Ályktunarfær þingfundur
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Við höfum nú í góðu samkomulagi hjálpast við að koma tveimur frumvörpum í gegnum 2. umr. og atkvæðagreiðslur hafa yfirleitt fallið þannig að greinarnar hafa verið samþykktar með þetta 17--18 atkvæðum og misjafnlega mörgum mótatkvæðum og þar hafa sumir meira að segja greitt atkvæði dálítið öðruvísi en þeir höfðu hugsað sér til að ná einhverjum tilskildum meiri hluta þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni.
    Ég ætla ekki að gera beina athugasemd við þetta, en mig langar til að beina því til hæstv. forseta að hann athugi nú á milli umræðna eina tiltekna grein þingskapa. Mér er mætavel kunnugt um að þetta hefur oft gerst hér á hv. Alþingi og meiri háttar lagabálkar jafnvel verið samþykktir með minni hluta já-atkvæða, ef ég má svo orða það, í hv. deildum Alþingis. En í 45. gr. þingskapa segir svo í 2. mgr.: ,,Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni.``
    Mín spurning til hæstv. forseta er sú: Hverjir eru atkvæðisbærir? Ég hef ákveðna skoðun á því hverjir það eru og ef mín skoðun er rétt nægja ekki 17 eða 18 atkvæði með, alveg burtséð frá því hversu margir greiða atkvæði á móti.
    Það er sem sagt mín spurning til hæstv. forseta hvernig beri að túlka þessa grein og hefði kannski mátt spyrja þessarar spurningar miklu fyrr, jafnvel nokkrum árum fyrr.