Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Niðurlæging þessarar hæstv. ríkisstjórnar er með eindæmum. Ég hygg, eins og hér hefur verið bent á, að það hafi ekki gerst í annan tíma að í umræðu um það stjfrv. sem er í raun og veru umgerð efnahagsstefnunnar gerist sá atburður fyrst að hæstv. fjmrh. ætlar þegar umræðunni er lokið og enginn er á mælendaskrá að víkja sér undan því að svara áleitnum spurningum og það er ekki fyrr en að gerðum mjög stífum kröfum, sem hafa leitt til þess að forseti þessarar hv. deildar sendir þingvörð á fund hæstv. fjmrh. í hliðarherbergi, að hæstv. fjmrh. ljær máls á því að stíga í stólinn að lokinni þessari umræðu. Ég hygg að hér sé um að ræða einsdæmi í þingsögunni varðandi umfjöllun um svo veigamikið mál og það sé rétt ábending, sem hv. 1. þm. Vestf. kom með, að jafnvel ráðherrarnir í hæstv. ríkisstjórn treysta sér nú ekki til að taka til málsvarnar fyrir stjórnarstefnuna hvað þá heldur hv. þm. stjórnarflokkanna. Það er auðvitað laukrétt að eins og málum er komið getur enginn ætlast til þess að þeir beri þá þungu byrði hér að gerast málsvarar stjórnarstefnunnar. En meðan ríkisstjórnin situr er það lágmarkskrafa að ráðherrarnir svari hér fyrirspurnum. Það er hluti af lýðræðislegri skyldu þeirra.
    Jafnvel austur í Sovétríkjunum eru menn að færa stjórnarhætti í átt til aukins þingræðis, en þá gerist það um sömu mundir að formaður Alþb. verður allsráðandi í ríkisstjórn Íslands og þingræðið hefur aldrei verið vanvirt meir í annnan tíma. Nánast í öllum umræðum um þingmál hér sem hæstv. fjmrh. hefur borið fram hefur hann færst undan að svara. Það hefur þurft með ágengni að fá hann til að svara fyrirspurnum og þá hefur það verið gert með einhverjum yfirborðskenndum hætti án þess að taka á nokkrum hlut. Sumir kunna kannski að segja að það stafi af því að hæstv. ráðherra viti ekki í raun og veru um hvað þau mál snúast og kunni ekki svörin við þeim spurningum sem fram eru bornar. Ég held að það sé af öðrum ástæðum. Ég trúi því ekki að ástæðan sé sú að hæstv. ráðherra kunni ekki svörin. Því miður held ég að ástæðan sé miklu hryggilegri og hún er vanvirða hæstv. ráðherra við Alþingi, lítilsvirðing hans við þingræðið í landinu.
    Menn minnast þess þegar hæstv. ráðherra kom fram í sjónvarpi og sagði: Ég þarf ekki lög til að gera það sem ég geri. Það er nóg að ég lýsi því yfir að ég ætli að flytja frv. að lögum til þess að ég geti gert það sem mér sýnist, og vitnaði svo í einhverja lögfræðinga Seðlabankans sér til halds og trausts í þessu efni en hefur að vísu ekki þorað að nafngreina þá aðspurður í ræðustól á hinu háa Alþingi.
    Því miður hygg ég að þessi lítilsvirðing á þingræðinu ráði mestu um að hæstv. fjmrh. færist undan að svara fyrirspurnum, ekki í fyrsta sinn í þessari umræðu heldur með áhrifameiri hætti en nokkru sinni fyrr og lítilmannlegri hætti en nokkru sinni fyrr. Hæstv. ráðherra sagði eftir að hafa verið dreginn hér upp: Það liggur ekki beint við að veita svör við þeim fyrirspurnum sem bornar voru fram.

Það liggur ekki beint við. Alþingi kemur það ekkert við. --- Það er verið að gefa það í skyn.
    Hér var dregið fram að það vantaði inn í fjárlög ríkisins mjög veigamikla þætti. Það vantaði bókhaldslegar ákvarðanir um yfirlýstar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um óbreytt niðurgreiðslustig sem kostar 670 millj. kr. Það var bent á niðurgreiðslu á raforku og það var bent á endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Það var bent á þær brtt. sem stjórnarmeirihlutinn flytur og gefur hæstv. fjmrh. og fjvn. heimild til að semja um lagalegar skuldbindingar ríkissjóðs varðandi búfjárræktarframlög og jarðræktarframlög. Niðurstaðan af allri upptalningunni var sú að hallinn á ríkissjóði virðist vera kominn upp í 2 milljarða og er þá ekki verið að tala um viðbótargreiðslur sem kunna að þurfa að koma til vegna áframhaldandi endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti eftir maímánuð og hugsanlega áframhaldandi uppbótarkerfi í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þessar tölur hrakti fjmrh. ekki í sinni ræðu og gerði enga tilraun til að sýna fram á annað en að þarna væri gat í fjárlagagerðinni og það er athyglisverð staðreynd.
    En það er til þess ætlast að ríkisstjórn sem hefur lýst því yfir að hún ætli að halda niðurgreiðslustiginu óbreyttu svari því hvort hún ætlar að standa við þá ákvörðun eða ekki og sýni það þá í verki annaðhvort í fjárlögum eða með því að taka lán og geri hinu háa Alþingi grein fyrir því. Þetta er lágmarkskrafa. Hæstv. ráðherra getur svarað svona fyrirspurnum mjög einfaldlega. Hann þarf hvorki að vísa til spádóma um fiskverð eða rekstur sjávarútvegsins til að svara fyrirspurn af þessu tagi. Þetta er yfirlýst ákvörðun en það vantar það sem við á, annaðhvort að færa þetta inn í fjárlög ríkisins eða inn í lánsfjárlög. Hæstv. ráðherra hlýtur á þessu stigi að geta svarað svo einfaldri og skýrri spurningu nema hann ætli að dylja og leyna Alþingi hvaða ákvarðanir hæstv. ríkisstjórn hefur tekið og hvaða áform hún hefur í þessu efni. Kannski er það ástæðan að hæstv. ráðherra svarar hér ekki að hann ætlar sér að leyna Alþingi og fela fyrir Alþingi það sem ákveðið hefur verið til að láta einhverja pappíra um lánsfjárlög og fjárlög ríkisins líta betur út. Er á meðan er, hugsar ráðherra. Það er þá allt í lagi að sýna fjárlagahallann í haust.
    Auðvitað á nákvæmlega það sama við að því er varðar lántöku Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ríkisstjórnin hlýtur að geta svarað því hvernig á að bókfæra það lán. Hæstv. sjútvrh. hefur gefið þar um yfirlýsingar. Fulltrúar fiskvinnslunnar hafa margítrekað að hann standi við þær en ekkert gerist. Það á að taka lán án þess að bókfæra það nokkurs staðar. Og hæstv. ráðherra getur engu svarað.
    Að því er varðar lántöku Herjólfs lá það fyrir löngu fyrir áramót að könnun sem fram fór um það hvort hagkvæmara væri að kaupa nýtt skip var lokið og það var hægur vandi áður en þau lánsfjárlög runnu úr gildi að veita stjórn Herjólfs heimild til að fara af stað með nýbyggingu skips eins og Alþingi hafði heimilað að gert yrði. Hér var því um augljósan

tafaleik að ræða af hálfu ráðherra og enn fást í raun og veru ekki skýr svör um það hvort hann ætlar skilyrðislaust að leyfa fyrirtækinu að hefjast handa við þessar framkvæmdir eftir að Alþingi hefur nú samþykkt lánsfjárlög. Það er nauðsynlegt að ráðherra tali þar alveg skýrt og segi alveg skýrt út hvort hann ætlar að standa áfram í vegi fyrir þessari framkvæmd eða veita heimildina svo sem Alþingi hefur mælt fyrir um. Að gefnu tilefni vegna ummæla hæstv. fjmrh. er nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. taki þátt í umræðu áður en þessi hv. deild afgreiðir þetta mál frá sér.
    Hér kemur hæstv. fjmrh. og segir að vafi leiki á hver rekstrarafkoma sjávarútvegsins verði eftir örfáar vikur og heldur því fram að með fiskverðsákvörðun hafi forustumenn fiskvinnslunnar lýst því yfir að þeir geti bara ekki aðeins borið fiskverðshækkun heldur gaf hann í skyn að það væri kannski enginn vandi fram undan. Það þyrfti hvorki að breyta gengi í maí né heldur að halda uppbótakerfinu áfram vegna þess að með fiskverðsákvörðun hefðu forustumenn fiskvinnslunnar lýst því yfir að það væri allt í lagi í sjávarútveginum. Þegar forustumaður um efnahagsmálastjórn ríkisstjórnarinnar talar á þennan veg er óhjákvæmilegt að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir því hvort hann er sammála þessum yfirlýsingum, hvort það er stefna stjórnarinnar að láta þessar uppbætur renna út í maí án nokkurra annarra aðgerða, án þess að nokkuð taki annað við. Hallarekstur þrátt fyrir þetta uppbótarkerfi verður auðvitað enn meiri þegar því lýkur og vandi iðnaðarins augljós vegna gengisfölsunar eins og hæstv. forsrh. hefur margsinnis bent á. Á þetta bara að renna svona út í maí án þess að nokkuð eigi að gera? Ætlar ríkisstjórnin ekki að afla neinna heimilda við afgreiðslu lánsfjárlaga til þess að geta tekið á þessu máli í maímánuði? Það er nauðsynlegt að hér fáist skýr svör.
    Það voru bornar fram mjög ákveðnar fyrirspurnir til hæstv. félmrh. og hér voru að gefnu tilefni bornar fram fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. vegna samráðsins sem ríkisstjórnin boðaði fyrir jól við aðila vinnumarkaðarins og hlýtur að vera komið á nokkurn endapunkt þegar kjarasamningar eru á því viðkvæma stigi sem þeir eru í dag. Það stóð ekki á því að hæstv. forsrh. boðaði samráð fyrir jól og sagðist ætla að hefja það milli jóla og nýárs. Hann gat þá ekki svarað neinu um það hver viðræðugrundvöllur ríkisstjórnarinnar á að vera. En nú hefur það nokkrum dögum fyrir páska verið upplýst í Þjóðviljanum hvað það er sem verkalýðshreyfingin leggur áherslu á og lítur svo á að sé umræðugrundvöllur í þessu samráði við ríkisstjórnina. Þar er ekki einungis krafan um að ríkisstjórnin standi við fyrirheitið um að niðurgreiðslustigið á landbúnaðarvörum verði óbreytt heldur að landbúnaðarvöruverðið hækki ekki og breytist ekkert það sem eftir er af árinu. Hér er spurt: Hvað kostar það til viðbótar? Hvaða afstöðu hefur ríkisstjórnin til þessa atriðis eftir allar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um samráðið? Og það er spurt að því hvaða afstöðu ríkisstjórnin ætlar að taka til þeirrar kröfu sem hér er sett fram um að breyta vörugjaldinu

og tveir hæstv. ráðherrar hafa gefið forustumönnum iðnaðarins í landinu ótvírætt til kynna að feli í sér að þeir ætli að lækka vörugjaldið aftur. Það þurfa að fást svör við þessu. Og hæstv. fjmrh. þarf að svara því hér hverju hann ætlar að svara launþegasamtökunum um hækkun skattleysismarkanna. Þetta eru allt atriði sem lúta beint að fjárlögum og lánsfjárlögum.
    Ríkisstjórnin hefur setið á fundum til að fjalla um þessi mál undanfarna daga og svo ætlar hæstv. fjmrh. að ljúka 2. umr. lánsfjárlaga í hv. Nd. án þess að svara einu einasta orði um þessi efni. Það er gersamlega útilokað að svona geti viðgengist. Hér er þar að auki um að ræða mjög viðkvæm mál. Hæstv. forsrh. hefur ekki stært sig svo lítið af samráðinu sem hann boðaði fyrir jól, gat þá ekki greint frá umræðugrundvelli hæstv. ríkisstjórnar. Nú ætlar hæstv. fjmrh. að skjóta sér undan því að svara hver þessi umræðugrundvöllur er þegar fyrir liggur að fjölmörg áhrifamikil félög opinberra starfsmanna hafa boðað verkfall innan ekki langs tíma og launþegasamtökin í landinu hafa sýnt meiri skilning við gerð kjarasamninga en dæmi eru til um í langan tíma. Þar eru ekki nefndar kröfur um kaupmáttaraukningu vegna þess að verkalýðshreyfingin vill taka tillit til þess hvaða afleiðingar vinstristjórnarstefnan hefur haft á atvinnulífið í landinu. En hún gerir ákveðnar kröfur um að það samráð sem hæstv. forsrh. bauð upp á fyrir jól skili einhverjum árangri. Það er
lágmarkskrafa að hæstv. fjmrh. svari nú og geri grein fyrir þeim grundvelli áður en þessari umræðu lýkur.