Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að fá að spyrja hæstv. fjmrh. aftur. Er hann einhvers staðar nálægur? ( Forseti: Það verður gengið úr skugga um það.)
    Hæstv. forseti. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því áðan hvaða athuganir hefðu farið fram á áhrifum lánsfjáráætlunar á íslenskan fjármagnsmarkað og hann kom hér og sagði að hann hefði verið búinn að svara þessari spurningu. Ég hef spurt þessarar spurningar áður, en hann hefur aldrei svarað henni. Mér finnst það ómerkilegt af hæstv. fjmrh. að halda því fram að hann hafi svarað spurningunni þegar hann hefur ekki gert það. Ef hann vill hins vegar ekki svara þessari spurningu er ég að hugsa um að óska eftir því að hv. formaður fjvn. svari því hvort einhver athugun hafi farið fram á því hvaða áhrif lánsfjáráætlun hefði á lánamarkaðinn um þessar mundir.
    Til þess að útskýra örlítið hvað ég á við er ég hérna með splunkunýtt fréttabréf frá verðbréfaviðskiptum Samvinnubankans. Þar stendur svo, með leyfi forseta:
    ,,Raunvextir lækka ekki fremur en verðbólga með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum. Til þess að raunvextir lækki þarf að snúa dæminu við. Það verður að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð.``
    Þetta er splunkunýtt fréttabréf verðbréfaviðskipta Samvinnubankans og er nú gott fyrir framsóknarmenn að heyra þetta.
    En það er þessi spurning sem ég er að spyrja: Hvert er heildarframboð fjármagns í þjóðfélaginu? Er heildareftirspurn í samræmi við heildarframboð? Og hvað gerðist um síðustu áramót? Kvóti var dreginn saman um 10%. Hvað þýðir þetta upp á heildarframboð á fjármagni á Íslandi? Halda menn að þetta hafi engin áhrif? Geta menn sett áætlanir ef þeir hafa ekki hugmynd um hvar þeir eru staddir? Getur skipstjóri náð landi á skipi sínu ef hann hefur ekki hugmynd um hvar hann er? Getur hann reiknað út sjókort ef hann veit ekki hvar hann er? Ég skil satt að segja ekki svona vinnubrögð og þau eru Alþingi Íslendinga ekki til sóma, að ekki skuli fara fram athugun á áhrifum lánsfjáráætlunar á íslenskt atvinnulíf og áhrif þess þar af leiðandi á lífskjörin í landinu og hugsanleg gjaldþrot fyrirtækja.
    Í öðru lagi sagði hæstv. fjmrh. áðan að fiskverð hefði verið ákveðið og fiskkaupendur hefðu ábyggilega gert sér grein fyrir hvað þeir þyrftu að borga þegar þeir ákváðu fiskverð. Þetta finnst mér ekki mjög merkileg framkoma hjá hæstv. fjmrh. vegna þess að fiskverð var ákveðið í samráði við ríkisstjórnina eftir því sem mér er best kunnugt um. Síðan hélt hann því fram að það væru miklar líkur fyrir því að fiskverð á erlendum mörkuðum mundi hækka. Ég vil fá að vita hvaða heimildir þetta eru. Á ekki þjóðþingið rétt á því

að fá að vita, þegar verið er að halda því fram að þjóðin eigi von á meiri tekjum, að það sé meira en orðin tóm? Hvaða menn eru það sem hæstv. fjmrh. er að vitna í? Það er ekki hægt að halda svona löguðu fram í málstofu Alþingis öðruvísi en hafa eitthvað til síns máls og ég skora á hann að koma upp og rökstyðja hvað hann er að fara. Það er ekki síst ómerkilegt að halda þessu fram vegna þess að atvinnulífi landsmanna er haldið gangandi í nokkurs konar öndunarvélum þar sem stofnaðir eru sjóðir hver á fætur öðrum. Hvað verður næst? Verður það einhver rekstraröryggissjóður, verður það næsti sjóður, til að þykjast vera að gera eitthvað meðan verið er að drepa atvinnulífið niður? Verður það næsta öndunarvélin hjá þessari hæstv. ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju? Ég get ekki látið hjá líða að mótmæla svona ómerkilegum vinnubrögðum.