hefur staðið frá því um áramót fyrir forgöngu hæstv. forsrh., geri hæstv. ríkisstjórn nú þegar grein fyrir þessum viðræðugrundvelli því að það er svo augljóst hver áhrif hann hefur á afkomu ríkissjóðs og lánsfjárlögin. Hæstv. ráðherra getur ekki vikið sér undan að svara nema að svo sé að þrátt fyrir margra mánaða samráð hæstv. forsrh. hafi ekkert gerst og ríkisstjórnin hafi ekki komist að neinni niðurstöðu, nema það sé svo að aðilar vinnumarkaðarins geti í engu treyst þeim stóru orðum sem hér voru höfð af hæstv. forsrh. um þetta mikla samráð sem hann ætlaði að beita sér fyrir. Annaðhvort er að ríkisstjórnin er í ráðleysi, veit ekki hvað hún á að gera ellegar hún hefur aldrei meint neitt með þeim orðum sem um þetta hafa verið látin falla. En það verður eftir því tekið hvaða greinargerð hæstv. ráðherra gefur Alþingi nú. Það liggur fyrir að viðræður aðila vinnumarkaðarins hefjast þegar eftir páska. Þá verður Alþingi í fríi og þess vegna er það þingræðisleg skylda hæstv. ráðherra, með tilliti til hins langa aðdraganda og þeirra brýnu hagsmuna sem í húfi eru og með tilliti til þess hvernig þessi mál tengjast augljóslega lánsfjárlögunum, að gera nú Alþingi skýra grein fyrir samráðsgrundvellinum og hvað ríkisstjórnin er tilbúin að gera í þeim efnum og hvað það muni kosta ríkissjóð.
    Þá er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri hér nokkra grein fyrir þeim deilum sem staðið hafa í ríkisstjórninni að undanförnu um meginstefnuna í fjármálum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hæstv. fjmrh. setti fyrirvara við efnahagsáætlun Norðurlanda að því er varðaði fjármálakafla hennar. Hæstv. viðskrh., sem er jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda, hefur sætt sig við þennan fyrirvara, en lýst því jafnframt yfir að hann væri óskynsamlegur og það sé í raun og veru ekki stjórnarstefnan að fylgja fyrirvaranum. Eigi að síður stendur fyrirvarinn og

hefur ekki verið afturkallaður.
    Á nýlegum fundi Fríverslunarbandalagsins mun hæstv. forsrh. hafa sett mjög skýra fyrirvara á blaðamannafundi a.m.k. um það að íslenska ríkisstjórnin stæði ekki að hugmyndum um frjálsan fjármagnsmarkað og þingflokkur Alþb. hefur gefið út sérstaka yfirlýsingu um að þessi blaðamannafundarfyrirvari sé jafnframt stefna þess flokks sem ráðið hefur ferðinni í efnahags- og fjármálum og hugmyndir hæstv. viðskrh. í þessu efni séu að engu hafandi.
    Nú er það svo að umræður af þessu tagi gera kannski ekki mikið til heima hjá okkur. Við þekkjum þá sem hér eiga hlut að máli. Við erum kannski orðin vön því að taka mátulegt mark á yfirlýsingum af þessu tagi. En í ljósi þess að Íslendingar eru að taka þátt í viðræðum um þá þróun sem nú á sér stað í Evrópu er útilokað að ríkisstjórn Íslands tali tveimur tungum með þessum hætti ef við eigum ekki að glata allri virðingu í samskiptum við aðrar þjóðir. Og hvernig á hæstv. utanrrh. að vera í forustu fyrir Fríverslunarsamtökum Evrópu í viðræðum við Efnahagsbandalagið þegar þeir tveir flokkar sem ætla að ráða ferðinni í þessu efni hafa svera og gilda fyrirvara um meginatriði í þeim viðræðum sem fram eiga að fara og telja að ríkisstjórn Íslands geti ekki og eigi ekki að taka þátt í þeirri þróun? Hér er verið að standa að verki með þeim hætti sem augljóslega getur skaðað álit og virðingu Íslendinga í samskiptum við aðrar þjóðir. Væri æskilegt að hæstv. ráðherra gerði nokkuð frekari grein fyrir þeim einkennilegu deilum sem fram hafa farið á milli ráðherra um þetta efni.
    En að lokum, herra forseti, ítreka ég óskir mínar til hæstv. ráðherra og hæstv. félmrh. um að þeir geri grein fyrir þeim atriðum sem óskað hefur verið eftir.