Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Þessi umræða um frv. til lánsfjárlaga hefur nú staðið hér í allnokkurn tíma og verið gripið á ýmsu er snertir stjórn efnahagsmála í landinu, enda er það svo að frv. til lánsfjárlaga er annað af tveimur meginfrumvörpum, sem hæstv. ríkisstjórn á hverjum tíma leggur fram, sem markar efnahagsstefnu viðkomandi ríkisstjórnar. Þar er auðvitað um að ræða fjárlögin og svo lánsfjárlögin. Það er ekki síður ástæða til að ræða dálítið almennt um efnahagsmálin nú þegar lánsfjárlögin hafa verið skilin jafnrækilega frá fjárlögunum og raun ber vitni. Sú verklagsregla var orðin nokkuð rík á hv. Alþingi að lánsfjárlög væru afgreidd fyrir áramót, en nú er út af því brugðið hjá hæstv. ríkisstjórn og lánsfjárlögin afgreidd fyrst tæpum þremur mánuðum eftir að fjárlög voru afgreidd og því ástæða til að ræða efnahagsmálin.
    Ég hafði hins vegar ekki hugsað mér að standa hér mjög lengi í ræðustól að þessu sinni. Ég geri fyllilega ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. verði við þeim áskorunum sem að honum hafa beinst hér í þessari umræðu um að svara allmörgum spurningum sem til hans hefur verið beint. Það er að sjálfsögðu útilokað að þessari umræðu ljúki án þess að hæstv. fjmrh. komi í stólinn og geri ítarlega grein fyrir þeim atriðum sem hann hefur verið spurður um, atriðum sem snerta verulegar gloppur í þessu frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur frami og sýnt hefur verið rækilega fram á hér í umræðunni og reyndar í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og ýmsir ræðumenn hafa ítrekað hér í dag.
    Það verður að vísu að segjast eins og er að þetta frv. til lánsfjárlaga verðskuldar ekki ítarlegar eða langar umræður, líti maður á frv. eitt út af fyrir sig, ef maður hefði það ekki í huga að hér væri um að ræða annað meginfrumvarp um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Frv. er greinilega óraunsætt, það er gloppótt, og það liggur alveg ljóst fyrir af þeim gögnum sem þegar eru fyrir hendi að þetta frv. mun á engan hátt standast ef það verður að lögum óbreytt eins og það lítur út nú eftir meðferð fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Engu að síður vil ég nota þetta tækifæri og drepa hér á nokkur atriði.
    Það er nú bráðum hálft ár liðið frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð og þegar hún var mynduð var sú yfirlýsing gefin að það væri hennar fyrsta verkefni og aðalverkefni að vinda bráðan bug að því að grípa til róttækra aðgerða í efnahagsmálum. Það mátti engan tíma missa. Það var talað um daga frekar en vikur sem aðgerðirnar yrðu að vera tilbúnar á. Sex mánuðir eru sem sagt liðnir og lítið hefur gerst. Engin frv. um efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar, um heildstæða efnahagsstefnu, liggja hér fyrir eða hafa verið afgreidd og allt stefnir í mikið óefni, bæði í atvinnu- og efnahagslífi. Það er eiginlega sama hvar gripið er niður í þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin gaf upphaflega, að allt hefur brugðist sem þessi hæstv. ríkisstjórn setti sér í upphafi. Tökum t.d. vaxtamálin sem hafa verið eitt aðalumræðuefni þessarar hæstv. ríkisstjórnar alveg frá upphafi í

margvíslegu formi. Það eru fáir málaflokkar sem ríkisstjórnin hefur verið eins yfirlýsingaglöð í eins og einmitt vaxtamálin.
    Ég var að skoða hér fréttabréf um verðbréfaviðskipti sem gefið er út af Samvinnubankanum og þar er fjallað um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Ég vil nú segja ,,bragð er að þá barnið finnur`` þegar Samvinnubankinn sem er jú annar angi af Framsfl. eins og Samband ísl. samvinnufélaga lætur frá sér fara grein sem birtist í þessu fréttabréfi. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þetta fréttabréf. Fyrirsögnin er ,,Raunvextir lækka ekki með einfaldri samþykkt ríkisstjórnarinnar.`` Þar segir: ,,Í samþykkt ríkisstjórnarinnar 6. febrúar sl. um peninga- og vaxtamál segir: ,,Með samræmdu átaki verði unnið að því að lækka raunvexti þannig að vextir af verðtryggðum ríkisskuldabréfum verði ekki hærri en 5% og raunvextir af öðrum fjárskuldbindingum lagi sig að því. Vaxtamunur hjá bönkum og sparisjóðum og öðrum lánastofnunum minnki frá því sem nú er. Starfsskilyrði fjármálastofnana verði samræmd með breytingum á reglum um bindi- og lausafjárskyldu og hvað varðar heimildir til tímabundinnar íhlutunar um ávöxtunarkjör. Skipulag bankakerfisins verði bætt og samkeppni aukin á lánamarkaðinum.``
    Þetta er sótt í fylgiskjal með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Í fylgiskjali þessu er bent á mörg mikilvæg atriði sem gætu stuðlað að umbótum í peninga- og vaxtamálum, lægri raunvöxtum og betra jafnvægi á lánamarkaði svo sem:
    1. Ríkisstjórnin hefur veitt Seðlabanka heimild fyrir fram til að hækka bindiskylduhlutfall innlánsstofnana.
    2. Ríkissjóður mun neyta stöðu sinnar sem stærsti lántakandi á innlendum markaði til þess að ná fram hóflegum raunvöxtum.
    3. Lagt er að Seðlabankanum að beita sér fyrir endurskoðun á ávöxtunarkjörum viðskiptaskuldabréfa, viðskiptavíxla og skiptikjarareikninga.
    4. Beðið er eftir tillögum sérstakrar nefndar um lækkun vaxtamunar.
    5. Seðlabankanum verða gefnar nokkuð víðtækari heimildir til að blanda sér í vaxtaákvarðanir lánastofnana en nú er.
    6. Skilgreining á lausu fé innlánsstofnana verði með markvissari hætti en áður.
    7. Bindi- og lausafjárskylda nái til ráðstöfunarfjár innlánsstofnana en ekki eingöngu innlána eins og nú er, þ.e. veðdeildir verði teknar með.
    Í þessari upptalningu fer ekki mikið fyrir handaflinu umtalaða sem betur fer. Þetta bendir til þess að viðskrh. hafi takmarkaða trú á þeirri leið. Það vekur ekki síður athygli hvað er látið ósagt í greinargerðinni með frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi: Ekki er minnst á jafnvægi í þjóðarbúskapnum í heild, þ.e. framboð og eftirspurn á öðrum mörkuðum en peningamarkaðinum. Það skiptir sköpum hvað er að gerast á vinnumarkaðinum og vörumörkuðum því markmið um atvinnustig eða viðskiptahalla verður að skoða í samhengi við

markmið í peningamálum.
    Í öðru lagi: Hvergi er minnst á verðbólguna berum orðum. Þess er getið að veita verði sérstakt aðhald þegar verðstöðvun sleppir.
    Í þriðja lagi: Gengisstefnan hlýtur að skipta sköpum varðandi verðbreytingar en ekki er minnst á samspil gengisþróunar og peningamagnsbreytinga, hvað þá að þetta séu samningsatriði við ákvörðun fiskverðs.
    Í fjórða lagi: Treyst er á ýtrasta aðhald í ríkisrekstrinum þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af ríkishalla. Hvort tveggja er að hann virðist alltaf vera vanmetinn og falin skekkja í fjárlögum auk þess sem kjarasamningar eru á næsta leiti sem ráða úrslitum um framvindu efnahagsmála á næstunni.
    Maður fær það á tilfinninguna að verið sé að villa um fyrir lesandanum á ýmsan hátt. Látið er í veðri vaka að Seðlabankinn geti lækkað raunvexti með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs gegn 5% raunvöxtum óháð verðbólgu og væntingum fólks. Ríkissjóður getur auðvitað náð þessu markmiði fyrir sitt leyti með því að gefa út skírteini sem seljast ekki. Raunvextir lækka hins vegar ekki fremur en verðbólga með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum. Til þess að raunvextir lækki þarf að snúa dæminu við, það verður að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð. Þetta gerist með því að breyta peningaframboði af hálfu Seðlabankans með reglum um bindiskyldu og lausafjárhlutfall og með sölu spariskírteina við þeim vöxtum sem með þarf til þess að ná tilteknum sölumarkmiðum.
    Á venjulegum markaði getur fyrirtæki annaðhvort ákveðið verð vöru sinnar eða það magn sem það vill selja á tilteknu verði. Ef bæði verð og magn er ákveðið er nánast um tilboð að ræða fremur en markaðsstarfsemi en það er einmitt þess vegna sem svo mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn, það er erfitt fyrir þá að ráða yfir honum eða ákveða með lögum að hann skuli láta að vilja þeirra.
    Hérna lýkur tilvitnun í þetta fréttabréf um verðbréfaviðskipti sem gefið er út af Samvinnubankanum, sem sagt þessu útibúi Framsfl., og það er ekki há einkunn sem hvorki núv. hæstv. fjmrh. og því síður núv. hæstv. forsrh. fá hjá þessu fyrirtæki samvinnumanna um efnahagsstjórn í landinu enda rekur sig hvað á annars horn í þessu stefnuleysi sem er rétt að nefna svo heldur en í stefnu ríkisstjórnarinnar.
    En það er á einu sviði sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið mjög rösklega til hendinni í stjórn efnahagsmála og það er í skattaálögum. Það höfum við auðvitað rætt hér á hv. Alþingi fyrr í vetur eða þegar hin dæmalausu skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar voru til meðferðar og auðvitað var bent á það af hálfu okkar sjálfstæðismanna t.d. að á sama tíma og

atvinnuvegirnir stynja undan miklum erfiðleikum, rekstrarhalla, þá eru álögur, skattaálögur, stórauknar. Og á sama tíma og kaupmáttur almennings, kaupmáttur launa og heimilanna hefur lækkað, þá var efnt hér til af hálfu ríkisstjórnarinnar stóraukinna skattaálaga á heimilin í landinu.
    Við höfðum í þessari umræðu auðvitað ekki raunhæf dæmi fyrir okkur þá, skattframtöl lágu ekki fyrir, því var erfitt að hafa upp aðrar tölur en þær sem byggðust á spám sem byggðust þá aftur á ákveðnum forsendum sem menn þurftu þá að gefa sér.
    Nú liggur hins vegar fyrir fyrsta athugun sem gerð er af þessu tagi, hvaða áhrif þessar skattahækkanir hafa á atvinnulífið og það er fróðlegt fyrir hv. Alþingi að kynnast þeim niðurstöðum sem hér liggja fyrir, en þær eru birtar í fréttabréfi sem ég fékk inn um bréfalúguna hjá mér í dag, þ.e. fréttabréfi sem Vinnuveitendasamband Íslands gefur út og heitir ,,Af vettvangi``. Þar eru birtar niðurstöður af athugun þar sem könnuð var skattlagning fyrirtækja. Tekin voru 50 fyrirtæki í landinu og upplýsingarnar unnar úr skattframtölum 1988 um rekstur ársins 1987. Markast niðurstöður mjög af rekstrarskilyrðum þess árs og mismunandi afkomu atvinnugreina og einstakra fyrirtækja, eins og segir í fréttabréfinu. Í þessu úrtaki voru 10 fyrirtæki í sjávarútvegi, 8 fyrirtæki í samkeppnisiðnaði, 6 í byggingarstarfsemi, 11 í verslun og 15 fyrirtæki í ýmsum
rekstri. Þessi fyrirtæki voru mismunandi stór. Það voru 9 fyrirtæki mjög stór eða með veltu yfir 600 millj., 23 fyrirtæki með veltu á bilinu 100--600 millj. og 18 fyrirtæki með veltu undir 100 millj. Samtals var velta fyrirtækjanna í þessu úrtaki um 30 milljarðar árið 1987. Síðan er skýrt hvernig þessi athugun er framkvæmd, birtar ýmsar töflur sem skýra niðurstöður þessarar athugunar en að lokum eru niðurstöðurnar dregnar saman og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þessar niðurstöður:
    ,,Verulegar skattahækkanir á fyrirtækjunum voru samþykktar á Alþingi í desember sl. Þær fólust einkum í hækkun tekjuskattshlutfalls, minnkun afskrifta, helmingun á mögulegu framlagi í fjárfestingarsjóð og hækkun eignarskatta. Skattkerfisbreytingin kemur mjög mismunandi niður á atvinnugreinum. Er beinlínis stefnt að slíkri mismunun með sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Á sama tíma og skattstofninn er stækkaður er skatthlutfall hækkað og er það í hrópandi ósamræmi við stefnu stjórnvalda í helstu samkeppnisríkjum okkar. Helstu niðurstöður samanburðar á skattgreiðslum samkvæmt núgildandi og síðastgildandi skattalögum miðað við rekstrarafkomu úrtaks 50 fyrirtækja á árinu 1987 leiðir í ljós að tekjuskattsgreiðslur hefðu að jafnaði orðið 62% hærri samkvæmt nýju lögunum, eignarskattsgreiðslur 46,5% hærri og skattgreiðslur samtals 56,5%. Stór fyrirtæki bera meginhluta skattbyrðarinnar og er skattahækkunin mest á þeim. Við samanburð á atvinnugreinum er skattahækkun mest á sjávarútvegi [og taki menn nú eftir,

sjávarútvegi, þ.e. þeirri atvinnugrein sem hvað verst hefur borið sig og sem nýtur nú sérstakra styrkja úr ríkissjóði eins og hér hefur áður komið fram í þessum umræðum].
    Virkur skattur, þ.e. tekjuskattsgreiðslur sem hlutfall af tekjuskattsstofni, hækkar úr 33,6% að jafnaði í 48,3% eða um næstum því helming. Skattbreytingin jafngildir því að tekjuskattshlutfall hefði hækkað úr 48% í 69% að öðru óbreyttu. Meiri hluti ávöxtunar fyrirtækja er tekinn í skatta. Samkvæmt 50 fyrirtækja úrtakinu tekur ríkið á bilinu 53% til 62% af ávöxtun fyrirtækjanna. Það er umhugsunarvert hve slæm afkoma íslenskra fyrirtækja var á árinu 1987 sé það haft í huga að hagvöxtur var mikill, nálega 9%, en afkoma að líkindum lakari en árið áður. Það virðist því sem mikill vöxtur sé ekki það sem íslenskt atvinnulíf þurfi fyrst og fremst á að halda en miklum vexti fylgja jafnan mikil verðbólga og sveiflur í raungengi og eftirspurn. Það sem fyrirtækin þurfa á að halda er sem stöðugast umhverfi sem leyfir þeim að vaxa og byggja sig upp. Óvissa í efnahags- og skattamálum hefur verið fyrirtækjunum erfið og gert allar áætlanir marklitlar. Heildarskattlagning þar sem 55--60% af ávöxtun fyrirtækjanna eru tekin frá þeim ýtir undir að arður sé greiddur út í stað þess að nota arðinn til uppbyggingar en lán tekin í staðinn. Ekki leikur nokkur vafi á að skattalögin séu veigamikill þáttur í skýringu á lakri eiginfjárstöðu og smæð íslenskra fyrirtækja.``
    Þetta var tilvitnun í þetta sérstaka fréttabréf þar sem birtar eru fyrstu athuganir sem framkvæmdar hafa verið, að því er mér er best kunnugt um, á áhrifum þeirra hinna nýju skattalaga á íslensk fyrirtæki og íslenskt atvinnulíf. Það er alveg augljóst að þessi skattastefna, þessi þáttur í efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar, dregur úr mætti fyrirtækjanna til að efla sig, dregur úr mætti þeirra til þess að framleiða meiri verðmæti og skapa meiri atvinnu í landinu og því er það nú svo að atvinnuleysi er hér meira en þekkst hefur um árabil. Og þetta gerir auðvitað það að verkum að fyrirtækin í landinu eiga í miklum erfiðleikum með að koma til móts við þær kaupkröfur sem nú eru uppi í þjóðfélaginu en þær kaupkröfur eiga auðvitað að verulegu leyti rætur að rekja til óstjórnarinnar í efnahagsmálum og til þeirrar miklu skattabyrðar sem lögð var á almenning með ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og hæstv. Alþingis nú fyrr í vetur.
    Þetta hefur kallað á mikla óvissu á vinnumarkaði og það sem er kannski óvanalegt við þær vinnudeilur sem nú eru uppi er hvað þær beinast nú í ríkum mæli að ríkisstjórninni. Þá á ég ekki við það að opinberir starfsmenn hugsa sér mjög til hreyfings og hver hópurinn á fætur öðrum boðar nú til verkfalls þann 6. apríl nk., stórir hópar eins og kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi t.d., heldur hitt að það virðist vera nokkuð samdóma álit bæði Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands að aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum það sem af er þessum vetri kalli raunverulega á að ríkisstjórnin taki

verulegan þátt í þessum kjarasamningum með einum eða öðrum hætti, t.d. með því að gefa til baka eitthvað af þeim skattahækkunum sem dundu yfir í vetur, bæði hjá einstaklingum og hjá fyrirtækjum. Það er því allt í óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu augnabliki. Það er mikil ringulreið innan ríkisstjórnarinnar varðandi þessi mál og raunar veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir í þeim efnum.
    Ég tók það fram, herra forseti, að ég mundi ekki flytja langa ræðu að þessu sinni, ég vil gjarnan hleypa hæstv. fjmrh. að þannig að hann geti svarað þeim spurningum sem til hans hefur verið beint en ég ítreka að frv. sem er til umræðu er dæmi um ótrúlegan slappleika þessarar ríkisstjórnar. Það hefur verið
bent á það hér að lántökuheimildir samkvæmt frv. hafa hækkað um rúmlega 100% frá því að það var lagt fram og erlendar lántökur samkvæmt frv. hafa hækkað um 50% í meðförum Alþingis frá því það var lagt fram. Það sýnir auðvitað hvað hér hefur verið illa að verki staðið og að þessi hæstv. ríkisstjórn virðist gjörsamlega hafa misst öll tök á öllum þeim málum sem snerta efnahagsmál og hún getur haft vald yfir.