Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Sú var tíðin að ekki þurfti að draga hæstv. núv. fjmrh. upp í þennan ræðustól og hæstv. forseti þessarar deildar þurfti ekki að senda starfsmenn þingsins til að bjóða hæstv. fjmrh. svona í allri auðmýkt orðið, hvort hann mundi ekki vilja stíga niður úr sínu hásæti og niður í þennan ræðustól til að svara þeim fyrirspurnum sem til hans hefði verið beint. En þetta gerðist nú og er út af fyrir sig nokkuð athyglisverður atburður.
    Hæstv. fjmrh. kom sem sé hingað í ræðustólinn en þótt hann segði í lok ræðu sinnar að hann teldi sig hafa svarað flestum þeim fyrirspurnum sem til hans hefði verið beint fer því auðvitað víðs fjarri. Því fer víðs fjarri að hæstv. ráðherra hafi svarað öllu því sem hann var spurður um. Það verður kannski að teljast fullreynt úr því að 2. umr. er að ljúka að hæstv. ráðherra muni svara meiru. Ég geri ekki ráð fyrir því, jafnvel ekki þó starfsmenn þingsins væru sendir til hans og hann spurður hvort hann vildi koma aftur til þess að svara fleiru. ( ÞP: Það má nú reyna það.) Kannski má reyna. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti sem nú er í forsetastól muni gera slíka tilraun. Það má vel vera.
    Mér finnst ræða hæstv. fjmrh. sýna niðurlægingu hæstv. ríkisstjórnar og ráðherrans sjálfs. Þetta sýnir auk þess ákveðna fyrirlitningu á Alþingi. Það eru ákveðin orð sem leika hæstv. fjmrh. oft á vörum. Það eru orðin lýðræði og þingræði, að enginn ráðherra hafi hvorki fyrr né síðar að mér skilst haft eins náin og góð samskipti við þingið og nefndir þess. Mér sýnast þetta vera hálfgerð öfugmæli hjá hæstv. ráðherra þegar hann telur sig hér í ræðustól rétt á undan mér hafa svarað öllu því sem til hans hefur verið beint.
    En eins og ég segi: Ég held að það hljóti að teljast fullreynt að ráðherrann muni ekki svara frekar. En ég vek athygli á því að það hefur verið beint fyrirspurnum til fleiri ráðherra en hæstv. fjmrh. Þeir láta ekkert sjá sig í hv. deild. M.a. var beint ákveðnum fyrirspurnum til hæstv. félmrh. af hv. 1. þm. Suðurl. í dag. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra skrifaði það hjá sér sem spurt var að, en hvarf síðan úr salnum.
    Ég held að við verðum að reikna með því, því miður, að 3. umr. um þetta mál standi kannski nokkru lengur en við reiknuðum með fyrst hæstv. ríkisstjórn ætlar að reyna að koma sér svona undan málunum. Ég held að við hljótum að gera þá kröfu að við 3. umr. mæti þeir ráðherrar sem menn hafa beint sérstaklega orðum til. Við hljótum að gera þá kröfu. Við skulum reyna að ljúka 2. umr., en við 3. umr. verður að endurtaka þær spurningar sem hafa verið bornar fram og knýja fram svör. Annað er óvirðing við þingið og þingið á ekki að sætta sig við slík vinnubrögð hjá nokkurri ríkisstjórn.