Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það hafa farið hér fram í dag nokkuð ítarlegar umræður um lánsfjárlög. Þær umræður hafa aðallega einkennst af ýmsum almennum pólitískum athugasemdum fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem eru að mörgu leyti sjálfsagðar og eðlilegar við þetta tækifæri. Síðan hafa verið bornar fram ýmsar spurningar, m.a. frá hv. síðasta ræðumanni, sem ég hafði vikið að fyrr í vetur og er í sjálfu sér ekkert nýtt um það að segja. Þeim hefur verið svarað áður. Síðan hafa verið nokkrar nýjar fyrirspurnir. Sumar þeirra eru þess eðlis að það liggur ekki beint við að veita svör við þeim. Aðrar eru þannig að það er hægt að veita við þeim ákveðin svör. ( KrP: Hafa þessar athuganir þá farið fram?)
    Það var spurt að því hvað tæki við í maí eða júní þegar hinar sérstöku aðgerðir sem ákveðnar voru í þágu sjávarútvegsins á síðasta ári og fyrir nokkrum mánuðum renna út. Ég veit að þeim hv. þm. sem að þessu spyrja er kunnugt að það fer töluvert eftir því hvert ástand er á mörkuðum fyrir íslenskar afurðir og hver rekstrarstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna er á þeim tíma. Það eru ýmsir kunnáttumenn í sjávarútvegi hérlendis og erlendis sem telja að á næstu mánuðum muni verða allverulegar verðhækkanir á íslenskum afurðum. Við skulum vona að þær spár séu réttar og það mun koma í ljós í sumar hvort það reynist rétt eða ekki. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt þegar við búum við jafnsveiflukenndan grundvallaratvinnuveg og sjávarútvegurinn er að menn taki mið af þeirri þróun og það er ljóst að fiskverð hefur um nokkurn tíma verið mjög lágt.
    Enn fremur er með vissum hætti ánægjulegt að fiskvinnslan kaus við síðustu fiskverðssamninga að semja um hærra fiskverð við kaupendur en rætt hafði verið um á vettvangi ríkisstjórnar og af hálfu oddamanns og það er vissulega ánægjulegt að fiskvinnslan skyldi við ákvörðun síðasta fiskverðs treysta sér til að semja um hærra fiskverð en oddamaður var reiðubúinn að semja við hana um og kaus frekar að gera samninginn við seljendur. Það gefur til kynna að í verki hafi forsvarsmenn fiskvinnslunnar talið að hún gæti borið þá hækkun.
    Það var enn fremur spurt að því með hvaða hætti yrðu fjármagnaðar niðurgreiðslur á raforku og endurgreiðslur á söluskatti, um það bil 100 millj. hvor ákvörðun, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið. Svarið við því er í raun og veru mjög einfalt. Það mun vera gert með svipuðum hætti og fjármögnun annarra slíkra ákvarðana sem teknar eru af hálfu ríkisstjórnar á líðandi ári þegar í ljós kemur hver afkoma ríkissjóðs verður fyrir árið í heild. Eins og ég vakti athygli á þegar við gengum frá fjárlögum var það mikilli óvissu undirorpið hver þróun ríkisfjármálanna yrði á árinu 1989, bæði vegna þess að á síðustu mánuðum ársins 1988 varð mikið fall í tekjum ríkissjóðs og það gat enginn, hvorki stjórnmálamaður né sérfræðingur, sagt fyrir um hvort það fall héldi áfram, hvort það yrði stöðugt á því stigi sem það hafði fallið eða hvort um tekjuauka yrði að ræða. Þær áætlanir sem gerðar voru

um tekjur og gjöld ríkissjóðs fyrir fyrstu tvo mánuði þessa árs hafa staðist, en það er ekki þar með sagt að svo verði allt árið. Mat ríkisstjórnar og þings á því hvað gert verður af tilefni þessara ákvarðana, sem ég nefndi hér áðan, fer auðvitað eftir því hver þróun ríkisfjármálanna verður um miðbik og seinni hluta ársins.
    Þá var einnig spurt að því hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar varðandi nýbyggingu skips fyrir Herjólf og vitnað til þess að í ákvæðum lánsfjárlaga væri kveðið á um að um nýtt skip ætti að vera að ræða. Ég held að ég fari alveg rétt með það, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, að það stendur ekki í lánsfjárlögum fyrir árið 1988 að um nýtt skip eigi að vera að ræða heldur átti að fara fram athugun á því hvort um nýtt eða eldra skip væri að ræða. Staða þessa máls er á þann veg að ég taldi ekki rétt að taka ákvörðun um heimild fyrr en lánsfjárlög sem nú eru hér til meðferðar væru afgreidd. Það yrði að bíða þessara lánsfjárlaga sem nú eru hér til umfjöllunar að taka slíka ákvörðun. Mér fannst eðlilegt og rétt að gera það.
    Þegar ég hins vegar komst að því að það voru nokkuð mismunandi sjónarmið þeirra embættismanna sem fráfarandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, hafði falið að meta hvort um nýtt skip ætti að vera að ræða eða eldra og forsvarsmanna fyrirtækisins varðandi það hvert hefði verið eðli og niðurstaða þeirrar athugunar sem fram fór á möguleikum þess að fá eldra skip keypt, þá ákvað ég á sameiginlegum fundi með fulltrúum Vestmanneyinga og þessara embættismanna að nota tímann þar til Alþingi hefði afgreitt lánsfjárlög til að láta fara aftur yfir það dæmi svo að enginn ágreiningur yrði milli embættismannanna sem þetta verk unnu, í þeim hópi er m.a. vararíkisendurskoðandi, og forsvarsmanna fyrirtækisins í Vestmannaeyjum. Ég taldi mikilvægt að það færi ekkert á milli mála af hálfu beggja aðila hvers eðlis könnunin hefði verið og hvort hún væri fullnægjandi. Það er þess vegna misskilningur, sem m.a. kemur fram í grein eftir Árna Johnsen, varaþingmann Sjálfstfl., í Morgunblaðinu í dag, að það sé verið að vinna gegn þessu máli. Þvert á móti tel ég að það sé verið að nota þennan tíma til að eyða óvissu og hugsanlegum ágreiningi um málið vegna þess að eins og hv. alþm. vita þarf
fjvn. að fjalla um málið áður en það kemur endanlega til afgreiðslu.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að ég hafi þar með svarað flestum af þeim spurningum sem hér var til mín beint og þau svör geti greitt fyrir framgangi málsins.