Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Það er nú verið að ræða hér frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 þegar næstum því þrír mánuðir eru liðnir af árinu. Ég hefði nú talið að hér væri um mál að ræða sem þingmenn almennt hefðu áhuga á, þyrftu að fylgjast með umræðum og jafnvel taka þátt í umræðum. Hér inni í salnum er einn framsóknarþingmaður og hér er einn alþýðuflokksmaður, að vísu varaþingmaður sem á hér sæti inni, hinir láta ekki sjá sig inni í þingsalnum. Hæstv. fjmrh., formaður Alþb., kemst núna hérna í dyrnar. Þegar svo er komið að það hafa margar fyrirspurnir verið lagðar fram sem menn vilja fá skýr svör við en ekki verið að halda uppi hér neinu málþófi, þá hefur það tíðkast hingað til að ríkisstjórn svarar eða ráðherra svarar fyrirspurnum. Og það hefur ekki þurft að fara bónarveg að þeim og biðja um að forseti deildar fái þá til viðtals til þess að taka til máls. Og mér þykir það alveg sérstaklega undarlegt, þar sem hæstv. fjmrh. hefur verið afskaplega ólatur maður við að koma í ræðustól, að það þurfi nú á þessum síðustu og verstu tímum að fara bónarveg að honum að svara hér nokkrum spurningum.
    Ég hefði talið að sjútvrh., sem hér hefur verið mikið vitnað til, eins og í sambandi við lántökuna til frysti- og hörpudisksdeildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, mundi verða hér við umræðuna og svara fyrirspurnum. Hann hefur látið hafa það eftir sér að þetta lán verði aldrei borgað af Verðjöfnunarsjóði eða þessari deild af þeirri einföldu ástæðu að þessi deild á ekkert til og getur ekkert borgað. Þetta er beint ríkislán. Að það væri skýrt hér fyrir Alþingi, ég tel að það sé skylda ráðherra og ríkisstjórnar að koma með eina niðurstöðu í þessu máli en lýsa því ekki yfir sitt á hvað eftir því hvort menn eru sjútvrh. eða fjmrh.
    Það hefur verið vitnað hér mjög oft í forsrh. og hans yfirlýsingar, sérstaklega í sambandi við bankakerfið. Hann sést ekki hér í allan dag.
    Hér hefur verið vitnað í viðskrh. Hann hefur gildar ástæður fyrir því að vera ekki hér í deildinni vegna þess að hann er að tala fyrir málum í Ed. og við því er ekkert að segja.
    Ég tel að samgrh. þyrfti að vera hér líka. Hér hefur verið rætt allmjög um vegamálin, framlagningu vegáætlunar sem er að vísu skylt mál þessu frv. sem hér er til umræðu og afgreiðslu. Menn er farið að lengja eftir því að sjá framlagningu þáltill. að vegáætlun og skýringar í sambandi við það.
Ég minnist þess ekki allan þann tíma sem ég hef átt sæti á hv. Alþingi að stjórnarliðið væri alveg orðið mállaust. Mér er alveg ljóst að það eru fáir þingmenn stjórnarinnar sem treysta sér lengur til að verja hana og ég er ekkert að átelja þá fyrir það því að það má þurfa heldur betur sterk bein og óskammfeilni ef það eru til nokkrir þingmenn sem vilja lengur verja þessa ríkisstjórn. En það er komið að því að a.m.k. þessi ríkisstjórn sjálf svari fyrir sig og svari þinginu og sýni þinginu þá kurteisi að svara þeim fyrirspurnum sem til

hennar er beint.